Sólveig Thorstensen fæddist 11. ágúst 1934 á bænum Reykjanesi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Hún lést 14. ágúst 2023.
Foreldrar hennar voru Hermann Thorstensen frá Þingvöllum og Katrín Thorstensen frá Arnardal við Skutulsfjörð í Ísafjarðardjúpi. Systur Sólveigar eru Guðrún Thorstensen, f. 1930, Guðbjörg Thorstensen, f. 1932, og Kristín Thorstensen, f. 1942.
Sólveig giftist 17. júní 1953 Guðjóni Einarssyni verkstjóra, f. 19. júlí 1928, d. 29. október 1991. Foreldrar hans voru Einar Sveinson, fiskverkandi í Keflavík, f. 1893, d. 1987, og Jónína Helga Þorbjörnsdóttir húsmóðir, f. 1900, d. 1973.
Börn Sólveigar og Guðjóns eru: 1) Katrín Sólveig, f. 1951, eiginmaður hennar er Jóhannes Ellertsson, f. 1962. Börn Katrínar eru Sólveig Þorsteinsdóttir, f. 1969, Halla Þorsteinsdóttir, f. 1972, Stella Maris Þorsteinsdóttir, f. 1977, Sandra Þorsteinsdóttir, f. 1980, og Birna Helga Jóhannesdóttir, f. 1994. Katrín á átta barnabörn, tvö fósturbarnabörn og þrjú barnabarnabörn. 2) Einar Sveinn, f. 1953, eiginkona Lára Þórðardóttir, f. 1958. Börn þeirra eru Guðrún Árný Einarsdóttir, f. 1975, Sólveig Rós Einarsdóttir, f. 1977, Kristín Einarsdóttir, f. 1982, og Guðjón Einarsson, f. 1989. Einar á 11 barnabörn, þrjú fósturbarnabörn og þrjú barnabarnabörn. 3) Helga Rut, f. 1955, sambýlismaður hennar er Rúnar Haukur Friðjónsson, f. 1950. Börn þeirra eru Una Hafdís Hauksdóttir, f. 1975, Guðjón Örn Hauksson, f. 1979, og Elmar Þór Hauksson, f. 1984. Helga á þrjú barnabörn. 4) Hermann, f. 1956, eiginkona hans er Ólína Margrét Haraldsdóttir, f. 1958. Börn þeirra eru Jakob Hafsteinn Hermannsson, f. 1976, og Anna Lilja Hermannsdóttir, f. 1979. Hermann á fimm barnabörn, fimm fósturbarnabörn, eitt barnabarnabarn og tvö fósturbarnabarnabörn. 5) Kristinn Arnar, f. 1959, eiginkona hans er Helga Björk Þorsteinsdóttir, f. 1960. Börn Kristins eru Sigurrós Soffía Kristinsdóttir, f. 1979, Guðjón Hafsteinn Kristinsson, f. 1993, og Pálína Agnes Kristinsdóttir, f. 1995. Barnabörn Kristins eru fjögur. 6) Thelma Hrund, f. 1968, sambýlismaður hennar er Ingiberg Daníel Jóhannesson, f. 1967. Börn Thelmu eru Berglind Dögg Einisdóttir, f. 1985, og Kara Líf Ingibergsdóttir, f. 1996. Sólveig ólst upp í Reykjanesi til þriggja ára aldurs er hún flutti með foreldrum sínum í Arnardal við Ísafjarðardjúp og bjó þar til 11 ára aldurs. Þá fluttist fjölskyldan aftur suður með viðkomu á Úlfljótsvatni og í Reykjavík þar til þau loks settust að í Pálshúsum í Grindavík. Sólveig fluttist til Keflavíkur eftir að hún kynntist Guðjóni. Þau bjuggu fyrst að Aðalgötu 1, síðan á Kirkjuvegi 36, en byggðu sér loks myndarlegt hús að Vesturgötu 42 sem þau fluttu í 1962. Þar bjuggu þau æ síðan. Starfsvettvangur Sólveigar var innan heimilisins þó að hún sinnti ýmsum störfum samhliða til skemmri tíma. Eftir lát Guðjóns vann Sólveig almenn verslunarstörf í Heilsulindinni og versluninni Miðbæ. Sólveig fluttist að Hrafnistu Nesvöllum fyrir tæpum tveimur árum þar sem hún lést.
Útför hennar verður frá Keflavíkurkirkju í dag, 25. ágúst 2023, klukkan 12.
Elsku móðir mín og tengdamóðir, frú Sólveig Thorstensen, lést þann 14. ágúst sl. aðeins þremur dögum eftir 89 ára afmælið. Hún vildi ekki vera mærð eftir andlátið, en við getum ekki orðið við þeirri ósk þar sem við getum ekki látið hjá líða að minnast þessarar einstöku konu.
Það var ekki auðvelt að mæra hana í lifanda lífi en þó var hægt að hrósa ákveðnum þáttum í hennar fari, t.d. fötum og hári. Á mannamót fór hún aldrei nema vel tilhöfð og greidd. Það er mér minnisstætt að áður en Thelma systir varð hárgreiðsludama þurftum við Helga systir iðulega að setja í hana rúllur og túbera á henni hárið. Síðan tók Thelma við því hlutverki og sinnti því fram á síðasta dag. Áður en ég og Jói kynntumst fór ég með mömmu og pabba út að borða. Bar þar að erlendan mann sem leit á mömmu og sagði „mikið svakalega er hún falleg, hún er alveg eins og Sophia Loren“ og horfði svo á pabba og sagði „hann er eins og Gorbatsjov“. Mömmu leiddist ekki þessi athugasemd og ekki heldur þegar þessi saga var rifjuð upp í seinni tíð.
Fátt skipti hana mömmu meira máli en ættingjarnir og átthagarnir, og fylgdist hún vel með öllum sínum afkomendum og spurði reglulega fregna af þeim. Enginn staður á Íslandi var fegurri en Arnardalurinn, hennar æskuslóðir, og þótti henni fátt skemmtilegra en að heyra sögur frá fólki sem heimsótti Arnardalinn. Nú síðast þegar dóttir okkar Birna Helga kom og heimsótti hana kvöldið fyrir andlátið eftir ferðalag um Vestfirði. Ættfræði var mikið áhugamál hjá mömmu og Íslendingabók var himnasending. Gat hún eytt löngum stundum í að rekja ættir sínar og annarra. Aldrei kom maður að tómum kofanum í þeim efnum.
Móðir mín var mjög gestrisin og mikill listakokkur, þær voru stórkostlegar veislurnar t.d. á gamlárskvöld þar sem borðin svignuðu undan kræsingum og allir voru velkomnir. Hún var mikil félagsvera og elskaði fátt meira en að fara í veislur og vera meðal fólksins síns. Hún mætti fyrst og fór síðust. Það breyttist ekki þótt heilsunni hefði hrakað síðustu ár og var ótrúlegt að upplifa hvernig hún beit alltaf á jaxlinn til að geta mætt. Mamma var hörkudugleg og ósérhlífin. Hún vann hjá okkur í Heilsulindinni í nokkur ár, betri starfsmann var ekki hægt að fá.
Margar voru Spánarferðirnar og elskaði mamma Alegríuna. Ekki var það til að liggja í sólbaði, þó hitinn hafi vissulega haft góð áhrif á gigtina, heldur var það félagsskapurinn, markaðurinn og búðirnar sem hún elskaði. Minnisstæð er síðasta ferðin, en þá var heilsunni farið að hraka, þá fórum við á sítrónumarkaðinn þar sem hún lét sig hafa það að labba allan markaðinn og þreifa á hverri einustu flík, þótt hitinn væri óbærilegur. Þessu vildi hún ekki missa af.
Elsku mamma og tengdamamma, það voru forréttindi að eiga þig að. Takk fyrir að vera alltaf til staðar, þessi klettur sem þú varst. Við söknum þín sárt en geymum í hjarta okkar allar góðu minningarnar og samverustundirnar. Núna ertu komin til hans pabba og við vitum að hann hefur tekið vel á móti þér. Megi góður guð blessa minningu þína.
Katrín og Jóhannes.
Með þessum fáu orðum langar mig að minnast móður minnar Sólveigar Thorstensen sem lést mánudaginn 14. ágúst, réttum þremur dögum eftir átttugasta og níunda afmæli sitt. Frá þriggja ára aldri fram á ellefta aldursár ólst móðir mín upp í Arnardal við Ísafjarðardjúp, en þangað átti móðurfólk hennar rætur að rekja. Þau uppvaxtar- og mótunarár mörkuðu hana djúpt og leit hún ætíð á sig sem Vestfirðing fyrst og fremst. Þetta voru ekki auðveld ár hjá alþýðufjölskyldu og krafa um að allir legðu sitt af mörkum til lífsbaráttunnar. Eitt af hennar fyrstu störfum sem barn var að ganga til berja enda var sala á þeim mikilvæg tekjulind fyrir fjölskylduna. Berjaland var gott í Arnardal og minntist hún þess að fimm ára hefði hún tínt fimm lítra af aðalbláberjum á einni klukkustund með móður sinni. Berjatínur voru ekki notaðar enda fór það illa með lyngið. Minningar hennar frá þessum árum voru þó fyrst og fremst góðar.
Þingvellir voru annar staður sem stóð móður minni nærri hjarta. Þaðan kom föðurfólk hennar. Afi hennar, Jón Thorstensen, var þar prestur lengst allra, frá 1886 til 1923. Þar ólst faðir hennar upp og lék á orgelið fyrir föður sinn við athafnir. Þau Þingvallasystkinin voru alin upp í mikilli virðingu fyrir náttúru og sögu svæðisins og í þessari ást og virðingu voru afkomendurnir aldir upp.
Mamma var góðum eðlisgáfum gædd, stálminnug og forvitin um umhverfi sitt. Hún hafði allt til að bera til að vera góður fræðimaður enda stóð hugur hennar til náms á yngri árum. Það varð þó ekki enda stóð það ekki til boða hverjum sem var á þeim árum og síst konum. Hygg ég að hún hefði orðið góður læknir eða hjúkrunarkona með þessar eðlisgáfur og þá miklu meðaumkun sem hún hafði með öðru fólki.
Meðal mestu áhugamála móður minnar voru ættfræði, garðyrkja og matargerð. Hún nálgaðist þessi áhugasvið af vísindalegri nákvæmni og áhuga. Þar nutu eðlisgáfur hennar sín vel; minnið og forvitnin. Hún ræktaði fallegan garð í kringum heimilið sitt á Vesturgötu 42 en það heimili stóð öllum opið, háum sem lágum, og var öllum tekið þar sem höfðingjum og vinum. Vesturgatan var ættaróðalið. Þar naut hún sín best innan um vini og vandamenn. Þar var vel veitt af góðum mat og opnar dyr öllum. Mamma var góð söngkona eins og margir í hennar ætt og hafði mikið yndi af fögrum söng. Ein fallegasta minning úr minni æsku var að heyra hana syngja „Heyr mína bæn“ en ég var eini áheyrandinn á þeim tónleikum.
Stærsti garður sem mamma ræktaði var samt garður afkomenda en þeir fylla vel á sjöunda tuginn og nálgast hundraðið með tengdabörnum og tengdatengdabörnum. Afkomu og velferð alls þessa fólks lét mamma sig miklu varða og fylgdist grannt með lífi og örlögum allra. Enginn gladdist meir yfir velgengni afkomenda og enginn grét af meiri einlægni yfir óförum þeirra. Við erum öll betri manneskjur af viðkynnum okkar við mömmu. Mamma var kletturinn sem allir gátu reitt sig á. Hennar verður sárt saknað. Takk mamma.
Þinn sonur,
Arnar.