Á loðnuveiðum.
Á loðnuveiðum.
Hagnaður Brims á öðrum ársfjórðungi þessa árs nam um 10,4 milljónum evra (um 1,6 ma.kr.) en hafði verið 22,5 milljónir evra á sama tíma í fyrra, samkvæmt árshlutauppgjöri félagsins sem birt var í gær

Hagnaður Brims á öðrum ársfjórðungi þessa árs nam um 10,4 milljónum evra (um 1,6 ma.kr.) en hafði verið 22,5 milljónir evra á sama tíma í fyrra, samkvæmt árshlutauppgjöri félagsins sem birt var í gær. Tekjur félagsins á tímabilinu námu tæpum 109 milljónum evra samanborið við rúmar 148 milljónir evra í fyrra. Hagnaður félagsins á fyrri helmingi ársins nemur því um 29,3 milljónum evra (um 4,4 ma.kr.) en var tæpar 49 milljónir evra á fyrri helmingi síðasta árs. Tekjur félagsins á fyrri helmingi ársins námu 222,2 milljónum evra og drógust saman um 20 milljónir evra á milli ára.

Síldarvinnslan birti einnig uppgjör í gær. Hagnaður félagsins á öðrum ársfjórðungi nam um 13,2 milljónum bandaríkjadala (um 1,8 ma.kr.) en hafði verið 18,7 milljónir dala á sama tímabili í fyrra. Tekjur félagsins námu 79,5 milljónum dala og jukust um rúmar 13 milljónir dala á milli ára. Hagnaður félagsins á fyrri helmingi ársins nemur því um 42,7 milljónum dala (um sex ma.kr.) samanborið við 46 milljónir á sama tímabili í fyrra. Tekjur félagsins námu 211 milljónum dala og jukust um 43 milljónir dala á milli ára.

Í hvoru tveggja uppgjörinu kemur fram að verðhrun á loðnuhrognum dregur úr hagnaði félaganna.