Magdalena Anna Torfadóttir
magdalena@mbl.is
Þó nokkur fyrirtæki í veitingageiranum hafa lagt upp laupana á undanförnum misserum. Að sögn Aðalgeirs Ásvaldssonar, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT), urðu fleiri gjaldþrot í geiranum á fyrri helmingi ársins 2023 en á Covid-árunum 2020 og 2021. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að fyrirkomulagið í kringum vaktaálag hafi reynst geiranum einstaklega erfitt og að rekstrarumhverfið hafi reynst fyrirtækjum í veitingageiranum einkum erfitt eftir síðustu kjarasamninga.
„Hér á landi er þessu háttað þannig að vaktaálag er reiknað sem prósentuhlutfall af dagvinnu. Það er þannig að það er 33 prósenta álag eftir klukkan fimm á daginn og 45 prósenta álag eftir miðnætti á virkum dögum og sama prósenta um helgar. Það sem er sérstakt við það er að þetta tíðkast ekki annars staðar á Norðurlöndunum og í rauninni hvergi í heiminum svo ég viti til. Við myndum vilja taka upp sambærilegt fyrirkomulag og þekkist á Norðurlöndunum,“ segir Aðalgeir og bætir við að mikilvægt sé að breyta þessu til að tryggja samkeppnishæfni greinarinnar.
„Kostnaðurinn hefur aukist gríðarlega, laun hafa hækkað um 60 prósent frá 2016 og auðvitað þarf ég ekki að fjölyrða um áhrif stríðsins á vöruverð. Við borgum þar að auki hæstu áfengisskatta í heiminum, þannig að það er óhætt að segja að rekstrarumhverfið sé gríðarlega erfitt.“
Vill horfa til Svíþjóðar
Aðalgeir bætir við að í veitingageiranum starfi um 1.200 fyrirtæki með 13.000 menn í vinnu og greinin velti 120 milljörðum á ári. Því sé mikilvægt að finna lausn og bæta rekstrarumhverfið. „Við myndum vilja sjá að álagið væri krónutala, eins og í Svíþjóð, og jafnvel samningsatriði sem færi eftir reynslu og hæfni starfsmannsins. Margt ungt fólk vinnur í veitingageiranum og við viljum ekki breyta því. Aftur á móti gerir það okkur erfitt fyrir að búa til heilsársstörf, þar sem þau vinna oft og tíðum í hlutastörfum.“
Aðalgeir segir að enginn vilji hafi verið hingað til innan verkalýðshreyfingarinnar til að breyta fyrirkomulaginu um vaktaálag.
„Það er sorgleg staðreynd að það er enginn vilji hjá verkalýðshreyfingunni til að breyta þessu. Kjarasamningarnir sem við förum eftir gera ráð fyrir að hefðbundið starfsfyrirkomulag sé dagvinna en staðreyndin er sú að 80 prósent af okkar vinnutíma eru utan dagvinnu. Þetta skýtur skökku við.“
Hóflega bjartsýnn
Aðalgeir bætir við að hlutirnir hafi breyst til hins verra eftir síðustu kjarasamningslotu.
„Þegar daglaunin hækka um ákveðna prósentu þá hefur það margfeldisáhrif á álagið. Mörg fyrirtæki eru hreinlega að verða gjaldþrota vegna þess að kostnaðarliðirnir hafa hækkað svo mikið. Um það bil 96 prósent af fyrirtækjum á veitingamarkaði eru lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki og það er verið að senda þeim kaldar kveðjur.“
Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að lausn finnist á þessum vanda í komandi kjarasamningum segist Aðalgeir vera hóflega bjartsýnn.
„Ef á okkur verður ekki hlustað þurfum við einfaldlega að fara í harðar aðgerðir. Við þurfum að vera samkeppnishæf því við eigum framúrskarandi flóru af framboði og fagmönnum,“ segir Aðalgeir og vísar til þess að íslenska kokkalandsliðið hafi verið á verðlaunapöllum í Evrópukeppnum.
„Við höfum allt til brunns að bera hvað það varðar en rekstrarumhverfið er erfitt. Við þurfum að búa til samkeppnishæft rekstrarumhverfi ef við viljum halda veitingaþjónustu eins og við sjáum hana í dag.“