Edda Sif Pálsdóttir fer ósjaldan út að ganga við Urriðavatn.
Edda Sif Pálsdóttir fer ósjaldan út að ganga við Urriðavatn.
Hvernig hreyfir þú þig? „Ég datt í lukkupottinn þegar vinkona mín dró mig með sér til að prófa Inshape tímana í World Class fyrir einu og hálfu ári síðan. Þá var ég ekkert að hreyfa mig af viti og í rauninni ekkert sérstaklega líkleg til þess, en…

Hvernig hreyfir þú þig?

„Ég datt í lukkupottinn þegar vinkona mín dró mig með sér til að prófa Inshape tímana í World Class fyrir einu og hálfu ári síðan. Þá var ég ekkert að hreyfa mig af viti og í rauninni ekkert sérstaklega líkleg til þess, en þessir tímar og þjálfarinn Gerður Jónsdóttir voru allt sem ég þurfti. Þetta eru fjölbreyttar æfingar í heitum sal með taktfastri tónlist og Gerða er algjör snillingur í sínu. Ég get ekki beðið eftir að byrja aftur eftir sumarfríið. Fyrir utan tímana skelli ég mér svo bara í göngutúr ef ég þarf súrefni eða smá hreyfingu. Ég bý við Urriðavatn og tek gjarnan hringinn í því fallega umhverfi,“ segir Edda Sif.

Hvað færðu út úr hreyfingu?

„Mér finnst ég öll hraustari, heilbrigðari, sterkari, glaðari og léttari á líkama og sál eftir að ég byrjaði í þessum tímum. Ég fer orkumeiri út í daginn og félagsskapurinn er líka nærandi. Ýmis eymsli hverfa úr líkamanum með því að æfa í hita, þolið verður eðlilega betra og ég nánast hætti að verða veik (7-9-13).“

Hugsar þú um mataræðið?

„Já, bara eins og flestir held ég með því að reyna að stilla óhollustu í hóf og borða sem hreinasta og fjölbreyttasta fæðu. Annars er þetta bara svona frekar hefðbundið held ég. Mér finnst gott að fasta 20-12 og svo tek ég vítamínin frá Venju sem eru sérsniðin fyrir konur á mismunandi æviskeiðum og mér finnst svínvirka.“

Hvað borðar þú til að láta þér líða betur?

„Ef ég er eitthvað slöpp fæ ég mér rótsterka núðlusúpu á Noodle Station en ef ég er eitthvað lítil í mér fer ég í bragðaref eða nammi.“

Er eitthvað sem þú borðar alls ekki?

„Ég var alin upp við að fá ekki að standa upp frá borðinu fyrr en ég kláraði af disknum svo ég læt mig nú hafa flest. Mér finnst lifur ekki góð og ekki rauðlaukur og þorskur. Svo hef ég ekki drukkið sykrað gos í mörg ár og fann góðan mun á mér við það.“

Hvað gerir þú til að slaka á?

„Ég fer í bað - og það geri ég mjög oft. Annað hvort með góðu baðsalti eða olíu. Stundum finnst mér gott að liggja í þögninni en oft kveiki ég á hlaðvarpi. Ég myndi fórna flestu á heimilinu áður en baðkarið færi.“

Ertu með einhverja ósiði sem þú þarft að venja þig af?

„Ég gæti alveg minnkað við mig í Pepsi-Maxinu en annars nenni ég ekki að lifa eftir of ströngum reglum í þessu og fæ mér alla jafna það sem mig langar í.“

Ertu með einhver heilsumarkmið fyrir veturinn?

„Nei, ekki beint. Besta heilsumarkmiðið finnst mér eiginlega vera að reyna að hámarka gleðina og stuðið í lífinu en lágmarka leiðindin og ég ætla að halda því áfram. Það hefði líka örugglega heilsubætandi áhrif að hanga minna í símanum og gera eitthvað uppbyggilegra við allan þann tíma. Og jú, mig langar að taka meiri brennsluæfingar með Inshape tímunum, hjálp óskast!“

Höf.: Guðrún Selma Sigurjónsdóttir |