Sigurður Guðmundur Jónsson fæddist 28. október 1932 á Þórshöfn á Langanesi. Hann lést 22. júlí 2023 á Hrafnistu Laugarási.

Foreldrar hans voru Jón Magnússon smiður á Þórshöfn, f. 18.9. 1871, d. 29.9. 1950, og Kristveig Jónsdóttir, f. 28.9. 1892, d. 27.4. 1981. Systkini: Stefán Magnús, f. 12.4. 1911, d. 16.12. 1983. Sigríður, f. 21.4. 1913, d. 24.10. 2010. Aðalheiður, f. 18.12. 1919, d 1.4. 2014. Matthías, f. 20.11. 1922, d. 5.6. 2003. Magnea Guðný, f. 31.7. 1925, d. 19.6. 1931. Einar, f. 15.12. 1928. d. 4.9. 1941. Jón er sá eini sem er á lífi, f. 26.9. 1935.

Eiginkona Sigurðar var Ólöf Sigfríður Jónsdóttir, f. 8.4. 1941, d. 14.10. 2018. Þau giftust 30.12. 1959.

Börn:

1) Hafþór, f. 7.5. 1959. Maki Sangduan Wangyairam, f. 2.1. 1975. Dætur Nadía, f. 14.2. 2006, og Elína Narisa, f. 4.2. 2010. Börn Hafþórs með fv. konu, Hildi Stefánsdóttur, f. 12.2. 1959: a) Díana Ólöf, f. 29.1. 1987, hennar börn Hildur Cecilía Cardosa, f. 8.12. 2010, og Dylan Ever Amor Torres, f. 25.12. 2019. b) Máni Viðar, f. 6.7. 1989. c) Guðfinna Gunnur, f. 27.2. 1991. Maki Mark Laurence Z. Bargamento, f. 3.3. 1984.

Börn Hildar: Stefán Daníel Ingason, f. 14.6. 1978, maki Jewelly Importante Lalis, f. 31.5. 1988. Dóttir þeirra Lory Lilja, f. 19.10. 2021. Ingibjörg Dagný Ingadóttir, f. 17.4. 1983, hennar börn Ingi Alexander, f. 14.10. 2009, og Kolfinna Eldey, f. 1.5. 2014.

2) Örn, f. 9.9. 1960. Fv. maki Ragna Karlsdóttir, f. 10.9. 1956. Sonur þeirra Sigurður Þór, f. 4.3. 1991. Maki Sif Árnadóttir, f. 3.3. 1994, sonur Sifjar er Guðmundur Árni, f. 27.7. 2016. Sonur Rögnu er Karl Huldar Arngrímsson, f. 22.9. 1980. Börn Sigurður Víkingur, f. 17.9. 1998, og Aldís Ragna, f. 9.4. 2000.

3) Lilja, f. 15.6. 1965. Maki Þorsteinn Marinó Gunnarsson, f. 24.6. 1959. Þorsteins börn: a) Edda Ósk, f. 13.4. 1984, maki Kristmundur Daníelsson, f. 5.6. 1983,dóttir þeirra Emma Valgerður, f. 23.11. 2018. b) Rúnar Helgi, f. 7.6. 1987.

4) Aðalheiður Jóna, f. 15.10. 1969. Maki Reynir Bergmann Dagvinsson, f. 23.11. 1966. Sambýlismaður var Hjörtur Kristmundsson, f. 27.7. 1960, d. 27.4. 2018. Fyrsti maður Aðalheiðar var Dagbjartur Þórðarson, f. 17.1. 1964, þeirra dætur eru: a) Gréta María, f. 17.10. 1990, maki Daði Þór Steinþórsson, f. 21.11. 1989. Dætur þeirra eru Ólöf Eik, f. 30.5. 2016, og Emilía Ey, f. 23.4. 2019. b) Kristveig Lilja Sigfríður, f. 5.6. 1992.

Sigurður bjó með konu sinni Ólöfu á Þórshöfn og þar ólu þau upp börnin sín. Bjuggu fyrst í Fögrubrekku þar sem öll börnin fæddust en fluttu svo 1970 á Langanesveg 21. Á Þórshöfn ráku þau útgerð, saltfiskverkun og grásleppuhrognasöltun. Lífið snerist um sjósókn og að bjarga verðmætum úr sjó. Sigurður var farsæll skipstjóri þótt hann hafi lent í sjávarháska oftar en einu sinni á yngri árum. Hann byrjaði ungur að fara á vertíðar við Vestmannaeyjar. Er hann sá síðasti sem fer til feðra sinna af þeim sem lifðu af sjóslys 12. apríl 1952 þegar Veiga sökk við Vestmannaeyjar en það var í fyrsta sinn sem gúmmíbjörgunarbátur kom við sögu í sjóslysi hér við land. Árið 2004 flytja þau svo alfarið í Kópavog, hætt að vinna. Má segja að þau hafi lagst í ferðalög til fjarlægra slóða og notið lífsins á húsbílnum þess á milli og þá oftar en ekki fyrir norðan og dvöldu þau alltaf part út sumri í Kollavík hjá heiðurshjónunum þar. Eftir að Sigurður missti konu sína 2018 fór að halla undan fæti og undanfarið eitt og hálft ár dvaldist hann á Engey, Hrafnistu Laugarási.

Útförin fer fram frá Digraneskirkju í dag, 25. ágúst 2023, klukkan 15.

Elsku pabbi minn, akkeri lífs míns, er farinn til annarrar víddar og vonandi liggja leiðir hans og mömmu þar aftur saman. Aðdragandinn var nokkur en stefndi allt í sömu átt, en er maður nokkurn tímann tilbúinn fyrir þessi tímamót, að ástvinur hverfi á braut?

Pabbi ólst upp við kröpp kjör og erfiða lífsbaráttu. Mótaðist hann mjög af því enda af kynslóð sem var ekkert í vorkunnsemi eða væli. Hann starfaði alla ævina við sjómennsku, að mestu með eigin útgerð og vinnslu. Átti hann nokkuð farsælan feril á sjónum og veit ég ekki betur en hann hafi verið nokkuð vel liðinn. Á uppvaxtarárum okkar systkinanna höfðum við ekki ýkja mikið af honum að segja þar sem hann var mikið að heiman. Á maður samt fullt af minningum um hann. T.d. var ég mikið með honum sem smápolli, fyrst sat ég í bílnum og beið, síðar var ég með að stússa niðri í bát.

Var ekki gamall þegar ég fékk að fara á sjóinn og stóð þá á trékassa til að sjá út við að stýra bátnum. Byrjaði með honum tíu ára sem hálfgildur háseti og áttum við feðgar mörg sumur saman á færum upp úr því og vann ég fyrir námskostnaði. Hann dröslaðist með mann á rjúpnaveiðar og hvaðeina.

Allt var þetta liður í uppeldi, að gera mann að manni og auka sjálfstraust og frumkvæði. Maður fann alltaf að hann fylgdist með manni, en gerði aldrei óraunhæfar kröfur. Eftir að þau hættu útgerð fluttu þau mamma hingað suður og nutu lífsins saman þar til mamma hvarf á braut. Það var pabba mikið áfall og var hann einsamall upp frá því. Hann labbaði alltaf til okkar í mat ef þannig viðraði, annars var hann sóttur. Hann og við nutum þessara stunda. Hann vann líka með konu minni nokkra tíma á dag. Svo fór að síga á ógæfuhliðina er hann greindist með alzheimer og fór hann fyrir hálfu öðru ári inn á Hrafnistu.

Þar leið honum mjög vel og var ánægður með vistina allt til hins síðasta. Þetta var miklu erfiðara fyrir okkur sem aðstandendur að horfa upp á karakterinn hverfa og nánast hætta að þekkja okkur.

Elsku pabbi, minningarnar munu lifa með okkur.

Þinn sonur,

Hafþór Sigurðsson.

Útför pabba míns, Sigurðar G. Jónssonar frá Þórshöfn á Langanesi, fer fram í dag, 25. ágúst 2023. Hann hefur nú kvatt þetta líf eftir rétt rúmlega níutíu ára dvöl. Hann var hörkuduglegur og vissi að ekkert kom af sjálfu sér og þekkti fátækt sem barn. En hann var sterkur og mjög ákveðinn karakter. Pabbi gerði út sína báta frá unga aldri og stjórnaði úti á sjó en eins og hann orðaði það við útför mömmu fyrir um fimm árum þá stjórnaði hún í landi. Þau voru mjög samstiga í sínum málum og sáu vel um okkur börnin sín fjögur. Ég var honum líklega erfiðastur af okkur systkinunum þar sem ég átti erfitt með að vera til friðs og var víst óþarflega líkur honum í skapi og stóð svolítið uppi í hárinu á honum. Í einhverju reiðikastinu sagði ég honum að ég ætlaði að læra eitthvað sem hann hefði ekki hundsvit á og gerði það. Pabbi var mjög sáttur við að við menntuðum okkur en á þeim árum fóru allir krakkar að heiman í framhaldsskóla 15 ára og komu lítið heim eftir það nema á sumrin til að vinna. Ég lærði verslun og viðskipti og sá sem kenndi mér skilvirkustu aðferðirnar um rekstur var hann pabbi minn. Hef ég notað þær sem grunnviðmið alla mína starfsævi og á ég honum mikið og gott að þakka.

Með aldrinum varð pabbi mjúkur maður og vissi ekkert betra en þegar allir komu heim í kaffi til þeirra í Gullsmárann.

Ég og synir mínir Karl og Sigurður og þeirra fjölskyldur kveðjum þig í dag með söknuði.

Þinn sonur,

Örn Sigurðsson.

Elsku pabbi minn. Það er erfitt að kveðja, þó þú hafir verið orðinn svona veikur í restina og þekktir mig kannski ekki alltaf. En þú þekktir alltaf Marinó og nefndir hann alltaf með nafni. Ég var alltaf svo mikil pabbastelpa, var mikið með þér þegar ég var lítil, skil ekki hvernig þú nenntir að hafa mig með en mér skilst að ég hafi verið frekar þæg, kannski eins og Emma mín er í dag sem þú varst svo hrifinn af. Mamma sagði stundum „þú ert alveg eins og pabbi þinn“ og þá var það ekki meint sem hrós. En ég tók því þannig, vildi alveg líkjast þér. Leit upp til þín, enda varstu góður maður. Lýsi í flösku, hákarl, reyktur silungur niðurskorinn af pabba með vasahnífnum sem alltaf var með í för, allt betra beint úr hans höndum. Þannig var það bara, margt í þínum lífsgildum sem ég vil tileinka mér og hef vonandi gert.

Systir þín Sigga sagði alltaf að þú hefðir lækningamátt í höndunum, ég man að hún vildi alltaf halda í hendurnar á þér eftir að hún varð lasburða. Man sterkt eftir atviki þegar við vorum saman á námskeiði fyrir trillusjómenn hjá Slysavarnaskóla sjómanna fyrir margt löngu. Við vorum saman í björgunarbát á hvolfi sem var hálffullur af sjó og áttum að snúa bátnum verandi inni í honum. Man að mér leist ekki á blikuna en sagði ekkert, þú fannst það, tókst um höndina á mér, sagðir ekkert en auðvitað varð allt í lagi. Hendur þínar voru alla vega fyrir mér huggandi ótal sinnum í gegnum lífið.

Þú lentir alla vega tvisvar í alvarlegum sjávarháska sem ungur maður, 1951 og 1952. Þá vildu systkini þín ekki að þú værir á sjó lengur, eða það sagðir þú mér. En sjómannslífið varð nú samt þitt ævistarf. Þú vannst mikið og þið mamma bæði svo það var ánægjulegt þegar þú hættir útgerð, þá fóruð þið að ferðast. Fyrsta stóra ferðin ykkar var til Kína, líklega rétt fyrir 2000. Eftir það fóruð þið á hverju ári, fyrst var það Kanarí, Costa del Sol og Kýpur en eftir fyrstu ferðina til Taílands með okkur Marinó var ekki aftur snúið og var það endurtekið nánast árlega allt þar til þú hélst upp á áttræðisafmælið þar. Þá sagðir þú að nú væri komið nóg og ég held það hafi verið síðasta ferðin okkar saman þangað. Við áttum góðar stundir í þessum ferðum og þið voruð alveg ótrúleg, held að flugið og ferðalagið hafi reynst ykkur eldra fólkinu oft á tíðum léttara en okkur sem yngri vorum. Á sumrin þvældust þið á bíl með pallhýsi og svo seinna húsbílnum. Svo dvöldust þið alltaf í Kollavík part úr sumri eftir að þið fluttuð alfarin suður 2004. Þú hafðir verið vinnumaður þar þegar þú varst ungur maður og hafðir taugar til staðarins og þið höfuð myndað vinatengsl við Hrein og Boggu, ábúendur þar.

Í Kópavoginum bjuggum við í sama hverfi svo það var stutt á milli og það var oft sem ég beygði að Gullsmáranum á leiðinni heim og kíkti við hjá ykkur. Það voru góðar stundir sem ég er þakklát fyrir í dag. Síðustu mánuðina hefur það verið fastur liður um helgar að heimsækja þig á Engey á Hrafnistu, Laugarási, þar sem þú dvaldist. Oftast fórum við niður á kaffihúsið og þú fékkst þér uppáhaldskökuna þína. Ósjaldan kom Emma með okkur og ýmist hélt í höndina á þér eða ýtti hjólastólnum eftir að þú fórst að þurfa að nota hann.

Nú vona ég og trúi að þú hafir fundið hana mömmu á ný og þið séuð sameinuð aftur. Vertu sæll, pabbi minn, og góða ferð.

Þín dóttir,

Lilja.

Pabbi minn hefur kvatt lífið eftir að hafa séð á eftir mömmu fyrir hátt í fimm árum síðan. Elsku pabbi átti erfitt eftir að mamma dó og við systkinin með ómetanlegri aðstoð Jóns Stefánssonar frænda okkar gerðum okkar besta til að gera honum lífið auðveldara. Fljótlega eftir að mamma dó fór að bera á smá rugli í höfðinu, verkvitið vék til hliðar og svo margt varð svo erfitt, en skrokkurinn var í þokkalega góðu standi og pabbi passaði sig alltaf á að fara í lágmark tvo göngutúra á dag. Í lok árs 2021 fékk pabbi herbergi á Hrafnistu í Laugarási þar sem hann undi sér ótrúlega vel og þar átti hann hug margs af starfsfólkinu á hans deild og margir þar sem hrósuðu honum fyrir hvað hann væri mikið ljúfmenni og einstaklega kurteis. Á Hrafnistu leið honum vel þó hann hafi stundum verið orðinn þreyttur á lífinu og hann hafði stundum orð á því að þetta væri bara komið gott. Nú eru pabbi og mamma sameinuð á ný, hún tekur örugglega vel á móti honum og stýrir honum eins og hún gerði áður en hún dó. Þau fara í ferðalögin sem þau langar og fylgjast örugglega með okkur sem eftir lifum og passa upp á okkur.

Elsku pabbi minn. Þín verður saknað.

Þín yngsta,

Aðalheiður Jóna.

Elsku pabbi (tengdi) og afi.

Þú varst alltaf svo indæll og góður við mig og og afastelpurnar. Þegar tengda var farin gerðist þú kostgangari hjá mér og varst alltaf svo þakklátur fyrir matinn og hafðir mjög gaman af stelpunum. Svo hafðirðu mjög gaman af því að vinna með mér í að rista utan af köplum. Oft attirðu kappi við mig í hraða og skemmtir þér vel. Við eigum líka sérstaklega góðar minningar um ferðalag sem þú fórst með okkur á húsbíl fyrir fjórum árum. Þú varst svo glaður á Þórshöfn og þar í kring. Við söknum heimsóknanna til þín á Hrafnistu þar sem þú dásamaðir alltaf himnesku marengskökuna. Alltaf svo ljúfur, indæll og þakklátur.

Söknuður okkar er mikill.

Sangduan Wangyairam, Nadía Hafþórsdóttir, Elína Narisa Hafþórsdóttir.