Albert Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Genoa á Ítalíu, hefur sent frá sér stutta yfirlýsingu þar sem hann kveðst saklaus af ásökunum í sinn garð.
Á miðvikudaginn staðfesti Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ í samtali við Morgunblaðið að KSÍ hefði fengið ábendingu um að búið væra að kæra landsliðsmann Íslands fyrir kynferðisbrot.
Vefmiðillinn 433.is nafngreindi svo Albert sem leikmaninn sem hefði verið kærður til lögreglu og mun hann ekki spila fyrir hönd Íslands á meðan mál hans er til rannsóknar.
„Ég er saklaus af þeim ásökunum sem komið hafa fram,“ sagði Albert í yfirlýsingunni sem birtist fyrst á RÚV í gærmorgun.
„Ég mun ekki tjá mig frekar á meðan málið er til rannsóknar,“ segir enn fremur í yfirlýsingu Alberts.