Fiskeldi Frumvarp væntanlegt 2024.
Fiskeldi Frumvarp væntanlegt 2024. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
„Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru þátttakendur í yfirstandandi stefnumótunarferli um framtíð lagareldis á Íslandi. Stefnumótunarvinnan sem fram fer í haust er mikilvæg fyrir greinina sem er bæði ný og vaxandi stoð í atvinnulífinu hér á…

„Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru þátttakendur í yfirstandandi stefnumótunarferli um framtíð lagareldis á Íslandi. Stefnumótunarvinnan sem fram fer í haust er mikilvæg fyrir greinina sem er bæði ný og vaxandi stoð í atvinnulífinu hér á landi.“ Þetta segir í svari SFS við fyrirspurn Morgunblaðsins, en matvælaráðherra er að láta móta stefnu um fiskeldi. Fyrstu hugmyndir þar um voru kynntar hagaðilum í júní sl. og gefinn kostur á athugasemdum. Áformað er að leggja fram frumvarp á vorþingi 2024.

„Fiskeldi er sá þáttur íslenskrar matvælaframleiðslu sem er í hvað örustum vexti og byggist framtíð greinarinnar að miklu leyti á þeirri stefnu sem mörkuð verður af hálfu ráðherra og löggjöf úr smiðju Alþingis. SFS hafa lagt áherslu á uppbyggingu ábyrgs fiskeldis á grundvelli vísindalegrar þekkingar í sátt við umhverfi og samfélagið. Meginþættir framtíðarsýnar í matvælaframleiðslu felast í því að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru. Allt áherslur sem koma fram í matvælastefnu til ársins 2040. Til að ná þessum markmiðum þarf hins vegar vandaða löggjöf, eftirlit og ábyrga stefnu til framtíðar. SFS fagna því að niðurstöður skýrslu Boston Consulting Group verði nýttar sem grundvöllur stefnumótunar ráðherra en þar segir meðal annars að lagareldi sé hlutfallslega sjálfbært í samanburði við aðrar framleiðsluaðferðir dýraprótíns.

Það hafi lágt kolefnisspor og fóðurnýting sé mikil í þeim samanburði. Með réttri umgjörð og tækniþróun á lagareldi að geta mætt aukinni eftirspurn eftir prótínum úr dýraríkinu með hlutfallslega litlum áhrifum á loftslag og vistkerfi jarðar,“ segja SFS.