Afmælisbarnið Guðmundur fagnar 75 ára afmæli sínu með fjölskyldu sinni í Kópavogi í dag og verða þjóðmálin eflaust rædd en alltaf stutt í grínið.
Afmælisbarnið Guðmundur fagnar 75 ára afmæli sínu með fjölskyldu sinni í Kópavogi í dag og verða þjóðmálin eflaust rædd en alltaf stutt í grínið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur fæddist í Mosfellssveit 25. ágúst 1948. „Oddur Ólafsson læknir á Reykjalundi, með ljósmóður, tók á móti mér í húsinu heima.“ Guðmundur ólst upp í Mosfellssveit til tíu ára aldurs

Guðmundur fæddist í Mosfellssveit 25. ágúst 1948. „Oddur Ólafsson læknir á Reykjalundi, með ljósmóður, tók á móti mér í húsinu heima.“ Guðmundur ólst upp í Mosfellssveit til tíu ára aldurs. „Pabbi var starfsmaður hitaveitu Reykjavíkur og var að vinna við dælustöðina á Reykjum. Leiksvæði mitt var sveitin og Varmáin en ekki síður trésmíðaverkstæðið á Reykjalundi, en þar var heilt iðnaðarþorp sem þjónustaði Reykjalund sem var á þeim tíma ein frábærasta endurhæfingarstöð Norðurlandanna. Við keyptum mjólk frá Sólvöllum og veran í Mosfellssveitinni hafði mikil áhrif á mig.“

Þegar faðír Guðmunds er gerður að varaslökkvistjóra Reykjavíkur flutti fjölskyldan í Bústaðahverfiið og þar bjó Guðmundur þar til hann stofnaði sína eigin fjölskyldu. „Ég var í handbolta hjá Víkingi sem strákur og gekk í Breiðagerðisskóla í einn vetur og svo fór ég í Réttarholtsskóla.“ Þegar komið var að því að huga að framhaldinu ákvað Guðmundur að fara strax að læra skipasmíði.

„Ég ætlaði ekkert að læra algebru og allt það heldur vildi fara strax í nám sem ég gæti farið að vinna við. Eftir námið voru horfur ekki góðar í skipasmíði og nýsmíði skipa nánast að leggast af. „Ég lendi þarna á krossgötum og þarf að hugsa minn gang í námi og störfum og þá kemst ég í vinnu hjá teiknistofu Landsvirkjunar,“ segir Guðmundur, en í skipasmíðanáminu var mikið unnið með teikningar og hann sagðist hafa getað séð um teikningar fyrir hvaða iðnaðarmann sem var á þessum tíma. Hjá Landsvirkjun er Guðmundur í sex ár.

Á sama tíma gengur hann með þá hugmynd að byggja garðyrkjustöð og með vinnunni les hann sér til um það og hvernig rækta eigi tómata. „Ég fer ekki þessa hefðbundnu leið í Garðyrkjuskólann, heldur er sjálfmenntaður en hef notið leiðsagnar ýmissa ráðunauta. Það sagði mér einn góður maður að það væri ekkert verra. Það væri svo mikið af sveimhugum sem færu í garðyrkjunámið, en þú hefur ekki þetta eftir mér,“ segir hann og skellihlær, en það er aldrei langt í grínið hjá Guðmundi, sem nálgaðist garðyrkjuna með hugarfari skipasmiðsins alla tíð.

Guðmundur var stórhuga og árið 1976 byggir hann 2500 fermetra gróðurhús á Áslandi á Flúðum og segir að þau hjónin hafi verið brautryðjendur að mörgu leyti í tómataræktinni. „En það var garðyrkja á Flúðum og mjög öflugt fólk á staðnum.“ Þegar menn byggja upp sinn eigin rekstur þarf fé og Guðmundur sagðist hafa lagt allt í fyrirtækið og veðjað á sjálfan sig, og það borgaði sig. „Þetta gekk alveg ljómandi vel. Ég var með mitt eigið fé og var með garðyrkjuráðunaut til skrafs og ráðagerða. Ég var 27 ára gamall og hugsaði að ef þetta gengi ekki upp, þá væri ekkert annað en að byrja upp á nýtt.“

Guðmundur var í sambandi við danska og hollenska ráðunauta varðandi tómataræktunina og hann hætti að rækta í mold og fór að nota vikur sem verið var að þróa. „Svo var ég að berjast í þrjú ár við Náttúruverndarráð að fá leyfi til að fá býflugur til að vinna með frjógvun plantnanna. Það var ekki fyrr en að danskur kollegi minn ráðlagði mér að fá Kristján Kristjánsson prófessor, sem var okkar fremsti sérfræðingur í býflugum, til að gefa þessu gott orð og þá loksins gekk þetta upp.“ Guðmundur segir að tómataræktunin hafi verið mikil vinna og árið 1999 seldi hann Garðyrkjustöðina vegna heilsubrests. Hann fór á æskuslóðirnar á Reykjalund í endurhæfingu og fór svo að vinna hjá eignarhaldsfélaginu Feng þar sem hann vann til starfsloka. „Ég næ að selja garðyrkjustöðina í fullum rekstri og gaman að sjá hana blómstra í höndunum á góðum manni.“

Guðmundur er geðgóður húmoristi, en fráleitt skaplaus. „Ég byrja alla daga á því að lesa Morgunblaðið og fylgist vel með þjóðmálaumræðunni. Ég fór í fyrsta skipti til Mallorca í vor, en ég hef mjög gaman af því að skoða fallega staði.“ Guðmundur er virkur í mannræktar- og líknarsamtökunum Oddfellow.

Fjölskylda

Börn Guðmundar með fv. eiginkonu sinni, Helgu G. Halldórsdóttur þjóðfélagsfræðingi, f. 7.11. 1949 eru: 1) Stefán Ari, f. 21.6. 1975, framkvæmdastjóri í Kópavogi. Börn hans eru Lárus Orri, f. 2000 og Sindri Svan, f. 2004. 2) Ragnhildur, f. 19.4. 1979, heimilislæknir í Danmörku, maki Bruno Jose Nisa Correia, f. 30.10. 1977. Börn þeirra eru Helga María, f. 2005; Sara Þuríður, f. 2010 og Anton Guðmundur, f. 2020. 3) Sigrún, f. 15.11. 1985, myndlistarkona og kennari í Kópavogi. Dóttir hennar er Erna Anahita Sigrúnardóttir, f. 2020.

Bróðir Guðmundar er Sigurður Ágúst Sigurðsson, f. 2.10. 1953, fv. framkvæmdastjóri Happdrættisins DAS og uppeldissystir Guðmundar er Þórunn Haraldsdóttir, f. 28.12. 1948, d. 7.1. 1998.

Foreldrar Guðmundar voru hjónin Sigurður Gunnar Sigurðsson, f. 2.2. 1917, d. 29.8. 1994, varaslökkviliðsstjóri og Ragnhildur Guðmundsdóttir, f. 10.10. 1919, d. 26.11. 1984, húsfreyja. Þau bjuggu í Reykjavík.