Átök Blikinn Viktor Karl Einarsson í baráttunni við Hogan Ukpa miðjumann Struga í fyrri leiknum í Ohrid í Norður-Makedóníu í gærdag.
Átök Blikinn Viktor Karl Einarsson í baráttunni við Hogan Ukpa miðjumann Struga í fyrri leiknum í Ohrid í Norður-Makedóníu í gærdag. — Ljósmynd/Aleksandar Djorovic
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breiðablik er í vænlegri stöðu eftir gríðarlega mikilvægan sigur gegn Struga frá Norður-Makedóníu í fyrri leik liðanna í 4. umferð Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu á Biljanini Izvori-vellinum í Ohrid í Norður-Makedóníu í gær

Sambandsdeildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Breiðablik er í vænlegri stöðu eftir gríðarlega mikilvægan sigur gegn Struga frá Norður-Makedóníu í fyrri leik liðanna í 4. umferð Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu á Biljanini Izvori-vellinum í Ohrid í Norður-Makedóníu í gær.

Leiknum lauk með 1:0-sigri Blika en það var fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson sem skoraði sigurmark leiksins á 35. mínútu.

Norður-Makedónarnir byrjuðu leikinn af krafti og var boltinn meira og minna á vallarhelmingi Breiðabliks á upphafsmínútum leiksins.

Klæmint Olsen fékk besta færi leiksins á 11. mínútu þegar Jason Daði Svanþórsson átti frábæra fyrirgjöf frá hægri. Boltinn fór beint á kollinn á Klæmint sem fékk frían skalla í markteig Struga en boltinn fór í stöngina og út.

Á 28. mínútu dró til tíðinda þegra Bunjamin Shabani skoraði skrautlegt mark. Shabani sendi boltann út á vinstri kantinn á Mentor Mazrekaj og Shabani keyrði inn í vítateig Blika. Mazrekaj átti svo hnitmiðaða sendingu fyrir markið á Shabani en Anton Ari Einarsson í marki Blika kom út og lokaði á hann. Boltinn fór af Shabani í Anton Ara og þaðan skaust hann upp í höndina á Shabani, þaðan í hælinn á honum, og síðan í markið. Shabani fagnaði vel og innilega ásamt liðsfélögum sínum en eftir að VAR-myndbandsdómgæslan hafði skoðað markið betur var það dæmt af þar sem boltinn fór í hönd Shabanis áður en hann fór í netið.

Sjö mínútum síðar fékk Höskuldur Gunnlaugsson boltann út á hægri kantinum. Hann æddi í átt að marki, fór fram hjá fjórum leikmönnum Struga, áður en hann þrumaði boltanum í bláhornið fjær, utarlega í teignum, og reyndist það sigurmark leiksins.

Skrautlegur síðari hálfleikur

Eftir að Blikar komust yfir virtist mikill vindur úr leikmönnum Struga.

Síðari hálfleikurinn var hins vegar afar skrautlegur þar sem mikill vindur setti mark sitt á leikinn. Ofan á það blés vindurinn sterkt að marki Blika og Anton Ari í marki Breiðabliks var oft í vandræðum með að koma boltanum almennilega frá markinu í útspörkum sínum.

Það hefur verið mikil álag á leikmönnum Breiðabliks undanfarnar vikur, enda spilað mjög þétt bæði í deildinni hér heima sem og í Evrópukeppnunum.

Leikmenn liðsins geta því borið höfuðið hátt eftir frammistöðu gærdagsins enda snerist síðari hálfleikurinn að öllu leyti um það að berjast og vinna vel fyrir liðið frekar en að spila áferðarfallegan fótbolta, sem var nánast ógjörningur miðað við aðstæður í Ohrid.

Síðari leikur liðanna fer fram á Kópavogsvelli fimmtudaginn 30. ágúst og þar hafa Blikar ákveðið forskot líka. Völlurinn í Ohrid var þurr grasvöllur sem gerði Blikum erfitt um vik að spila sinn hraða fótbolta.

Rennandi blautt gervigrasið á Kópavogsvelli ætti því að gera Breiðabliksliðinu kleift að spila sinn besta leik en með sigri tryggir liðið sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar sem hefst í september.

Þurfa að eiga sinn besta leik

„Ég er gríðarlega stoltur af liðinu að hafa staðist þessa manndómsraun ef svo má segja,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Íslandsmeistari Breiðabliks í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Síðari leikur liðanna fer fram á Kópavogsvelli eftir slétta viku en sigurvegarinn úr einvíginu tryggir sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar sem hefst í september.

„Þessi leikur hérna úti átti sitt líf og hann er búinn núna. Ég er spenntur að mæta þeim á okkar heimavelli þar sem við þekkjum hvert einasta strá að segja má. Við erum með örlögin í okkar höndum ef svo má segja og það er okkar að endurtaka leikinn gegn þeim í síðari leiknum sem verður erfitt.

Þetta er gott lið þótt margir Íslendingar hafi gert sitt besta til að tala það niður. Við þurfum að bera virðingu fyrir þeim jafnvel þótt aðstæðurnar í leiknum í dag hafi virkað frumstæðar og völlurinn ekki verið sá besti. Það eru leikmenn þarna sem eiga fullt af landsleikjum fyrir Norður-Makedóníu og við þurfum að eiga okkar besta leik til að klára einvígið,“ sagði Óskar Hrafn meðal annars í samtali við Morgunblaðið en nánar er rætt við þjálfara Íslandsmeistaranna á mbl.is/sport/fotbolti.

Höf.: Bjarni Helgason