Arnar Þór Jónsson
Arnar Þór Jónsson
Hollustu við grunngildi þarf að sýna í verki, ekki bara í orði.

Arnar Þór Jónsson

Í grein þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, Óla Björns Kárasonar, í Morgunblaðinu 23. ágúst, er undirstrikað að sjálfstæðisfólk verði að „skynja að í ríkisstjórn séu þingmenn og ráðherrar trúir grunnhugsjónum“. Í greininni fjallar Óli Björn um hugsjónir sjálfstæðisstefnunnar, sem m.a. ver frelsi fólks til sjálfstæðrar hugsunar og sjálfstæðrar tjáningar, sem markar grunninn fyrir „hreinskiptnar umræður, fjölbreyttar skoðanir og rökræður“. Í þessum anda er ástæða til að minna á það, í aðdraganda flokksráðsfundar nk. laugardag, að markmið Sjálfstæðisflokksins er að verja frelsi einstaklingsins og frelsi þjóðarinnar – til sjálfsákvörðunarréttar og að standa gegn hvers kyns ytri þrýstingi, þvingunum, ásælni og ágengni.

Með vísan til framanritaðs og þess sem fram kemur í grein Óla Björns hvet ég flokksráðsmenn til að kalla eftir því að kjörnir fulltrúar þeirra sýni í verki að þeir séu trúir grunnhugsjónum Sjálfstæðisflokksins. Hyggjast þingmenn og ráðherrar standa gegn hugmyndum forsætisráðherra um takmörkun á tjáningarfrelsinu, sbr. þingsályktunartillögu um „aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023-2026“?

Ætla þingmenn og ráðherrar að standa vörð um sjálfstæðis- og frelsishugsjón flokksins í umræðum um ný sóttvarnalög? Er frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 í samræmi við þá grundvallarhugsjón Sjálfstæðisflokksins að lögin eigi sér lýðræðislega rót?

Traust grundvallast á því sem menn sýna í verki, en skrum grefur undan trausti. Ef flokksráðsfundurinn á að skila árangri þarf þar að eiga sér stað kraftmikil umræða, ekki orðagjálfur, um sjálfstæðisstefnuna í framkvæmd. Þar verða kjörnir fulltrúar að sannfæra fundarmenn um það að þeir séu í reynd „trúir grunnhugsjónum“ og að hugur fylgi máli þegar vísað er til þeirra í ræðum og greinum.

Höfundur er lögmaður og varaþingmaður.

Höf.: Arnar Þór Jónsson