Vilhjálmur Bjarnason
Það er sérkennilegt að lifa í þessu samfélagi, þar sem máttarvöldin úthlutuðu mér vist fyrir margt löngu.
Þegar ritari fæddist var flest neysluvara skömmtuð með einhverjum hætti. Gefnir voru út skömmtunarmiðar og stofnaukar við skömmtunarmiða. Auðvitað voru slíkir miðar ígildi verðbréfa, þótt ekki hafi farið miklum sögum af viðskiptum með slík bréf.
En þá var einnig gripið til ýmissa „dýrtíðarráðstafana“, en þær fólust helst í því að auka sölu landbúnaðarafurða með niðurgreiðslum. Til að standa undir niðurgreiðslum þurfti tekjuöflun, en tekjuöflun tók á sig ýmis heiti eins og tollar, yfirfærslugjöld og vörugjöld, svo einhver séu nefnd.
Fáar þjóðir, sem ekki eru kenndar við kommúnisma, hafa náð viðlíka árangri í skömmtun og mismunun og íslenska þjóðin.
Þökk sé ráðamönnum, sem þjóðin kaus sér.
Réttlæti og ranglæti
Allt var þetta gert í nafni réttlætis. Reyndar var það svo að stjórnmálaforingi seint á síðustu öld sagði, löngu eftir að skömmtunaröld lauk, að það væri vel hægt að búa við skömmtun ef hún væri réttlát! Jón vinur minn Hreggviðsson taldi að réttlæti valdhafa væri verra en ranglæti þeirra.
Þessi orð Jóns segja aðeins eitt: allt fer vel að lokum ef vondir menn hafa ekki afskipti af málum.
Ritara finnst eitt merkilegasta viðfangsefni „áfengisbanns“ á síðustu öld drykkjuskapur valdhafa og aðgangur ýmissa stétta að áfengi, og í framhaldi af því áfengistengd andlát, allt í nafni réttlætis valdhafa gagnvart alþýðu.
Sykurskattur
Það er merkilegt með ýmsa tekjuöflun, að því ákafar sem fólk hafnar markaðshagkerfi, því meira er hugmyndaflugið við að raska verðhlutföllum og stjórna neyslu „á markaðslegum forsendum“ með því að breyta verðhlutföllum. Auðvitað er sykurneysla úr öllu hófi. Það sést á holdafari og tannskemmdum.
Mín bjargfasta trú er að fræðsla og kynning beri meiri árangur við að stjórna neyslu fremur en gífurlega flókið skattkerfi. Auk þess sem sykur er nauðsynlegur til að heilastarfsemi virki.
Sykurskattur er dæmi um óþarfa stjórnsemi, ofstjórn og ofstopa.
„Mér finnst“-tekjuöflun
Tekjuöflun og gjaldtaka ríkisins flokkast undir íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir. Það er grundvallaratriði að íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir séu fyrirsjáanlegar og að slíkar ákvarðanir byggist á málefnalegum sjónarmiðum. Tekjuöflun, sem á að ná til ákveðinna hópa og ekki annarra, getur ekki talist almenn. Launþegar og fyrirtæki verða að geta séð fyrir hvert er þeirra skattumhverfi, en ekki að álagning sé „eftir efnum og ástæðum“ og „mér finnst“-sjónarmiðum niðurjöfnunarnefnda.
„Mér finnst“-sjónarmið valdhafa og embættismanna eru sjaldnast málefnaleg. Því er það varhugavert þegar valdhafar telja sig þess umkomna að leggja á nýja skatta.
Hvalreki
Náttúrulegur hvalreki kann að vera tvenns konar; dauður og óætur búrhvalur með óþef, ellegar sem næst lifandi sandreyður með 80 tonn af gæðakjöti. Góður hvalreki var sjaldnast fyrirsjáanlegur. Þeir fengu hvalkjöt sem áttu ílát. Það var enginn skattlagning.
Nú finna ýmsir að bankar hagnast í sínum viðskiptum. Það er vissulega rétt og eðlilegt. „Óhagnaður“ ber aldrei með sér gæfu. Hví hagnast bankarnir? Einokun eða fákeppni?
Einhverjir sjá að hagnaðurinn er meiri en þeirra væntingar voru. Það á að leggja á hvalrekaskatt fyrir heimilin! Hvaða heimili?
Einokunarábati
Þá er vert að spyrja: Er einhver hvalreki hjá bönkum? Ef svo er, af hverju stafar hvalrekinn?
Í fréttatilkynningu Landsbanka Íslands í tilefni af sex mánaða uppgjöri bankans fyrr í sumar kemur fram að vaxtamunur hafi aukist um 0,4%, þ.e. úr 2,5% í 2,9%.
Þetta er ekki hvalreki. Þetta er einokunarábati! Þessi einokunarábati er tekinn af innistæðueigendum. Sennilega hafa útlánavextir hækkað í takt við stýrivaxtabreytingar Seðlabankans, en vextir af innlánum hafa ekki gert það. Það er orsök hvalrekans.
Með öðrum orðum: „hvalrekinn“ stafar af „einokunarábata“ eða „fákeppnisábata“ á íslenskum fjármálamarkaði. Þessu eiga ráðamenn að hafa áhyggjur af, en ekki að rjúka upp með lýðskrumi og tillögum um skattlagningu.
Og af hverju á að færa þennan „einokunarábata“ til þeirra sem stjórnmálamenn kalla „skuldug heimili“? Lágir innlánsvextir á verðbólgutímum eru skattur á heimili sem hafa reynt að sýna ráðdeild. Er ráðdeild ef til vill sérstakt skattaandlag?
„Einokunarábati“ og „fákeppnisábati“
„Einokunarábati“ og „fákeppnisábati“ verða aðeins til vegna þess að þær stofnanir sem eiga að gæta hagsmuna neytenda hafa brugðist.
Neytendastofa, Samkeppniseftirlit og Fjármálaeftirlit eiga að gæta hagsmuna neytenda en ekki þegja yfir því þegar fyrirtæki á neytendamarkaði krækja sér í „hvalreka“ á kostnað neytenda.
Eftirlitsstofnanir hafa það hlutverk að gæta hagsmuna neytenda, en þær hafa ekki það hlutverk að vera til sjálfra sín vegna. Þá eru þær verri en engin.
Íslenskar fjármálastofnanir starfa á neytendamarkaði. Stór íslensk fyrirtæki eiga þess kost að kaupa sína þjónustu á samkeppnismörkuðum erlendis, og leggja því ekkert af mörkum í „einokunarábata“ fjármálafyrirtækja.
Hugsanlegur „hvalreki“ fjármálafyrirtækja á rót að rekja til þess að réttindagæslustofnanir neytenda hafa brugðist hlutverki sínu, og þegar svo ber undir eru slíkar stofnanir verri en engin.
Að neita eða neita ekki staðreyndum
Stofnanir neita oft staðreyndum af því að staðreyndirnar koma sér illa fyrir þær. Slíkar stofnanir vita vart af staðreyndum sem koma sér illa fyrir neytendur, vegna þess að eftirlit hefur brugðist.
Reimar skáld
Reimar skáld sagði eitt sinn: „Ef mann langar til að drýgja glæpi þá á maður að gera það samkvæmt lögum, því allir höfuðglæpir eru samkvæmt lögum.“
„Einokunarábati“ er ábati af glæp gegn neytendum samkvæmt lögum, og lögin hafa brugðist neytendum. Og einokunarábatinn er meiri en nemur hálfu árskaupi öskukarls.
Höfundur var alþingismaður.