Svava Sigurjónsdóttir fæddist í Reykjavík 5. september 1933. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík 8. ágúst 2023.
Foreldrar hennar voru Rigmor Hanson danskennari, f. 1913, d. 2008, og Sigurjón Jónsson, vélstjóri og járnsmíðameistari, f. 1909, d. 2005.
Svava giftist 9. janúar 1954 Sigurjóni Sigurðssyni, f. 1931 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Guðrún Jónsdóttir húsmóðir, f. 1907, d. 1998, og Sigurður Einarsson vélsmiður, f. 1905, d. 1960. Börn þeirra eru 1) Hannes Snæbjörn Sigurjónsson, f. 1954, d. 2018. Fyrri barnsmóðir Hannesar er Rósa Hilmarsdóttir, f. 1959. Sonur þeirra er Trausti, f. 1983. Eiginkona Trausta er Guðrún Fönn Tómasdóttir, f. 1982. Börn þeirra eru Tómas Jökull, Aron Frosti og Dagný Hanna. Seinni barnsmóðir Hannesar er Guðrún Ragna Guðjónsdóttir, f. 1965. Sonur þeirra er Sigurjón Davíð, f. 1998. 2) Sigrún Sigurjónsdóttir, f. 1957.
Svava ólst upp í Reykjavík og stundaði nám í Austurbæjarskóla og gagnfræðaskólanám við Ingimarsskólann við Lindargötu. Hún lærði síðar snyrtifræði og rak um tíma Snyrtistofu Svövu og Ebbu með vinkonu sinni. Svava starfaði einnig í heildverslun og kenndi dans í dansskóla móður sinnar, Dansskóla Rigmor Hanson, ásamt því að vera húsmóðir.
Svava kynntist eiginmanni sínum á skíðum í Hveradölum 1950 og gengu þau í hjónaband 9. janúar 1954. Það var viðeigandi að þau kynntust á skíðum, því útivist og íþróttir voru henni ávallt hugleiknar. Sérstaklega átti það við um skautaíþróttina, en hún vann ötullega að félagsmálum hjá Skautafélagi Reykjavíkur og var um árabil formaður listskautanefndar félagsins og í stjórn SR í mörg ár. Hún beitti sér ákaft fyrir byggingu Skautahallarinnar í Laugardalnum og var 1998 sæmd Gullmerki ÍBR fyrir störf sín í þágu skautaíþróttarinnar. Hún var einnig mikill KR-ingur og tók virkan þátt í félagsstarfi KR-kvenna. Þetta svalaði þó ekki félagsþörf hennar því hún var einnig virkur meðlimur í Félagi sjálfstæðismanna í Nes- og Melahverfi og í Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra um árabil.
Útför Svövu fer fram frá Neskirkju í dag, 25. ágúst 2023, klukkan 13.
Hér áður fyrr var því oft haldið fram, í gamni og alvöru, að Vesturbæingar væru allt í senn, Vesturbæingar, KR-ingar og sjálfstæðismenn. Svona alhæfing er auðvitað einföldun þótt þetta þrennt hafi glettilega oft átt samleið fyrir vestan Læk.
Í dag kveðjum við og Vesturbærinn hana Svövu Sigurjónsdóttur, vinkonu okkar til margra ára, sem var svo sannarlega, alla sína tíð, Vesturbæingur, KR-ingur og sjálfstæðismaður af lífi og sál. Og hún átti reyndar ekki langt að sækja þau lífsviðhorf, þann íþróttaáhuga og þann félagsanda sem fylkti fjölda Vesturbæinga undir merki Sjálfstæðisflokksins og KR.
Faðir Svövu, Sigurjón Jónsson járnsmíðameistari, sat í miðstjórn ASÍ, gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var um skeið erindreki flokksins. Hann varð sjö sinnum Íslandsmeistari með meistaraflokki KR í knattspyrnu og árið 1941 náði hann þeim titli, ásamt bræðrum sínum, Óla B. og Guðbirni. Föðurbróðir Svövu, Óli B. Jónsson, var auk þess sigursælasti knattspyrnuþjálfari hér á landi um langt árabil.
Móðir Svövu, Rigmor Hansen, var hins vegar brautryðjandi í listdansi hér á landi, kenndi dans, ásamt Ruth, systur sinni, og síðan ein, var þekktasti dansari og danskennari í Reykjavík um árabil og stóð þar fyrir fjölda ballett- og danssýninga. Önnur systir Rigmor, Ásta, varð fyrst kvenna til að synda Engeyjarsund, árið 1927.
Svava tók svo sannarlega við keflum foreldra sinna. Hún æfði samkvæmisdansa og ballett frá barnsaldri, keppti á skíðum í skíðadeild KR, sat í stjórn deildarinnar um skeið, var einn stofnandi KR-kvenna og sat í stjórn Skautafélags Reykjavíkur í rúma tvo áratugi. Hún sat í stjórn Félags sjálfstæðismanna í Nes- og Melahverfi í tæp 40 ár, starfaði í fjölskyldu- og íþróttanefnd flokksins og var lífið og sálin í kosningabaráttu flokksins í Vesturbænum í Reykjavík um áratuga skeið.
Svava var þó fyrst og síðast mikil hugsjónakona. Hún var öflugur talsmaður sjálfstæðisstefnunnar, vann þrotlaust að því að afla flokknum fylgis í kosningum, mætti þá fyrst á kosningaskrifstofuna á morgnana og fór síðust heim á kvöldin. Svava bjó yfir miklu baráttuþreki, sterkum félagsanda og óbilandi áhuga á öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var ætíð glaðsinna og hvetjandi, þekkti hundruð einstaklinga og mannlíf sinnar kynslóðar í Vesturbænum og kunni svo sannarlega að blanda geði við fólk á öllum aldri. Það var einmitt óeigingjarnt starf sjálfboðaliða eins og Svövu sem gerði Sjálfstæðisflokkinn að stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar.
Við sem störfuðum með Svövu að brautargengi Sjálfstæðisflokksins í Vesturbænum kveðjum því góðan baráttufélaga með söknuði, virðingu og þakklæti og sendum Sigurjóni, Sigrúnu, barnabörnum og langömmubörnum innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Svövu.
Sigríður Ragna Sigurðardóttir,
Marta Guðjónsdóttir.