Orri Páll Jóhannsson
Orri Páll Jóhannsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á morgun munu tveir stjórnarflokkanna í ríkisstjórn Íslands halda flokksráðsfundi og fara yfir sviðið. Sjálfstæðisflokkurinn heldur flokksráðsfund í Reykjavík og Vinstri-grænir á Flúðum. Oftar en ekki er fremur rólegt yfir stjórnmálunum á Íslandi á…

Á morgun munu tveir stjórnarflokkanna í ríkisstjórn Íslands halda flokksráðsfundi og fara yfir sviðið. Sjálfstæðisflokkurinn heldur flokksráðsfund í Reykjavík og Vinstri-grænir á Flúðum.

Oftar en ekki er fremur rólegt yfir stjórnmálunum á Íslandi á sumrin en í sumar fór hins vegar töluvert fyrir stórum málum eins og frá hefur verið greint. Í framhaldinu hefur komið fram gagnrýni á ríkisstjórnina frá flokksmönnum stjórnarflokkanna. Eflaust reyna flokkarnir að stilla saman strengi innan sinna raða fyrir næsta þing en þingsetning er fyrirhuguð 12. september og forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, flytur stefnuræðu sína kvöldið eftir.

Orri Páll Jóhannsson, formaður þingflokks VG, sagðist hlakka til að hitta félagana og hefur ekki áhyggjur af því að hljóðið í flokksmönnum verði þungt á fundinum þegar Morgunblaðið heyrði í honum í gær en sagði hollt fyrir þingmenn flokksins að heyra hvað brennur á flokksmönnum. „Við erum alltaf með dagskrárliðinn almennar stjórnmálaumræður og þar segja menn sinn hug. Það er mikilvægur liður fyrir okkur þingmennina.“

Orri Páll nefndi einnig að pallborð um mat framtíðar yrði mjög áhugavert. „Við verðum einmitt í miðju matvælahéraðinu og erum með matvælaráðherra í okkar röðum, Svandísi Svavarsdóttur.“

Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, segir að útlit sé fyrir metþátttöku á fundinum hjá sjálfstæðismönnum. „Það er gríðarlega ánægjulegt. Eins og venjulega munu menn skiptast á skoðunum. Eflaust mun einhverjum hlaupa kapp í kinn en við erum vön því og göngum út af svona fundum sameinuð. Það skiptir okkur miklu máli að geta átt hreinskiptnar umræður án þess að rista einhver sár,“ segir Óli Björn.