Eiríkur Tómasson, útgerðarmaður og forstjóri Þorbjarnar í Grindavík, fæddist 17. maí 1953. Hann lést 18. ágúst 2023 í faðmi fjölskyldunnar á Landspítalanum í Fossvogi, sjötugur að aldri.

Foreldrar hans voru Hulda Björnsdóttir, f. 1931, d. 2008, og Tómas Þorvaldsson, f. 1919, d. 2008.

Eiríkur var elstur fjögurra barna þeirra, yngri eru Gunnar, f. 1954, Stefán Þorvaldur, f. 1956, og Gerður Sigríður, f. 1960.

Eftirlifandi eiginkona Eiríks er Katrín Sigurðardóttir, f. 1963. Þau gengu í hjónaband 10. febrúar 2018 en bjuggu saman í 17 hamingjurík ár.

Dóttir Katrínar er Kolbrún, f. 1983, maki Oddsteinn Almar Magnússon, f. 1980. Þeirra börn eru Rebekka, f. 1999, Embla Katrín, f. 2006, Amanda Rán, f. 2009, og Óliver Kató, f. 2014. Rebekka á tvö börn.

Eiríkur var áður giftur Margréti Gunnarsdóttur, f. 1952. Þau skildu.

Synir þeirra eru Heiðar Hrafn, f. 1974, maki Berglind Björk Guðmundsdóttir, f. 1977. Börn þeirra eru Róshildur, f. 1993, Lena Rut, f. 1997, Margrét Áslaug, f. 1998, Eiríkur Þór, f. 2000, Andra Björk, f. 2001, og Sunna Rós, f. 2015. Róshildur á þrjú börn.

Tómas Þór, f. 1977, eiginkona Sonja Björk Elíasdóttir, f. 1975. Börn þeirra eru Sandra Ýrr, f. 1994, Elísa Sól, f. 1998, d. 2011, Lúkas Nói, f. 2007, og Karítas Ylfa, f. 2010. Eiginmaður Söndru Ýrar er Oddur Geirsson og eiga þau þrjú börn.

Gunnlaugur, f. 1982, eiginkona Helga Jakobsdóttir, f. 1983. Börn þeirra eru Marinó Breki, f. 2008, Jakob Daði, f. 2011, og Hulda Hrafney, f.2015.

Gunnar, f. 1988, maki Þóra Bjarnadóttir, f. 1987. Sonur þeirra er Hjörtur, f. 2022.

Eiríkur lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1973 og brautskráðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1978. Á því ári kom hann til stjórnunarstarfa hjá Þorbirninum hf., fyrirtæki sem faðir hans stofnaði með fleirum árið 1953. Þegar þarna var komið sögu var Þorbjörninn kominn í aðaleigu Tómasar og fjölskyldu hans.

Bræðurnir Eiríkur og Gunnar voru með fleirum í aðalhlutverki við rekstur og uppbyggingu Þorbjarnarins til þess að verða eitt af allra stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins – með fjölda báta og stóra landvinnslu.

Starfa sinna vegna gegndi Eiríkur margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum og sat í stjórnum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og áður LÍÚ, Samtaka atvinnulífsins, Fiskifélags Íslands og Hafrannsóknastofnunar.

Eiríkur var forstjóri Þorbjarnar til ársins 2018 en hann lét af störfum vegna veikinda.

Útför Eiríks fer fram frá Grindavíkurkirkju í dag, 25. ágúst 2023, klukkan 13.

Elsku Eiríkur, það sem ég sakna þín mikið.

Minningar streyma í gegnum hugann og fylla mig gleði og söknuði. Ég er þakklát fyrir öll ævintýrin sem við fórum í. Ferðirnar til Tene en þar standa upp úr ferðirnar á fjallið alla morgna og þegar niður var komið gengum við í flæðarmálinu til baka. Þú varst svo fróður um allt og var yndislegt að hlusta á sögurnar þínar og fróðleik um heiminn.

Við dönsuðum saman og hlustuðum á tónlist. Það var alltaf gleði í kringum þig og stutt í húmorinn fram á seinasta dag.

Þú varst alltaf svo góður við mig og krakkana, þú og Amanda Rán hafið alltaf átt sérstakt samband, enda sagði hún snemma að Ránarnafnið væri í höfuðið á þér því þú ættir hafið.

Minning þín mun lifa í hjörtum okkar.

Elska þig.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Þar til við hittumst aftur.

Þín

Kolbrún (Kolla).

Elsku pabbi.

Takk fyrir allar minningarnar, takk fyrir öll ferðalögin, takk fyrir uppeldið og takk fyrir að hugsa svona vel um okkur öll.

Ég er þér mjög þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að koma aftur til vinnu í Þorbirni. Það var ómetanlegt að fá að vera með þér á hverjum degi og læra af þér. Og þegar veikindin voru byrjuð að gera vart við sig þá gat ég verið til staðar fyrir þig.

Þrátt fyrir að vera meðvitaður um að þessi stund hafi verið að nálgast, þrátt fyrir að trúa að þér líði betur núna, þá kemur það ekki í veg fyrir söknuðinn sem hellist yfir.

Ljósin á ströndu skína skær

Skipið það færist nær og nær

Og þessi sjóferð endi fær.

Ég búinn er að puða og púla

Pokann að hífa og dekkin spúla.

Reifur ég stend í stafni hér

Strax og að landi komið er

Bý ég mig upp og burt ég fer.

(Iðunn Steindóttir)

Elska þig alltaf.

Þinn sonur,

Heiðar Hrafn.

Mikið er ég stoltur af því að þú varst pabbi minn. Ég hef alltaf getað leitað til þín og alltaf varst þú klár í að styðja mig og mína fjölskyldu. Ég get alveg sagt það að þú varst einn af klettunum í mínu lífi sem fylgdist með og passaðir upp á mig og mína.

Að vera útgerðarmaður fyrir pabba var ekki vinnan hans heldur ástríðan hans. Fjölskyldan og útgerðin áttu hug hans allan. Þegar við fórum í frí erlendis þurfti hann alltaf að fá allar aflaupplýsingar sendar í faxtækið í móttöku hótelsins. Hann þurfti alltaf að vera vel upplýstur um stöðuna á öllu.

Pabbi var mjög útsjónarsamur og góður leiðtogi. Það er einmitt það sem pabbi var, leiðtogi. Hann treysti fólki en var fljótur að sjá ef fólk fór út af stefnunni og lét þá vita. Hann var mjög skýr og fljótur að hugsa. Mjög fljótur að setja sig inn í mál og átta sig á stöðunni. Sögurnar eru margar frá hans útgerðarmannsferli. Þótt ég hafi heyrt margar sögur þá ætla ég að komast yfir þær sem flestar hjá þínum samferðamönnum næstu árin og eiga hjá mér.

Mér er svo minnisstætt er ég var heima hjá mér og þú hringdir í mig eins og oft áður. Spurðir hvort ég væri laus og hvort ég vildi ekki aðeins skjótast með þér inn í Reykjavík. Baðst mig einnig að vera snyrtilega klæddur. 30 mínútum síðar sat ég með pabba á efstu hæð í hornskrifstofu á Seðlabanka Íslands að ræða við seðlabankastjóra um gjaldeyrismál og fleira. Fyrir þér var þetta ekkert nýtt heldur bara vinnan eða áhugamálið. Allt fór í að byggja upp og tryggja sterkt og öflugt sjávarútvegsfyrirtæki í samfélaginu Grindavík.

En pabbi var fyrst og fremst pabbi minn. Ég hef saknað þín mikið og samtala okkar. Maður leitaði alltaf til þín. Til dæmis er við Sonja fluttum utan vegna náms þá var ég búinn að setja allt upp og reikna í excel, síðan var það sent á þig. Þegar þú samþykktir að þetta gæti gengið upp fjárhagslega þá var farið í að undirbúa flutninginn.

Einnig var mjög fast í uppvextinum hjá mér að það ætti að spara og ekki eyða úr hófi. Stundum fór það reyndar of langt. Til að útskýra það þá fékk ég einu sinni bílinn lánaðan hjá þér og var að keyra heim á Reykjanesbrautinni og taka fram úr við Kúagerði. Þá hvellsprakk og ég rétt náði að fara út í kant. Einungis felgan eftir og allt dekkið farið. Hélt að ég hefði keyrt á eitthvað. Fór til Grindavíkur á varadekkinu og beint á dekkjaverkstæðið. Sagði þeim að dekkið hefði sprungið, þá kom svarið: „Já, vinstra megin að aftan? Var búinn að segja pabba þínum að það væri ónýtt en hann vildi nýta það aðeins lengur.“

Sonju þótti svo vænt um og mun sakna þess að fá nýveiddan laxinn frá þér í afmælisgjöf enda hittist alltaf á að þú varst að koma úr veiði er afmælið hennar var og lax uppáhaldsmaturinn hennar.

Öll þessi gildi sem þú hefur kennt manni með dugnað og halda alltaf áfram, ekki gefast upp, hefur maður tileinkað sér og farinn að sjá það í börnunum okkar Sonju, afabörnunum þínum.

Mikið sakna ég þín elsku pabbi minn

Þinn sonur,

Tómas, Sonja og
fjölskylda.

Pabbi, þegar ég hugsa til baka þá fer hugurinn fyrst til bryggjurúntanna. Þekktir alla og þurftir endalaust að kjafta við einhverja kalla. Það sem ég gat orðið þreyttur og pirraður á að bíða eftir þér.

Símtöl vil Óla Rögg, oft á dag í marga tíma fannst mér. Voruð þið einhvern tímann orðlausir?

Þú varst útgerðarmaður í húð og hár, algjör sérfræðingur á þínu sviði. Bátar voru sérstakt áhugamál og þér var kappsmál að barnabörnin eignuðust bát eftir að þau fæddust.

Mér finnst ennþá merkilegt hvernig þú þekktir alla báta sem sigldu fram hjá Grindavík, alveg sama hversu langt frá landi þeir sigldu.

Seinna voru það sleðaferðirnar upp í Karlaríki, man að mig langaði alltaf með þér í hvert sinn og sárnaði agalega þegar það var ekki hægt.

Utanlandsferðirnar okkar í frí og á fótboltaleiki, þar sem Barcelona ’99 stendur klárlega upp úr.

Minningarnar eru endalausar, ég geymi þær hjá mér og deili með krökkunum.

Ég lít svo mikið upp til þín, ert stórmenni í mínum huga og mín stærsta fyrirmynd. Þú varst alltaf í svo góðu sambandi og fylgdist með öllu. Gafst mér ráð og leiðbeindir.

Það uppeldi stendur með mér og mun gera áfram, ráðin þín og leiðbeining verða alltaf hluti af mínu ákvörðunarferli.

Svo þegar ég kynntist Helgu, giftist og eignaðist börn bættust þau í hringinn sem þú fylgdist með. Þú varst stoltur af barnabörnunum og það er eftirsjá að því að þau fái ekki tækifæri til að eyða meiri tíma með þér.

Elsku pabbi, ég mun sakna þín hér eftir sem hingað til.

Þinn

Gunnlaugur (Gulli).

Elsku pabbi, nú þegar þú hefur kvatt þennan heim og siglt á ný mið þá rifjast upp margar yndislegar minningar. Minningar af ferðalögum um landið þar sem þú bentir á alla fjallstinda, sagðir mér hvað þeir hétu og spurðir svo á bakaleiðinni hvort ég myndi heitið (sem ég sjaldnast gerði). Minningar af aðfangadagsmorgnum þar sem þú varst sá eini sem hafðir þolinmæði í að spila við æstan lítinn gutta sem fékk nýtt spil í skóinn. Minningar af mér óþolinmóðum á meðan þú talaðir við sjóara og skipstjóra þegar við tókum bryggjurúnt.

Heppnir vorum við bræðurnir með uppeldið og æskuna, fengum að vera áhyggjulausir og njóta þess að vera ungir og vitlausir. Þú passaðir alltaf upp á okkur en varst ekkert að stoppa okkur í að gera mistök, nema ef klúðrið var þeim mun stórkostlegra. Þú lést okkur leysa okkar eigin vandamál en varst alltaf til staðar ef okkur vantaði hjálp eða ef þú sást að við vorum búnir að taka of mikið á okkur. Ég vona að ég geti staðið og stutt við son minn eins og þú stóðst við bakið á okkur bræðrum.

Þó að Hjörtur sonur minn hafi einungis náð að kynnast þér í stutta stund þá er ég þakklátur fyrir þær stundir sem þið fenguð saman og ég mun passa upp á að hann fái að heyra sögur af afa sínum, stórmenninu úr Grindavík.

Takk fyrir allt elsku pabbi.

Þinn sonur,

Gunnar.

Elsku afi.

Það sem við söknum þín mikið og fallega brossins. Þú varst alltaf svo mikill húmoristi og stríðinn. Það var alltaf gleði í kringum þig og þú varst alltaf tilbúinn í leikinn með okkur, boltaleikir voru uppáhald okkar allra. Við söknum banksins í borðið og leiksins með augabrúnunum, það sem við gátum hlegið saman.

Ferðirnar í fjöruna, hjólað og gengið á Þorbjörn og skemmtilegu sögurnar sem þú sagðir okkur eru dýrmætar minningar. Þú vildir alltaf hafa fínt og hreint í kringum þig og átti hver hlutur sitt heimili sem er góð regla.

Þegar þú varst kominn í hjólastólinn nutum við þess að fara í göngu saman um Grindavík og var alltaf skyldustopp á bryggjunni að skoða hvaða skip voru í landi og var alveg sama hvernig verðrið var, í göngu fórum við og nutum okkar.

Við munum alltaf sakna þín en við vitum að þú ert skærasta stjarnan á himnum og munt alltaf passa okkur.

Hver minning um þig er dýrmæt perla.

Þín að eilífu,

Embla Katrín, Amanda Rán og Óliver Kató.

Elsku afi, þín er sárt saknað!

Okkur fannst alltaf gaman að hitta þig, þú sýndir okkur svo sniðugar brellur, eins og að hreyfa eyrun og ennið meira en nokkur annar gat gert.

Það var alltaf stemning með þér, allgjör grínisti og vá hvað Elísa Sól systir okkar gat hlegið að þér, þið náðuð svo vel saman. Við elskum þig.

Þín

Sandra Ýrr Sonjudóttir, Lúkas Nói Tómasson og Karítas Ylfa Tómasdóttir.

Síðastliðinn föstudag lést Eiríkur bróðir minn eftir erfið veikindi. Þótt hann væri bara þremur árum eldri en ég, þá passaði hann mig og fannst hann bera ábyrgð á mér langt fram á fullorðinsár. Fyrsta minningin sem ég á um Eirík er þegar hann var að hoppa úr kojunni sinni yfir í hjónarúm foreldra okkar, en hann var yfirleitt rólegur og varkár drengur. Þess vegna hefur minningin líklega setið föst í minninu. Eiríkur þurfti oft að passa upp á uppátækjasama litla bróður sem var alltaf að gera eitthvað af sér. Þótt ótrúlegt virðist vera kvartaði hann aldrei yfir að þurfa að vera með litla bróður í eftirdragi og sýndi mér mikla þolinmæði og hlýju. Með aldrinum þróaðist með okkur mikill kærleikur og vinskapur.

Það var gott að leita til Eiríks því hann var ætíð úrræðagóður og hjálpsamur. Sameiginlegt áhugamál okkar var að ferðast um landið okkar og fórum við ófá skiptin saman í útilegur og jeppaferðir upp á hálendið með fjölskyldum okkar. Við fórum á ótal fallega staði og oftar en ekki var farið á óvanalegar slóðir í könnunarleiðangur.

Eiríkur og Kata voru miklar fjallageitur og áttum við margar ánægjustundir saman hjónin í fjallgöngum. Alltaf valdi Eiríkur erfiðustu og lengstu leiðina, en það gerði ekkert til því við fundum okkur alltaf eitthvað til að skoða, tala um og hlæja saman. Eiríkur og Kata áttu griðastað í fallega sumarbústaðnum sínum í Grímsnesinu. Það var sem þeirra annað heimili og eyddu þau ófáum stundum í að rækta í kringum bústaðinn. Þau nutu þess að fá félagsskap enda gestrisin með eindæmum og matarboðin urðu ótalmörg.

Takk fyrir samfylgdina, elsku stóri bróðir, minningarnar um þig mun ég ætíð geyma í hjarta mér. Hún Kata þín sýndi ótrúlega staðfestu og útsjónarsemi í þessum erfiðu veikindum en samband ykkar var alltaf fullt af ást og virðingu hvors fyrir öðru. Hún fyllti líf þitt allt fram að dánarstundu af hamingju og gleði.

Við Erla og fjölskylda sendum Kötu og fjölskyldu, drengjunum þínum og fjölskyldum þeirra hugheilar samúðarkveðjur. Guð geymi ykkur.

Stefán (Stebbi) bróðir.

Eiríkur, minn kæri mágur og vinur, hefur nú kvatt. Það má segja að ég einkabarnið hafi eignast eldri bræður um leið og ég fór að búa með litlu systur þeirra.

Það var alltaf gott að leita til Eiríks og fá álit hans þegar eitthvað stóð til. Hann var fljótur að hugsa, reikna og taka ákvarðanir. Hann var heldur ekkert að liggja á sinni skoðun ef honum þótti hugmyndirnar ekki álitlegar. Hann kunni að rýna til gagns.

Eiríkur var vinmargur enda gaman að umgangast hann. Hann gat verið uppátektasamur og sjaldan lognmolla þar sem hann var. Ég á margar góðar minningar frá ferðalögum okkar hér innanlands og erlendis. Ferðum um hálendi Íslands á jeppum eða vélsleðum, í veiði, á fótboltaleiki á Englandi og ekki síst ferðum á húsbílum um Evrópu.

Eiríkur var leiðtogi. Hann var valinn til forustu á flestum þeim stöðum þar sem hann lét til sín taka. Hann var farsæll stjórnandi sem naut virðingar samstarfsmanna og viðsemjenda. Menn gátu gengið að því vísu að orð hans stóðu. Eiríkur gat líka verið harður í horn að taka ef hann taldi á rétt sinn gengið, og ekki síst ef hann taldi gengið á rétt þeirra sem næst honum stóðu.

Ég er stoltur af því að geta talað um Eirík sem vin. Vin sem kenndi mér margt og gerði mig að betri manni.

Jón Emil Halldórsson.