Guðrún Jóhannesdóttir fæddist 26. desember 1941. Hún lést 23. júlí 2023. Útför Guðrúnar var gerð 9. ágúst 2023.
Ég kynntist Guðrúnu Jóhannesdóttur af tilviljun í Kaupmannahöfn fyrir margt löngu þegar Kári Þórisson, maðurinn hennar, var að læra til þjóns á Hótel Hafnia og Haraldur Ólafsson, maðurinn minn, var að viða að sér efni í ritgerð. Þetta var að haustlagi og jólaverslun að fara í gang í höfuðstað Dana. Til að hafa eitthvað fyrir stafni sótti ég um starf í Daells varehus og gleymi seint lífsreglunum sem nýliðum voru settar á dagslöngu námskeiði áður en hafist var handa við afgreiðslu. Ég hvatti Guðrúnu til að koma líka til starfa í Daells. Hvílík skemmtun að kynnast henni betur! Hún var ekki aðeins falleg og hláturmild heldur jók hún líka skilning minn á ýmsu sem ég alla tíð síðan hef litið öðrum augum en áður. Oft hef ég vitnað til orða hennar þótt leiðir skildu eftir skamma samveru og við hittumst sjaldan síðar og þá aðeins af ánægjulegum tilviljunum. Sem dæmi um það sem hún brýndi fyrir mér var mikilvægi þess að velja varalit af kostgæfni, að vera alltaf fallega til fara og að spara það ekki að gleðja náungann með fallegu brosi og hlýju. Sjálf lét hún ekki sitja við orðin tóm í þessu efni.
Hún sýndi mér fram á fáfengileika þess að mæna á dót í búðargluggum fornverslana í Kaupmannahöfn, benti mér á að þetta væri meira eða minna „gamalt drasl“. Hún var nútímakona sem horfði til framtíðar en ekki um öxl. Ég vissi ekki fyrr en ég kynntist henni að ólíklegustu staðir á Íslandi geta verið því næst paradís á jörð. Sveitin okkar, þ.e. Mývatnssveitin, væri ekki sjálfkjörin í það sæti.
Ógleymanlegar eru mér athugasemdir hennar af ýmsu tagi við afgreiðslustörfin. Við skemmtum okkur þar oft vel af litlu tilefni.
Í þau skipti sem ég hitti hana síðar á lífsleiðinni sá ég að hún hafði ekki hvikað frá reglunum um varalitinn, fötin, brosið og elskulega framkomu. Hún var alltaf falleg í mínum augum, sama unga stúlkan og var gleðigjafi forðum daga í Daells varehus.
Við Haraldur vottum ástvinum Guðrúnar og Kára einlæga samúð vegna fráfalls þeirra.
Hólmfríður K. Gunnarsdóttir.