Bátar frá Rafnari reynast vel í prófunum og bendir flest til þess að mikill vöxtur verði hjá fyrirtækinu á næstunni.
Bátar frá Rafnari reynast vel í prófunum og bendir flest til þess að mikill vöxtur verði hjá fyrirtækinu á næstunni. — Ljósmynd/Rafnar
Keith Hubble, sérfræðingur í bátatækni hjá TSM Group, kynnti nýverið á ráðstefnu um rekstur hraðbáta, High Speed Boat Operations Forum 2023, í Gautaborg að íslenski bátsskrokkurinn frá haftæknifyrirtækinu Rafnari hefði á allan hátt reynst stöðugri en sambærilegur hraðbátur bandaríska sjóhersins

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Keith Hubble, sérfræðingur í bátatækni hjá TSM Group, kynnti nýverið á ráðstefnu um rekstur hraðbáta, High Speed Boat Operations Forum 2023, í Gautaborg að íslenski bátsskrokkurinn frá haftæknifyrirtækinu Rafnari hefði á allan hátt reynst stöðugri en sambærilegur hraðbátur bandaríska sjóhersins. Hann sagðist einnig telja að sú staðreynd að bátar með skrokki Rafnars fara mun betur með áhafnarmeðlimi geti dregið verulega úr meiðslum og langtímaörorku hjá þessum hópi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Rafnari.

Hubble kynnti á ráðstefnunni samanburðarprófanir sínar á hraðbáti frá Rafnari annars vegar og hraðbáti sérsveitar bandaríska sjóhersins hins vegar. Sá síðarnefndi var framleiddur hjá stórfyrirtækinu USMI, sem framleitt hefur hundruð báta fyrir sjóherinn, og kom hann mun verr út í veltingi og hreyfingum en báturinn frá Rafnari. USMI-báturinn varð samkvæmt rannsókninni fyrir mun meiri kröftum (álagi) á alla mögulega vegu, bæði frá hliðunum og frá aftanverðum og framanverðum bátnum. Munurinn gat numið frá 1,5-2 sinnum meiri kröftum og upp í 5,5 sinnum meiri í verstu tilfellunum. Prófanirnar fóru fram á sjó utan við Norfolk-flotastöðina í Virgínuríki í byrjun þessa árs.

Þá segir í tilkynningunni að tilgangur Hubble með samanburðarprófunum sínum á bátunum tveimur hafi verið að kynna nýja tækni sem fyrirtækið hefur þróað sem mælir álag á báta og áhafnir báta og skipa. Tæknin byggist á skynjurum sem komið er fyrir á útlimum skipstjórnenda og á bátunum sjálfum og mæla hreyfingar þeirra í rauntíma.

Stóraukin eftirspurn

Að sögn Benedikts Orra Einarssonar forstjóra Rafnars sýna þessar niðurstöður kosti þess að kaupa bát með skrokk frá Rafnari þar sem hann leiði til minni meiðsla og minni þreytu skipstjórnenda, áhafna og farþega.

„Það var ánægjulegt að heyra reyndan sérfræðing segja það sama og við höfum vitað í mörg ár, þ.e. að Rafnarsskrokkurinn er einstakur hvað viðkemur stöðugleika á sjó og skellur mun minna en sambærilegir bátar, ásamt því að draga verulega úr meiðslum og langtímaörorku. Þessar niðurstöður hafa vakið mikla alþjóðlega athygli og eru gríðarlega dýrmætar fyrir okkar sölustarf. Við finnum m.a. fyrir auknum áhuga frá fagaðilum eins og sérsveitum og landhelgisgæslum um allan heim og fyrirlesturinn er búinn að fá hátt í hundrað þúsund áhorf á netinu á nokkrum vikum. Stóra verkefnið fram undan hjá okkur er að auka framleiðslugetu til þess að mæta aukinni eftirspurn,“ er haft eftir Benedikt Orra í tilkynningunni.