Fjölskyldan Þegar Ásta Ragnheiður kona Guðjóns varð sjötug kom fjölskyldan saman á Nesjum í Miðneshreppi.
Fjölskyldan Þegar Ásta Ragnheiður kona Guðjóns varð sjötug kom fjölskyldan saman á Nesjum í Miðneshreppi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðjón Pétur fæddist 26. ágúst 1943 í Miðhúsum í Sandgerði. Hann ólst fyrst upp í Sandgerði og síðan á Nesjum suður undir Hvalsnesi. „Pabbi var að vinna í Kaupfélaginu í Sandgerði og það var pöntunarfélag heima hjá mér þegar ég fæddist,“ segir Guðjón sem kynntist verslun frá unga aldri

Guðjón Pétur fæddist 26. ágúst 1943 í Miðhúsum í Sandgerði. Hann ólst fyrst upp í Sandgerði og síðan á Nesjum suður undir Hvalsnesi. „Pabbi var að vinna í Kaupfélaginu í Sandgerði og það var pöntunarfélag heima hjá mér þegar ég fæddist,“ segir Guðjón sem kynntist verslun frá unga aldri. Hann gekk í barnaskólann í Sandgerði, en þrettán ára fór hann í héraðsskólann á Laugarvatni þar sem hann var í þrjá vetur. Þá var fjölskyldan flutt það langt frá Sandgerði að það var eiginlega einfaldara að fara í heimavistarskóla. „Það var harður skóli í sjálfu sér, en sennilega hollur þegar upp er staðið. Mér líkaði alltaf vel á Laugarvatni,“ segir Guðjón.

Þegar hann var fjórtán ára fór hann að vinna sumarvinnu í Kaupfélaginu í Keflavík við afgreiðslustörf og almenn búðarstörf. Hann kunni strax vel við sig í því umhverfi og fór 18 ára í Samvinnuskólann á Bifröst í tvö ár, en vann alltaf á sumrin í kaupfélaginu. „Þar voru nemendur alls staðar að af landinu og fjölmargir sem höfðu einhverjar tengingar við verslun og kaupfélögin, en á þessum tíma voru kaupfélögin aðalverslanirnar úti á landi.“

Guðjón stefndi alltaf að því að starfa á heimaslóðum eftir námið, hann hafði kynnst fallegri stúlku frá Keflavík, Ástu Ragnheiði, sumarið áður en hann hóf námið, þau fóru að búa saman þegar námi hans í Samvinnuskólanum lauk og giftu sig árið 1966.

50 ár í kaupfélaginu

Guðjón stóð sig vel í verslunarstörfunum og aðeins sextán ára var hann settur verslunarstjóri í Njarðvík yfir sumarið og þá var hann í Keflavík, því of langt var að sækja vinnuna frá Hvalsnesi. „Þetta var góður skóli og þarna fékk ég þessa bakteríu fyrir verslunarstörfunum og hef gengið með hana síðan.“ Hann vann í Kaupfélagi Suðurnesja og dótturfélaginu Samkaupum hf. alla starfsævina, eða hálfa öld.

Mikið vatn rann til sjávar á þessum tíma og Guðjón segir tölvuvæðinguna líklega mestu breytinguna. „Þegar ég er að byrja upp úr 1950 þá eru ekki einu sinni mjög merkilegar reiknivélar. Þær voru handsnúnar og svo reiknuðu menn á blaði. En í grunninn eru þó sömu gildi sem gilda í allri verslun og þar eru þjónusta og lipurð mikilvægasti þátturinn. Framkoman skiptir miklu máli og eins að þekkja viðskiptavinina.“ Á ferlinum varð hann verslunarstjóri, skrifstofustjóri, fjármálastjóri, aðstoðarkaupfélagsstjóri og árið 1988, þegar hann var 44 ára gamall, var hann ráðinn kaupfélagsstjóri. Árið 1998 varð hann svo framkvæmdastjóri dótturfélags kaupfélagsins, Samkaupa hf. Hann sýndi leiðtogahæfileika sína í verki á erfiðleikatíma þegar tvær verslanir Kaupfélagsins brunnu og hann samdi við Atvinnuleysistryggingasjóð um aðstoð svo hægt væri að halda fólki í vinnu og byggja upp reksturinn að nýju. „Þetta var bæði skemmtilegt, krefjandi og spennandi starf.“

Í bæjarstjórn í mörg ár

Guðjón segir að hann hafi framan af verið talsvert tengdur íþróttum án þess þó að láta það yfirtaka almennt félagslíf. Hann og eiginkona hans hafi lengi leikið golf sér til ánægju og útiveru og nánast allir þeirra afkomendur hafi fengið golfbakteríuna. Þau hjónin hafa einnig haft mjög gaman af að ferðast og í seinni tíð hafa þær ferðir að mestu snúist um golf.

„Ég var talsvert í félagsmálum og sat í bæjarstjórn fyrir Framsóknarflokkinn í hátt í tuttugu ár. Það var dýrmætur skóli og gaman að sinna verkefnum fyrir sitt bæjarfélag.“ Hann talar um hvað hann hafi verið heppinn með samstarfsfólk hvar sem hann hafi verið og segist alla tíð hafa lagt áherslu á að fólk ynni vel saman. „Við gerum hlutina ekki ein, heldur saman.“

Fjölskylda

Eiginkona Guðjóns er Ásta Ragnheiður Margeirsdóttir (Rabbý) verslunarkona , f. 31.7. 1945, og þau búa í Keflavík í Reykjanesbæ. Foreldrar Ástu Ragnheiðar voru Ásta Ragnheiður Guðmundsdóttir, f. á Höfða á Völlum 22.2. 1917, d. 20.10. 1999, og Margeir Jónsson, útgerðarmaður frá Stapakoti í Innri-Njarðvík, f. 23.11. 1916, d. 18.7. 2004.

Börn Guðjóns og Ástu Ragnheiðar eru: 1) Jónína flugfreyja Reykjanesbæ, f. 27.1. 1962, maki Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og þau eiga börnin Guðjón, f. 7.3. 1983; Sonju, f. 28.10. 1985, og Lovísu, f. 7.8. 1991. 2) Helga Valdís atvinnuráðgjafi Snæfellsbæ, f. 5.2. 1969, maki Kristinn Jónasson bæjarstjóri og þau eiga börnin Thelmu, f. 27.1. 1996, og Kristin Jökul, f. 7.8. 2002. 3) Stefán Ragnar viðskiptafræðingur Reykjanesbæ, f. 25.5. 1977, maki Ásdís Ragna Einarsdótti, grasalæknir og þau eiga börnin Guðjón Pétur, f. 1.5. 2003, og Egil Örn, f. 4.4. 2007, dóttir Ásdísar er Kamilla Birta, f. 23.10. 1999. Barnabarnabörnin eru orðin sex.

Bræður Guðjóns voru Sigurbjörn Stefánsson, bóndi í Nesjum í Miðneshreppi, f. 12.3. 1932, d. 9.3. 2006, og Magnús Vilberg Stefánsson matreiðslumaður, f. 31.1.1933, d. 12.11. 2005.

Foreldrar Guðjóns voru Jónína Sigurveig Eggertsdóttir húsmóðir, f. 12.9. 1909, d. 13.6. 1965, og Stefán Friðbjörnsson, bóndi og verslunarmaður, f. 12.7. 1907, d. 25.5.1988. Þau bjuggu fyrst í Sandgerði og síðan í Nesjum í Miðneshreppi.