Heyrnarmæling Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands er einn þeirra sem heimsótt hafa Heyrnar- og talmeinastöð Íslands á síðustu árum.
Heyrnarmæling Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands er einn þeirra sem heimsótt hafa Heyrnar- og talmeinastöð Íslands á síðustu árum. — Ljósmynd/Forseti.is
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heilbrigðisyfirvöld virðast skella skollaeyrum við þeim vanda sem Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) stendur frammi fyrir, að mati Kristjáns Sverrissonar forstjóra stöðvarinnar. Fyrr á árinu þurfti að takmarka þjónustu talmeinasviðs HTÍ vegna viðvarandi manneklu

Baksvið

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Heilbrigðisyfirvöld virðast skella skollaeyrum við þeim vanda sem Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) stendur frammi fyrir, að mati Kristjáns Sverrissonar forstjóra stöðvarinnar.

Fyrr á árinu þurfti að takmarka þjónustu talmeinasviðs HTÍ vegna viðvarandi manneklu. Þannig þurfti að hætta málþroskaathugunum á börnum sem vísað var frá heilsugæslum eftir 18 mánaða skoðun og hægja á innköllun heyrnarskertra barna og barna með skarð í gómi eða vör.

Kristján segir aðspurður að tekist hafi að fylla í stöður sérfræðinga sem talmeinafræðinga vantaði í. Enn sé þó þörf á að fjölga stöðugildum talmeinasviðs svo að stofnunin geti sinnt þjálfun talmeinafræðinema sem þurfa að fá verklega þjálfun til starfsréttinda.

„Hins vegar er staða heyrnarsviðs okkar, sem þjónar þúsundum heyrnarskertra um land allt, orðin svo erfið vegna manneklu og sífellt skertra fjárframlaga, að það stefnir í að þurfi að loka á nær allt nema ítrustu bráðaþjónustu,“ segir forstjórinn. Þegar hafi móttöku verið hætt á Vestfjörðum og dregið úr þjónustu á Norðurlandi. Þá hafi ekki verið hægt að manna þjónustu ferðastöðvar sem áður heimsótti önnur landsvæði reglulega. Fyrir vikið þurfi heyrnarskertir á nær öllum stöðum nema Akureyri og Sauðárkróki að sækja þjónustu HTÍ til höfuðstöðva í Reykjavík.

Skortur á sérfræðingum hér

Kristján segir í samtali við Morgunblaðið að mikill skortur sé á menntuðum heyrnarfræðingum og yfirvöld hafi enn sem komið er lítið gert til að koma námi í heyrnarfræði í gang hér á landi þó að lausnir séu í boði. Ekkert fjármagn fáist.

„Nú er einn Íslendingur við nám í heyrnarfræði í Svíþjóð en fjölga þarf heyrnarfræðingum á landinu um 30-40 á næstu 5-10 árum til að tryggja lágmarksþjónustu í takt við önnur Evrópulönd. Af 14 einstaklingum sem skráðir eru með starfsleyfi heyrnarfræðinga eru aðeins níu við störf á landinu sem stendur. Þar af eru þrír erlendir gisti-verkamenn í tímabundnu starfi. Á landinu þyrftu að vera um 50 slíkir ef mönnun ætti að vera í takti við önnur norræn lönd.“

Vandamál fyrir eldri borgara

Vegna stöðunnar hefur HTÍ þurft að reiða sig á erlenda heyrnarfræðinga sem stofnunin hefur ráðið til 6-12 mánaða í senn. „Slíkt er fullkomlega óviðunandi lausn þar sem erlendir starfsmenn þurfa að geta talað við og skilið heyrnarskerta viðskiptavini. Tveir til þrír erlendir heyrnarfræðingar hafa verið við störf hverju sinni síðustu átta árin. Vegna skorts á heyrnarfræðingum í mörgum löndum reynist sífellt erfiðara að ráða erlenda sérfræðinga til starfa hér á landi. Því er nauðsynlegt að boðið verði upp á nám í meðferð heyrnarskertra nú þegar.“

Kristján segir að yfirvöld virðist telja að einkamarkaður hljóti að leysa úr eftirspurn en vandinn sé að sárafá einkafyrirtæki séu til staðar og þau geti ekki ráðið til sín sérfræðinga án þess að það bitni á þeirri þjónustu sem fyrir er. „Þannig voru tveir starfsmenn keyptir frá HTÍ nýlega sem minnkaði enn afköst stofnunar sem er með skelfilega langa biðlista viðskiptavina. Stofnunin getur aðeins sinnt mjög illa heyrandi fólki, börnum og ígræðsluþegum, en fólk með vægari heyrnarskerðingu þarf oft að leita annað ef þess er kostur.“

Forstjórinn getur þess að lokum að Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hafi verið stofnuð fyrir tæpum 50 árum þegar íbúar landsins voru um 220 þúsund talsins og hefur alla tíð verið í sama húsnæðinu. Það sé fyrir löngu sprungið og úrelt. Stöðugildum hafi ekki fjölgað síðustu 20 árin á meðan að íbúum landsins hafi fjölgað hratt. Auk þess sé þjóðin að eldast, sprenging sé að verða í fjölda eldri íbúa þar sem heyrnarskerðing er verulega stórt vandamál. „Heyrnarskerðing er mikil en afar vanmetin fötlun. Afleiddur kostnaður þjóðarbúsins vegna ógreindrar og ómeðhöndlaðrar heyrnarskerðingar er mjög hár.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon