Við viljum samfélag sem er sanngjarnt og réttlátt og grundvallast á mannréttindum og réttarríkinu.

Úr ólíkum áttum

Úr ólíkum áttum

Þórdís Kolbrún R.

Gylfadóttir

thordiskolbrun@althingi.is

Um helgina fer fram flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Á þeim vettvangi kemur saman fjöldi fólks sem gegnir trúnaðarstörfum í Sjálfstæðisflokknum eða starfar undir merkjum flokksins víða um land. Slíkir fundir í Sjálfstæðisflokknum eru ætíð góð áminning um hversu fjölbreyttur og hæfileikaríkur hópur fólks sem hefur ákveðið að sinna stjórnmálum, hefur kosið Sjálfstæðisflokkinn sem sinn vettvang.

Sem nærri má geta er ágreiningur og meiningarmunur um ýmis áherslumál, en miklu fleira er þó það sem sameinar okkur sem kjósa að fylkjast undir sama merki í stjórnmálum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá sérstöðu í íslenskum stjórnmálum að eiga sér samfellda og heildstæða sögu í næstum heila öld. Á þessum langa tíma hefur hann gegnt gríðarlega mikilvægu kjölfestuhlutverki í íslensku þjóðlífi. Þessi eiginleiki Sjálfstæðisflokksins, að vera áreiðanlegt og ábyrgt stjórnmálaafl, getur verið krefjandi þegar okkur finnst þróun mála ekki ganga nógu hratt í þá átt sem við myndum kjósa. Í löngu stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins í óvenjulegu stjórnarmynstri hefur vissulega reynt á þolinmæði margra sem vilja sjá fleiri stefnumál og áherslur flokksins ná fram að ganga, og hið sama á vitaskuld við um stuðningsfólk hinna ríkisstjórnarflokkanna. Það er hins vegar gott að minna sig á að togstreita af þessu tagi er eðlilegur hluti af lýðræðislegu stjórnarfari.

Í þessa næstum heilu öld sem saga Sjálfstæðisflokksins spannar tel ég að það hafi verið gæfa bæði flokksins og þjóðarinnar að til hans var stofnað á grundvelli skynsamlegrar og yfirvegaðrar hugsunar. Að flokknum stóð framfarasinnað fólk sem var ekki bara með stórar hugmyndir heldur athafnaþrek og þolinmæði til þess að láta þær verða að veruleika.

Það segir sína góðu sögu að allt frá því að félagsskapur ungra Sjálfstæðismanna var stofnaður árið 1930 og fram á daginn í dag hefur ekki þurft að hagga hinum upprunalega tilgangi félagsskaparins nema að því leyti að fyrir 1944 var það markmið í lögum sambandsins að vinna að því að koma öllum málum Íslands í eigin hendur. Eftir að það markmið náðist varð varðveisla lýðveldis, sjálfstæðis og fullveldis hluti af lögbundinni stefnu, ásamt hagnýtingu gæða landsins í þágu íslenskra þegna. Íslandi hefur tekist að standa vörð um þessi markmið, verða fullgildur þátttakandi í samstarfi þjóða, ásamt því að tryggja íslensku atvinnulífi aðgengi að alþjóðlegum mörkuðum og binda svo um hnúta, með aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin, að staða öryggis- og varnarmála er í eins traustum farvegi og hugsast getur. Mig grunar að enn sé nánast algjör samstaða meðal Sjálfstæðisfólks um að við getum verið stolt af þessum árangri Íslands og þætti okkar flokks í honum.

Hitt áhersluatriðið var ekki síður framsýnt, og stenst tímans tönn með sóma. Það var að „efla í landinu þjóðlega, víðsýna og frjálslynda framfarastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis, atvinnufrelsis og séreignar, með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“ Eflaust væri þessi texti ekki skrifaður með nákvæmlega sama hætti nú eins og þá, en mér er til efs að uppfærð útgáfa yrði betri en sú upprunalega.

Í þessum orðum felst nefnilega ekki róttækni eða blind trú á þessa eða hina tískukenninguna í hagfræði eða stjórnmálaheimspeki. Í þessum orðum – þjóðlegt, víðsýnt, frjálslynt – felst sú lífsafstaða sem ég trúi því að sameini þann fjölbreytta hóp sem kallar sig Sjálfstæðisfólk. Einstaklingsfrelsi, atvinnufrelsi og séreign – eru svo þær birtingarmyndir þessarar grundvallarstefnu sem við trúum því að vísi veginn um hvers konar skipulag við viljum hafa í samfélaginu. Og þá er ótalin mikilvægasta forsendan af þeim öllum, en hún er sú að starf Sjálfstæðisflokksins, stefna og hugmyndafræði hefur það markmið að efla hag samfélagsins alls; „allra stétta“ eins og það var orðað.

Við viljum samfélag sem er sanngjarnt og réttlátt og grundvallast á mannréttindum og réttarríkinu. Við trúum því að á Íslandi eigi fólk að geta látið stóra drauma rætast, að frelsi til athafna sé grundvallarstoð í samfélaginu. Við viljum ekki að stjórnvöld og regluverk þvælist að óþörfu fyrir athafnaglöðu fólki og öflugum fyrirtækjum. Og það er mikilvægur hluti af því að búa í réttarríki að atvinnustarfsemi sem fer fram á forsendum einkaframtaks og er í samræmi við lög, geti treyst því að hið opinbera fylgi einnig lögum og reglum. Við trúum því að Ísland eigi að stefna að því að vera ekki bara eitt samkeppnishæfasta land heims heldur að við stöndum engum á sporði þegar kemur að umhverfi viðskipta- og atvinnulífs. Við trúum því að í opinberri þjónustu beri að nýta kosti samkeppni og mælingar á árangri; þar þarf að gilda nýsköpunarhugsun. Orka og fjármagn eiga að fara í það sem skiptir raunverulega máli, en ekki í hringavitleysu og úrelta skriffinnsku.

Sú skyldurækni í garð samfélagsins og þjóðarinnar sem hefur einnig einkennt Sjálfstæðisflokkinn trúi ég líka að sé sameiginlegur þráður í stjórnmálaþátttöku allra þeirra sem starfa undir merkjum flokksins til þess að láta gott af sér leiða fyrir Ísland. Og þegar allt kemur til alls þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn það hlutverk að standa af sér þá storma sem aðrir flokkar svigna undan og brotna. Þetta trúi ég að sameini okkur, allt þetta ólíka fólk, í Sjálfstæðisflokknum. Við finnum það best, Sjálfstæðisfólk, að það er í því sem sameinar okkur þar sem er að finna kjarna þess að Sjálfstæðisflokkurinn á sér ekki bara glæsta sögu og fortíð. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur framtíðarinnar.