Lára V. Júlíusdóttir
Lára V. Júlíusdóttir
Fyrir íbúa heilsárshúsa í GOGG eru það mannréttindi að skrá lögheimili sitt þar. Það stenst ekki að kalla fólk sem býr í eigin húsi lögbrjóta.

Lára V. Júlíusdóttir

Í fasteignaauglýsingum birtast oft myndir af glæsihúsum í ævintýralegu landslagi í nálægum sveitum við höfuðborgina undir yfirskriftinni heilsárshús. Mynd eftir mynd af flottum húsum með stórum sólpalli og heitum potti í miðjum skógi. Freistandi er að láta sig dreyma um flutning úr þéttbýlinu, selja íbúðina og flytja í heilsárshúsið í sveitinni.

En áður en lengra er haldið þarf að gæta að ýmsu. Sérstaklega hvernig sveitarfélagið tekur á móti þér. Þú mátt ekki eiga lögheimili í heilsárshúsinu þínu ef það er á skipulögðu frístundahúsasvæði. Hér á eftir er lítil frásögn af slíku.

Árið 2022 var fjöldi frístundahúsa á öllu landinu tæplega 15.000. Í Grímsnes- og Grafningshreppi eru húsin 3.266 og er sveitarfélagið langstærsta frístundabyggð landsins, rúmlega 1/5 allra frístundahúsa. Meðalstærð frístundahúsa á Íslandi hefur aukist á sl. 20 árum úr því að vera tæpir 60 fm fyrir 20 árum í að vera tæpir 100 fm í dag. Mörg stórhýsi hafa risið á undanförnum árum í frístundabyggðinni í GOGG. Við byggingu slíkra húsa er farið eftir kröfum gildandi byggingarreglugerða um íbúðarhúsnæði. Lóðir undir sumarhúsin eru milli 0,5 og 1 ha, ýmist eignarlóðir eða leigulóðir.

Aðalskipulag sveitarfélagsins gerir ráð fyrir frístundabyggð á tilteknum svæðum og almennri byggð annars staðar. Sveitarstjórnin hefur markað þá stefnu að byggð á skipulögðum svæðum fyrir frístundahús skuli vera óbreytt. Þéttleiki lóða og stærð falli illa að skilgreiningu landbúnaðarlands (L3) eða smábýla þar sem landspildur séu að jafnaði 1-10 ha. og býður ekki upp á að mögulegt sé að breyta frístundalóðum í íbúðalóðir. Þér er með öðrum orðum óheimilt að skrá lögheimili á heilsárshúsið. Það ógnar landbúnaði.

Fjöldi fólks í frístundabyggðinni býr stóran hluta ársins í sveitarfélaginu og nokkur hópur býr ekki annars staðar. Á sama tíma kveða lögheimilislög á um að ekki sé hægt að meina manni búsetu í sveitarfélagi og hann eigi rétt til skráningar í sveitarfélaginu óstaðsettur í hús. Það hugtak er kunnuglegt um útigangsfólk á höfuðborgarsvæðinu; stimpill sem flestir forðast.

Útsvarsprósenta í GOGG er sú lægsta á landinu, 12,44%. Til samanburðar er hún 14,74% í Reykjavík. Einn annar hreppur á landinu með yfir 100 íbúa hefur útsvarið svo lágt, Fljótsdalshreppur.

Aðaltekjur GOGG eru fasteignagjöld, tæplega 70% af ráðstöfunartekjum. Um þriðjungur þeirra tengist virkjunum í Soginu. Álagðir fasteignaskattar vegna íbúðarhúsnæðis og frístundahúsa eru 432 milljónir. Ekki er ljóst hver skiptingin er á milli fasteignagjalda af íbúðarhúsnæði og frístundahúsum. Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði og frístundahús í GOGG er 0,47% af fasteignamati en í Reykjavík er hann 0,18%.

Íbúar í Grímsnes- og Grafningshreppi voru um sl. áramót 535. Þar af voru 86 20 ára og yngri og 105 67 ára og eldri. Fólk af erlendu bergi brotið var 95. Í byggðinni við Sólheima eru um 90 manns. Hefðbundinn búskapur er að mestu aflagður, þótt í hreppnum séu rúmlega 90 lögbýli. Einhver fjárbúskapur er á 16 bæjum, hross á 14, kýr á þremur, nautgripir á tveimur, svín á tveimur, fiskeldi, loðdýrabú og kolsýruframleiðsla eru hvert um sig á einum bæ. Garðyrkjustöðvar eru skráðar á þremur bæjum.

Skráningu lögheimilis í sveitarfélag fylgir kjörgengi og kosningaréttur auk þess sem útsvar er greitt þangað. Þótt svo sé njóta ótilgreindir í hús ekki póstþjónustu, þeir greiða hærri tryggingar og þeir eiga erfiðara með að fá fyrirgreiðslu í bönkum fyrir þá sök að þeir eru ótilgreindir í hús. Þar að auki geta þeir ekki reitt sig á almenna þjónustu frá sveitarfélaginu, svo sem snjómokstur og vegalagningar, hvað þá heimaþjónustu. Þannig skilar sáralítið sér til til baka til gjaldenda af því sem greitt er til sveitarfélagsins.

Í nóvember sl. skipaði innviðaráðherra starfshóp til að greina gróflega hvar einstaklingar sem skráðir eru ótilgreint í hús eru búsettir og hvort verið sé að misnota 2. mgr. 4. gr. laga um lögheimili til að auðvelda einstaklingum ólöglega búsetu, t.d. í frístundabyggð. Formaður hópsins er núverandi sveitarstjóri í GOGG. Í lok júní sl. hafði hópurinn fundað einu sinni.

Fyrir þá sem búa í heilsárshúsi í Grímsnes- og Grafningshreppi eru það mannréttindi að skrá lögheimili sitt í hús sín þar. Það stenst heldur ekki að kalla fólk sem kýs að búa í eigin húsi lögbrjóta. Í stjórnarskránni segir að allir, sem dveljast löglega í landinu, skuli ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

Skipulag sveitarfélagsins er ekki meitlað í stein og stjórn þess ber að koma til móts við kröfur íbúa um breytingar á aðalskipulagi, enda stöðugt verið að breyta skipulaginu vegna mikilla framkvæmda. Þróun byggðar í landinu hlýtur að markast af kröfum íbúanna sjálfra, þörfum þeirra og væntingum. Hér eins og svo oft áður er vilji allt sem þarf.

Búsetufrelsi, félag íbúa með fasta búsetu í GOGG, hefur vakið athygli á þessum málum á opinberum vettvangi. Heimasíða félagsins er Búsetufrelsi.

(Stuðst við heimasíður GOGG og SÍS, auk Grænbókar um skipulagsmál.)

Höfundur er lögmaður.

Höf.: Lára V. Júlíusdóttir