Þórólfur Matthíasson
Þórólfur Matthíasson
Sjávarútvegstengd útgjöld ríkissjóðs eru ríflega 1,5 milljörðum hærri en veiðigjöld sem útgerðin greiðir.

Þórólfur Matthíasson

Veiðigjöldum var komið á með lögum númer 85/2002. Upphaflega var hugmyndin sú að gjaldið væri tvíþætt: Annars vegar fastur hluti sem svaraði til kostnaðar ríkisins vegna sjávarútvegsins og hins vegar breytilegur hluti sem réðist af afkomu útgerðar og mætti líta á sem greiðslu fyrir aðgang að auðlindinni. Niðurstaðan varð sú að leggja aðeins eitt gjald, en tekið fram að það gæti þjónað báðum hlutverkum. Á alþjóðavettvangi hefur verið lögð áhersla á að útrýma óbeinum niðurgreiðslum í formi ríkisstyrktrar stoðþjónustu við atvinnugreinar. Á þetta við um sjávarútveginn jafnt og margar aðrar atvinnugreinar. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) lét vinna leiðbeiningar um hvað teldust ríkisstyrkir í sjávarútvegi árið 2004. Ottó Biering beitti þeim leiðbeiningum til að meta umfang niðurgreiðslna í íslenskum sjávarútvegi í meistararitgerð sinni við Háskóla Íslands árið 2004. Síðan þá hafa ýmsar breytingar verið gerðar á styrkjaumhverfi íslensks sjávarútvegs. En með leiðbeiningar FAO og með hliðsjón af ritgerð Ottós er hægt að skjóta á sjávarútvegstengd útgjöld ríkisins. Helstu útgjaldapóstar eru Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa, landhelgishluti Landhelgisgæslunnar, vaktstöð siglinga, siglingadeild Samgöngustofu, Verðlagsstofa sjávarútvegsins, skrifstofa sjávarútvegs hjá matvælaráðuneyti, hafnabótasjóður, framkvæmdir við vita og hafnir og menntun sjómanna. Sumar þessara stofnana sinna fleiru en sjávarútvegi. Þegar búið er að taka tillit til þess losa sjávarútvegstengd útgjöld ríkissjóðs 10 milljarða króna skv. fjárlögum samþykktum fyrir árið 2023. Til samanburðar eru veiðigjöld vegna veiðiheimilda áætluð 8,6 milljarðar króna í fjárlögum ársins 2023. Lauslega og varlega áætlað vantar því 1,5 milljarða króna upp á að sjávarútvegurinn endurgreiði ríkinu útlagðan kostnað.

Fréttakona hjá RÚV spurði mig um hvalrekaskatt hinn 8. ágúst sl. Samtali okkar lauk með því að ég benti á að ókeypis aðgangur að fiskimiðum væri ígildi viðvarandi hvalreka fyrir þá sem þess njóta. Höfundur Staksteina, sem er nafnlaus ólundarþáttur á vegum ritstjórnar Morgunblaðsins, fullyrti í pistli 11. ágúst sl. að víst borgaði útgerðin fyrir aðgang að fiskimiðunum og ég færi með „fals“. Þar skjöplaðist hinum nafnlausa. Eins og ég hef rakið hér að ofan þyrftu veiðigjöldin að vera 1,5 milljörðum króna hærri í ár en raun er áður en hægt er að tala um greiðslu fyrir afnot af sjávarauðlindinni.

Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

Höf.: Þórólfur Matthíasson