Að segja hagsmuni ríkisins vega þyngra en hag borgaranna sýnir hve rík tilhneiging er víða til að líta aðeins til ríkisins þegar rætt er um fullveldið.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Gagnrýnin viðbrögð voru mikil í byrjun vikunnar þegar sagt var frá því að Matvælastofnun (MAST) hefði hækkað eftirlitsgjöld vegna heimaslátrunar sauðfjár og slátrunar í svonefndum handverkssláturhúsum. Sé slátrað á þennan hátt opnar það leiðir til að selja afurðirnar milliliðalaust. Verði þessum leiðum lokað er það öfugþróun og þvert á stefnu sem Kristján Þór Júlíusson, þáv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mótaði í maí 2021 þegar hann rýmkaði heimildir til heimaslátrunar.

Hvort matvælaráðuneytið heimilar hækkunina kemur í ljós. Umræðurnar einar sköpuðu óvissu um framtíðina og ollu reiði vegna íþyngjandi opinberra ákvarðana. Annars vegar leggja stjórnvöld áherslu á byggðafestu en hins vegar er vegið að frelsi bænda til að vinna afurðir sínar í beinum tengslum við neytendur og auka þannig tekjur sínar.

Hver sem niðurstaðan verður varð fréttin til þess að Félag sjálfstæðismanna um fullveldismál sagði á Facebook að stefna ESB væri „að leggja niður landbúnað á jaðarsvæðum og að innleiða miðstýrðan landbúnaðarkommúnisma“.

Gjaldskrárhækkun MAST var ekki ákveðin af ESB heldur er hún heimatilbúin og drepi hún heimaslátrun eða höggvi á bein tengsl bænda og neytenda, er hún í andstöðu við afstöðu til heimaslátrunar og fullvinnslu bænda, sem er hluti evrópskrar menningar. Einstakar þjóðir standa vörð um þennan þátt hennar, hver með sínum hætti.

Hvarvetna er litið á landbúnað sem mikilvægan hlekk í samfélagsgerðinni. Hann er menningar- og metnaðarmál fleiri þjóða en Íslendinga. Þegar ESB var stofnað lögðu Frakkar áherslu á landbúnaðinn en Þjóðverjar á framleiðslu á Volkswagen.

Að mati sjálfstæðismanna um fullveldi er óvinsælt mál eins og þessi tillaga MAST kjörið árásarefni á ESB, hvað sem sannleikanum líður. Af sama toga eru rangar fullyrðingar þeirra um að bókun 35 við EES-samninginn brjóti í bága við stjórnarskrána.

Bókun 35 hefur rúmast innan íslensku stjórnarskrárinnar síðan EES-samningurinn var lögfestur fyrir rúmum 30 árum. Þá lá fyrir sérfræðilegt mat um að lögin um samninginn brytu ekki í bága við stjórnarskrána.

Síðan liggja fyrir tæplega 20 lögfræðiálit um hvort framkvæmd samningsins í einstökum málum falli innan stjórnarskrárinnar. Öllum steinum hefur verið velt og niðurstaðan hlotið stuðning meirihluta þingmanna. Með hverju ári sem líður og hverju áliti sem gefið er, hníga sterkari rök að því að EES-aðildin hafi áunnið sér stjórnlagasess eins og aðrar óskráðar stjórnlagareglur.

Í þessu samhengi má rifja upp að meirihluti utanríkismálanefndar alþingis, skipaður þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sagði í áliti sínu til stuðnings EES-lagafrumvarpinu fyrir rúmum 30 árum að með EES-samningnum væri lagður grunnur að nýjum leikreglum í samskiptum þátttökuríkjanna á þeim sviðum sem samningurinn spannaði. Einnig væri komið á fót eftirlits- og dómstólakerfi til að fylgjast með því að allir þátttakendur í samstarfinu færu eftir þessum leikreglum. Með þessum hætti skapaðist nýtt réttarsvið. Aðild að þessu samstarfi gæti ekki falið í sér neitt afsal á íslensku ríkisvaldi af því að ákvörðunarvaldið sem stofnunum EFTA eða ESB væri veitt með EES-samningnum tilheyrði ekki íslenska ríkisvaldinu.

Þessi orð um nýju leikreglurnar standa óhögguð eins og þeim var beitt sem einni af röksemdunum fyrir aðild að EES. Bókun 35 er hluti af leikreglunum sem urðu til með gildistöku EES-samningsins 1. janúar 1994.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, gerði nokkrum árum síðar athugasemd við framkvæmd leikreglnanna hér, þeir sem væru innan íslenskrar lögsögu nytu þeirra ekki til fulls.

Til að rýmka réttindi borgaranna hefur utanríkisráðherra flutt frumvarp sem á að tryggja sanngjarna framkvæmd á bókun 35. Að leggjast gegn frumvarpinu í nafni fullveldis ríkisins er í raun aðför að fullveldi borgaranna. Að segja hagsmuni ríkisins vega þyngra en hag borgaranna sýnir hve rík tilhneiging er víða til að líta aðeins til ríkisins þegar rætt er um fullveldið. Að segja forgang ríkisins í anda sjálfstæðisstefnunnar um einstaklingsfrelsið stenst ekki.

Flokksráð sjálfstæðismanna kemur saman í dag. Í aðdraganda fundarins hafa sjálfskipaðir fullveldissinnar látið eins og það skipti sköpum fyrir framtíð flokksins og með vísan til uppruna hans og sögu, að bregða fæti fyrir frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35.

Þeir sem þekkja og hafa tekið þátt í að móta stefnu Sjálfstæðisflokksins frá því að ríkishöft voru talin bjarga afkomu þjóðarbúsins vita að frjáls verslun og einkaframtak hafa ávallt setið í fyrirrúmi í stefnu flokksins. Hann afnam höftin með viðreisnarstjórninni um 1960, stóð að aðild að EFTA árið 1970 og veitti þann þingstuðning sem þurfti til aðildar að EES eftir kosningar 1991.

Hvert þessara stórskrefa hefur bætt þjóðarhag og aldrei hefur hagsældin verði meiri en á líðandi stundu. Vandi íslensks samfélags á ekki rætur í frjálsri verslun og opnum samskiptum við aðrar þjóðir. Hann snýr að varðstöðu um ýmsar grunnstoðir samfélagsins. Þær verður að laga að breyttum aðstæðum, ekki með því að horfa til baka heldur fram á veg og glíma óttalaust við þau verkefni sem við blasa.

Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur er ein grunnstoða samfélagsins. Hann verður ekki efldur til nýrrar sóknar með því að naga rætur hans með aðferðum sem minna á fjölþátta hernað. Flokkinn á þvert á móti að opna fyrir framtíðarbirtu.