Furðuverur Hringleikur býður upp á sirkussýningu og þátttökusmiðju.
Furðuverur Hringleikur býður upp á sirkussýningu og þátttökusmiðju. — Ljósmynd/Sunna Ben
MEGAWHAT!? nefnist sýning sem sirkushópurinn Hringleikur frumsýnir í Elliðaárstöð, gamalli rafstöð Reykvíkinga, í dag kl. 14. Hópinn skipa Jóakim Kvaran, Bryndís Torfadóttir, Thomas Burke, Bjarni Árnason, Axel Diego og Eyrún Ævarsdóttir

MEGAWHAT!? nefnist sýning sem sirkushópurinn Hringleikur frumsýnir í Elliðaárstöð, gamalli rafstöð Reykvíkinga, í dag kl. 14. Hópinn skipa Jóakim Kvaran, Bryndís Torfadóttir, Thomas Burke, Bjarni Árnason, Axel Diego og Eyrún Ævarsdóttir. Leikstjóri er Hallveig Kristín Eiríksdóttir, um tónlist sér Linus Orri Gunnarsson Cederborg og búningar og sviðsmynd eru í höndum Bryndísar Óskar Þ. Ingvarsdóttur.

Í kynningartexta er sýningunni lýst sem tilraunakenndri sirkussýningu og smiðju fyrir alla fjölskylduna „þar sem öfl náttúrunnar birtast gestum Elliðaárstöðvar í furðulegum heimi sirkuss og vísinda“.

Sýningin fer fram bæði innan- og utandyra, ferðast er um fjölbreytt undirlag og áhorfendur eru hvattir til að búa sig eftir veðri og aðstæðum. Allar nánari upplýsingar og miðasala er á vefnum ellidaarstod.is, en áhorfendur velja sjálfir hversu mikið þeir greiða fyrir miðann á bilinu 2.000-6.000 kr. Sex sýningar eru fyrirhugaðar fram til 10. september.