Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Prófanir á útveggjaeiningum meðferðarkjarna Nýja Landspítalans eru greiddar af verktakanum og eru hluti af samningi við spítalann. Þetta kemur fram í svari Nýja Landspítalans við fyrirspurn Morgunblaðsins. Eins og kom fram í blaðinu í gær hafa að undanförnu farið fram víðtækar prófanir á útveggjaeiningum, bæði gagnvart jarðskjálftum og gagnvart vatni og vindum. Fóru prófanir fram hjá óháðri prófunarstöð í Bretlandi.
Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH ohf. segir að Nýr Landspítali ohf. hafi í september 2022 gert samning við litáíska útveggjaverktakann Staticus um hönnun, framleiðslu, prófanir, flutning og uppsetningu á útveggjum á nýjan meðferðarkjarna. Samningurinn kom í kjölfar 15 mánaða samkeppnisútboðsferlis sem er það lengsta sem Nýr Landspítali hefur staðið að.
Um er að ræða fullnaðarhönnun, framleiðslu, flutning og uppsetningu útveggja. Samningurinn hljóðar upp á 47 milljónir evra þar sem uppsetningartíminn er áætlaður um 14 mánuðir og hefst síðar á árinu.
„Þar sem samningsverð byggist á kröfum Nýs Landspítala til verksins þá er það ekki sundurliðað heldur er greitt eftir framvindu. Prófanir eru þannig alfarið greiddar af Staticus og þeim lýkur ekki fyrr en hin faggilta skoðunarstofa hefur gefið út yfirlýsingar um gæði framleiðslunnar,“ segir í svari Nýs Landspítala.
Gunnar Svavarsson segir að heildarverkefnið gangi samkvæmt áætlun þó að einstaka verkhlutir hafi hliðrast.
„Þessa dagana er verið að opna þrjú útboð sem hafa verið í auglýsingu. Um er að ræða ílagnir og rykbindingu meðferðarkjarna, vinnulagnir og vinnurafmagn í sama húsi og síðan stórt útboð sem snýr að uppsteypu rannsóknahússins sem er nær 18.000 fermetra hús. Þá verða fljótlega boðin út uppsteypa og utanhússfrágangur á húsi heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, sem er 10.000 fermetrar, en húsið er austan Læknagarðs. Stefnt er að því að jarðvinna við stækkun endurhæfingardeildarinnar á Grensás hefjist í vetrarbyrjun. Þá er NLSH í vinnu með Sjúkrahúsi Akureyrar um hönnun og byggingu á nýju legudeildarhúsi.“