Haraldur Ólafsson er prófessor í veðurfræði.
Haraldur Ólafsson er prófessor í veðurfræði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Auk veðurfræðirita er á náttborðinu hjá mér kver sem heitir Lög og samfélag og er eftir Arnar Þór Jónsson. Skrif Arnars Þórs um samfélagsmál hafa vakið athygli mína og í þeim er mikill sannleikur. Bókin er samsafn greina, svo maður les hana í bútum

Auk veðurfræðirita er á náttborðinu hjá mér kver sem heitir Lög og samfélag og er eftir Arnar Þór Jónsson. Skrif Arnars Þórs um samfélagsmál hafa vakið athygli mína og í þeim er mikill sannleikur. Bókin er samsafn greina, svo maður les hana í bútum. Annað dugir ekki, því sérhver bútur þarfnast meltingar. Sama má segja um bók Jóns Baldvins Hannibalssonar, Tæpitungulaust. Þessir menn bera í sér aðdáunarverðan kraft og menn leggja við hlustir þegar þeir hefja upp raust sína. Arnar Þór og Jón Baldvin eru alvöru. Það er Bryndís Schram líka og það fer vel með körlunum að lesa minningar hennar Brosað gegnum tárin. Bók Bryndísar er lipur og skemmtileg frásögn af atburðum á lífsleiðinni, krydduð heimspekilegum vangaveltum. Það lætur Bryndísi vel að hafa marga bolta á lofti og hún ræður fullkomlega við að vera drottning og alþýðustúlka í senn. Ég held að Bryndís sé og verði eilíf.

Eyjan hans Ingólfs eftir Ásgeir Jónsson bankamann var lesin upp til agna, en er enn í bunkanum. Við lestur hennar áttar maður sig á því að það var ekki sjálfgefið að það tækist að skapa skipulagt samfélag í nýju landi, jafnvel þótt nóg væri að borða. Landnám Íslands og Grænlands eru með merkilegri atburðum miðalda og ég er sjálfur að skrifa um þau mál frá sjónarhóli veðurs. Þá er Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness alltaf ofarlega. Hún fer sífellt batnandi og var þó góð fyrir. Sumar persónur þeirrar sögu hafa hlotið ósanngjarna dóma og er tímabært að huga að æru þeirra. Það á t.d. við um maddömuna á Rauðsmýri, svo ekki sé talað um Bjart sjálfan. Um daginn minntust menn Vilmundar Gylfasonar og ég las þá á ný bókina sem hann skrifaði undir dulnefni og heitir Við í vesturbænum. Eftirminnilegust er myndin af skólablaðinu, það er makalaust hvað börnin voru vel máli farin og íhugul í gamla daga.

Af útlendum bókum eru helstar Der Aufstieg des Hauses Habsburg eftir Gerhard Herm. Stefáni Zweig tókst að vekja áhuga minn á veldi Habsborgara og ég heimsæki Vín árlega í tengslum við vinnu. Vinir mínir og kunningjar í löndum sem einu sinni voru undir keisaranum í Vín tala iðulega fallega um Austurríki og allt sem þaðan kemur. Á borðinu eru líka textar á borð við Familiale eftir skáldið og friðarsinnann Jacques Prévert. Það er ógæfa Evrópu að hann skuli ekki hafa verið í námskrá grunnskólanna.

Á náttborðinu er líka tölva. Í henni geymi ég ljóðin Andrými eftir Hlín Leifsdóttur sem eru góð, lesin af henni sjálfri, tónsett af Morton og gefin út í Aþenu nýlega. Þar kennir ýmissa grasa sem hafa vaxið furðu hljóðlega.