[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Stóra fréttin í dag er að fjármálaráðherra sé búinn að kasta frá sér ábyrgð á efnahagsmálum. Vegna þess að hann fullyrðir að það sé ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að vinna bug á verðbólgunni heldur hlutverk Seðlabankans,“ segir…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Stóra fréttin í dag er að fjármálaráðherra sé búinn að kasta frá sér ábyrgð á efnahagsmálum. Vegna þess að hann fullyrðir að það sé ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að vinna bug á verðbólgunni heldur hlutverk Seðlabankans,“ segir Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar í samtali við mbl.is í gær og segist velta fyrir sér trúverðugleika ríkisstjórnarinnar, þegar leitað var eftir áliti hennar á aðgerðum í ríkisfjármálum sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðaði í dag. Þar voru kynnt áform um niðurskurð og aðhaldsaðgerðir í ríkisrekstri á næsta ári.

„Þetta er ekki það sem almenningur þarf að heyra núna,“ segir hún og bætir því við að aðgerðirnar einar og sér séu góðar og gildar, enda snúast þær um að reka ríkið betur. Hún geti þó ekki séð að það sé stór pólitísk ákvörðun að reyna að reka ríkisstofnanirnar betur. Það sé eilífðarverkefni.

Miður sín yfir skilningsleysi

„Það eru vond skilaboð að fjármálaráðherra og seðlabankastjóri séu farnir að benda hvor á annan og átta sig ekki á alvarleika stöðunnar. Þetta er auðvitað stórmál í þessu samhengi og með ólíkindum að þeir ætli ekki að horfast í augu við eigin ábyrgð hvað þetta varðar,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar.

Þorgerður segir að sér þyki miður að hlusta á svona ummæli og segist miður sín yfir þessu skilningsleysi gagnvart íslenskum heimilum í þessu verðbólguástandi. Hún fagni þó því að loksins sé hlustað á ítrekuð varnarorð Viðreisnar um stjórnlausa útgjaldaaukningu hins opinbera.

Ekki í samræmi við kenningar

„Merkilegust af öllu finnst mér yfirlýsing fjármálaráðherrans um að það sé ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar eða ríkisfjármálanna að vinna bug á verðbólgunni. Að það sé hlutverk Seðlabankans,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins. „Það er ekki í samræmi við neinar reyndar kenningar í hagfræði að ríkisútgjöld hafi ekki áhrif á verðbólgu,“ segir Sigmundur.

Samdráttur í starfsmannahaldi

„Ég heyri að Bjarni hafi boðað samdrátt í starfsmannahaldi ríkisins. Ég veit ekki hvernig hann ætlar að fara að því. Hann var að tala um að hann myndi ekki endurráða í stöður sem losna og einhvers staðar þyrfti að segja einhverjum upp,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

Óljóst hvað verið er að gera

„Það er er rosalega óljóst hvað verið er að gera. Hann nefnir uppsagnir fyrir fimm milljarða án þess að nefna hvar og hvernig það yrði útfært, nema að ekki verði ráðið í stöður sem losna þegar fólk hættir vegna aldurs,“ segir Björn Leví Gunnarsson, varaformaður þingflokks Pírata.

„Það er talað um að þetta sé ráðstöfun til að hægja á vexti útgjalda. Það er rangt,“ segir Björn.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson