Sólveig Thorstensen fæddist 11. ágúst 1934. Hún lést 14. ágúst 2023.

Útför hennar fór fram 25. ágúst 2023.

Í dag kveðjum við elsku mömmu sem lést mánudaginn 14. ágúst eftir stutt veikindi. Þegar ég lít til baka er þakklæti mér efst í huga. Mamma var kletturinn í lífi mínu, það var sama hvað gekk á, hún var ávallt til staðar. Mamma var ákveðin, dugleg og ósérhlífin. Henni var umhugað um allt og alla. Eftir að pabbi lést hélt hún ótrauð áfram í húsinu sínu á Vesturgötunni þar sem hún bjó í rúm 60 ár. Mamma elskaði garðinn sinn og eyddi miklum tíma þar á sumrin enda var hann hennar líf og yndi.

Mamma var afbragðs kokkur og það voru ófáir dýrindis réttir sem hún reiddi fram og hver öðrum betri. Mamma elskaði ættfræði og í minningunni var hún ávallt að grúska í ættfræðibókum og naut þess að rekja ættir langt aftur í tímann. Tveimur dögum fyrir andlátið las Kara mín upp úr Íslendingabók fyrir hana og rakti þar ætt hennar og það var ótrúlegt að sjá hvað færðist mikil ró yfir hana þegar hún las upp fyrir hana um afkomendur og forfeður.

Ég mun ávallt vera henni þakklát fyrir allt sem hún gerði fyrir mig og stelpurnar mínar en það er mikill missir hjá okkur fjölskyldunni að hafa ekki mömmu lengur hjá okkur. En við þökkum fyrir þann góða tíma sem við áttum með henni og þær minningar sem við sköpuðum saman. Við búum að þessum minningum og geymum þær í hjarta okkar um ókomna tíð. Fyrir nokkrum árum kom hún og færði Inga ljóð sem samið var af ömmu hans, Ingibjörgu Sigurðardóttur, sem hún hafði miklar mætur á og mér finnst eiga vel við í dag á þessari kveðjustund. Elsku mamma þín er sárt saknað.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðarsdóttir)

Þín dóttir,

Thelma Hrund Guðjónsdóttir.

Elsku amma, nú er komið að kveðjustund og ert þú farin í sumarlandið til afa Gauja sem mun bókað taka á móti þér með opnum örmum og stóra brosinu sínu.

Amma Dolla eins og hún var alltaf kölluð var stórkostleg manneskja sem ól af sér yfir 70 afkomendur sem alltaf voru velkomnir á ættaróðalið á Vesturgötu 42 þar sem alltaf var opið fyrir okkur og öllum sem komu var sýnd mikil ást, umhyggja og virðing. Hún var mikil fjölskyldumanneskja sem fylgdist vel með öllu sem gerðist innan stórfjölskyldunnar og þrátt fyrir að hún spyrði okkur alltaf hvað væri að frétta þá grunaði okkur að hún hefði allaf vitað það fyrir. Hún var mikil áhugamanneskja um ættfræði og í hvert einasta sinn sem við sögðum henni frá einhverju var spurt hverra manna fólkið væri og við vorum rekin á gat ansi fljótt með ættfræðinni.

Fjölskyldan var númer eitt, tvö og þrjú hjá ömmu Dollu. Allir voru velkomnir til hennar á Vesturgötu 42 og ávallt var tekið vel á móti öllum því amma var mikill sælkeri og höfðingi heima að sækja, það var ekki í boði að fara svangur frá henni. Við minnumst þess oft þegar Kobbi sagði henni frá bestu gúllassúpu sem hann hefði smakkað, þá fékk hann boð stuttu seinna frá ömmu í gúllassúpu. Eftir matinn spurði amma sposk hvort hin gúllassúpan væri enn best, sem auðvitað var ekki raunin.

Enn fremur vorum við systkinin svo heppin á unglingsárunum að fá að starfa með báðum ömmum okkar á sama tíma í versluninni Miðbæ sem foreldrar okkar áttu og ráku en það voru einu skiptin sem ekki var hægt að segja elsku amma, við áttum að vinna eins og allir aðrir.

Amma mætti í allar veislur sem voru haldnar innan fjölskyldunnar, hvort sem það var hjá börnum, barnabörnum eða barnabarnabörnum, og fagnaði öllum áföngum í lífi okkar og eru þær minningar ansi dýrmætar.

Við erum ansi þakklát fyrir að þrátt fyrir hrakandi heilsu lét amma sig ekki vanta í brúðkaup Kobba í október síðastliðnum ásamt því að hitta nýjasta langalangömmubarnið sitt, barnabarnið hennar Önnu Lilju, í júlí síðastliðnum við mikla gleði hjá henni.

Elsku amma, þín verður sárt saknað hjá okkur öllum og það er stórt skarð höggvið í stórfjölskylduna. Við fjölskyldan munum alltaf hugsa til þín, elsku amma, og vonandi munum við ná að taka eitthvað af þínum góðum gildum með okkur í lífinu því það mun gera okkur að betri manneskjum.

Það verður skrítið að hafa þig ekki með okkur að fagna öllum áföngum sem við og börnin okkar náum í lífinu. Þú kenndir okkur mörg góð gildi og vonandi náum við að verða eins góðar manneskjur og þú varst.

Eins og fyrr sagði vitum við að afi bíður eftir þér með opna arma og vonandi munið þið passa upp á okkur öll um ókomna tíð og vísa okkur réttan veg.

Þín barnabörn,

Jakob (Kobbi), Anna Lilja og fjölskyldur.

Elsku besta amma mín hefur kvatt þennan heim. Hún sem var svo stór hluti af lífi mínu alla tíð, það sem ég mun sakna hennar mikið. Ég sótti mikið í að vera á Vesturgötunni hjá ömmu, afa og Thelmu þegar ég var að alast upp og amma sótti mikið í að fá mig til sín. Við vorum ekki bara amma og barnabarn heldur vorum við miklar vinkonur alla tíð. Hjá ömmu og afa var gott að vera, þar var alltaf nóg af ást, umhyggju og mat. Já, matur var ömmu ofarlega í huga og það fór enginn svangur af Vesturgötunni. Hún var listakokkur og hafði alla tíð gaman af að prófa eitthvað nýtt. Í seinni tíð, á meðan hún hafði heilsu til, bjó hún til þá allra bestu chili-sultu sem ég hef smakkað og gaf öllum afkomendum sínum í jólagjöf og svo sem við önnur tækifæri líka.

Stór er hópurinn hennar ömmu og hún var svo stolt af öllu sínu fólki. Ættmóðirin mikla sem fylgdist vel með öllum, var alltaf með á hreinu fjölda afkomenda og gladdist í hvert sinn sem nýr einstaklingur bættist í stóra hópinn hennar.

Mikið sem ég er þakklát fyrir að hafa átt þig að allt mitt líf. Minningarnar eru endalausar og ylja mér um hjartarætur. Allar bæjarferðirnar okkar, sumarbústaðarferðir, árlegar ferðir í mörg ár á grænmetismarkaðinn og í grasagarðinn, svo ég tali nú ekki um Spánarferðirnar. Amma naut sín svo sannarlega í Alegriu. Þar dundaði hún í garðinum, bakaði pönnukökur, fór í uppáhaldsbúðirnar sínar, sem gjarnan endaði með yfirvigt, og yngdist um mörg ár þegar á Sítrónumarkaðinn var komið. Við sem yngri vorum höfðum ekki roð við henni enda ekkert grín að þræða alla þessa bása í steikjandi hita. Einu sinni tókum við amma okkur til og fórum saman á námskeið til að sauma á okkur þjóðbúninga. Ekki þótti okkur það leiðinlegt enda mikið spjallað og hlegið við þá iðju. Svo margar fallegar og dýrmætar minningar sem ég mun geyma vel og vandlega í hjarta mínu. Nú er amma komin í Sumarlandið góða en þar hefur afi og allt okkar góða fólk sem farið er tekið vel á móti henni. Hafðu þökk fyrir allt og allt, elsku besta amma mín. Ég kveð þig í bili með miklum söknuði.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Rósa Guðmundsdóttir)

Þín

Sólveig.

Elsku amma.

Nú ertu búin að fá þína hinstu hvíld. Tilfinningarnar eru blendnar; við fyllumst gleði yfir því að hugsa til þess að þú sért nú komin til afa Gauja, komin með líkamlegan styrk til að gera allt það sem þú vildir og elskaðir að gera, hvort sem það var að baka pönnukökur, gera garðinn þinn fínan eða ferðast til Spánar. Síðast en ekki síst gleði yfir því að hafa getað eytt síðustu dögunum með þér og sjá hversu mikla hamingju samvera með fjölskyldunni þinni færði þér. Á sama tíma er mikil sorg og söknuður sem fylgir því að þurfa að kveðja þig í hinsta sinn, og tilhugsunin við það að geta ekki komið að heimsækja þig í Selvík eða á Vesturgötu er afar erfið. En allar góðu minningarnar munu ylja okkur á þessum stundum.

Þú varst mikil fjölskyldukona og helgaðir líf þitt fjölskyldunni þinni, sem þú varst alltaf til staðar fyrir. Þú elskaðir að mæta í veislur og fjölskylduboð og kom það sér því vel að eiga um 80 afkomendur, sem gátu skipst á að halda veislur. Það var þér afar mikilvægt að enginn færi minna en pakksaddur úr þínu húsi og kepptist þú við að bjóða manni kaffi, djús og kökur í hverri heimsókn. Það allra besta voru heimagerðu pönnukökurnar þínar sem þú hentir í við hvert tækifæri, eins og ekkert væri auðveldara og langt um aldur fram jafnvel þótt líkaminn væri farinn að gefa sig. Þú varst jú mikið hörkutól og fórst langt á þrjóskunni.

Elsku amma, takk fyrir allar stundirnar og takk fyrir að vera besta amma í heimi. Orð fá því ekki lýst hvað við erum þakklátar fyrir þig og allt það sem þú hefur gert. Við vonum að þú og afi njótið saman og að þið vakið yfir okkur fjölskyldunni. Megi góður guð geyma þig. Þangað til næst.

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

unz hittumst við aftur heima.

(Hugrún)

Þínar ömmudætur,

Sandra og Birna Helga.

Í dag kveðjum við elsku ömmu.

Amma hefur alltaf verið stór hluti af okkar lífi og er söknuðurinn mikill. Það er erfitt að hugsa til þess að við fáum ekki að hitta þig aftur elsku amma en við getum yljað okkur við allar þær minningar sem við höfum skapað saman í gegnum árin.

Margs er að minnast þegar hugsað er til baka en án efa eru allir tímarnir sem við áttum saman á Vesturgötunni þeir eftirminnilegustu. Alltaf tókstu vel á móti okkur með kræsingum á borðum. Hvort sem það var pönnukökubakstur um helgar, matur í hádegishléi í skólanum eða kvöldmatur. Enginn gekk svangur frá borði eftir heimsókn til þín enda varstu frábær kokkur sem fannst fátt skemmtilegra en að dúlla sér í eldhúsinu og prófa nýjar uppskriftir. Annað áhugamál var ættfræði en það eru líklega fáir sem hafa fagnað tilkomu Íslendingabókar jafn mikið og þú, því þar gastu rakið ættir allra í kringum þig og skoðað áhugaverða tölfræði um þitt fólk, sem þú varst svo stolt af.

Þú munt alltaf vera mikil fyrirmynd fyrir okkur systur en dugnaður, umhyggjusemi og hógværð eru orð sem einkenndu þig. Þú hefur einnig alltaf verið mikill húmoristi og alltaf var stutt í gleðina og hláturinn í návist þinni. Það var auðvelt að leita til þín ef eitthvað bjátaði á enda var faðmur þinn ávallt opinn.

Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur. Hlýjan og gleðin sem tók á móti okkur í hvert skipti sem við hittum þig var ómetanleg og erum við þakklátar fyrir allan þann tíma sem við áttum saman. Minning þín mun lifa í huga okkar um ókomin ár elsku amma. Okkur langar að enda á ljóði sem er okkur mjög kært og hefur fylgt okkur í gegnum árin. Það einkennir okkar samband því þú varst ekki bara amma heldur einnig okkar besti vinur.

Að eiga vin er vandmeðfarið,

að eiga vin er dýrmæt gjöf.

Vin, sem hlustar, huggar, styður,

hughreystir og gefur von.

Vin sem biður bænir þínar,

brosandi þér gefur ráð.

Eflir þig í hversdagsleika

til að drýgja nýja dáð.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Við elskum þig og vitum að afi tók vel á móti þér eftir langan aðskilnað.

Kara Líf Ingibergsdóttir og Berglind Dögg Einisdóttir.