— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Biden sagði: „Það gerist ekkert í Moskvu sem Pútín veit ekki um.“ Svo fór Biden inn aftur að fá sér meiri ís. „Ís(í) does it,“ segir Biden. En hver var fjarvistarsönnun Pútíns? Jú hann hafði verið á tónleikum. Fréttamaðurinn hafði ekki vit á að spyrja, hvort einhver lög Wagners hefðu verið leikin á þeim tónleikum, þótt spurningin hefði ekki dugað til að nappa Pútín.

Sumir hafa þann kæk, vilji þeir líkja einhverju í beinhörðum nútíma við stórbrotinn raunveruleikann, og hafi jafnvel verið handan við allt, sem ætti að geta gerst, að hrópa hátt „að þetta hafi næstum því verið eins og í bíó“.

Og þótt sú upphrópun sé dálítið dularfull, þá má færa til sanns vegar að þeir atburðir, sem urðu í háloftunum yfir Moskvu á dögunum, hafi verið þeirrar gerðar. Það hefði að minnsta kosti ekki þurft miklar ýkjur til, svo halda mætti því fram, að það sem þá gerðist hafi minnt á sýndarveruleika. Það sem helst var á skjön við bíóreynsluna var að allt gerðist svo snöggt. Það gafst ekki tóm til að byggja upp taugatrekkjandi spennu á „tjaldinu“. En það var þó stórkostlegt að tökumenn næðu myndum af „sprengingunni“, því enginn, eða næstum enginn, gat vitað að litla einkaþotan spryngi yfir Moskvu og hvað þá, að steindauður flugmaður hennar fyndi næsta hættulausan „lendingarblett“ fyrir vélina.

Hefði þetta gerst í Reykjavík og ekki í bíó hefði verið rakið að láta brakið koma niður í Viðey, mátulega langt frá húsi Skúla fógeta, og hafa komið fyrir myndavélum eins og virtist vera í þessu tilviki. En lending dána flugmannsins var enn þá flottari og líkust verðlaunabíómynd, því Prígosjín, fyrrverandi meistarakokkur Pútíns, og aðstoðarkokkar hans komu niður, eins og þeir hefðu lent á Klambratúninu, aðeins 300 metra frá slökkviliðinu í Öskjuhlíð. Og þá hefði flakið líka verið skíðlogandi, eins og það í Moskvu, þegar að var komið.

Einkennandi fyrir Bond og Bean

En það er ekki oft sem menn sjá einkaþotu kippt svo snoturlega ofan úr skýjunum, og eins og eftir pöntun (sem gæti hafa verið), ef þetta hefði ekki verið svona líkt og bíó. Í bíómynd af betri gerð hefðu strax eftir hvellinn sést óvenjulegar hreyfingar í tilvonandi brakinu og það þá reynst vera James Bond eða starfsbróðir hans Mr. Bean, sem kippt hefðu vasaklútnum úr brjóstvasanum, slétt úr honum og af því að þessi klútur var úr undraefni sem Q hafði fundið upp gat Bond eða Bean slétt úr honum á einum tíunda af auknabliki og notað hann svo sem fallhlíf fyrir alla farþegana, og rétt áður en lent var dregið fram nýjustu tegund af hríðskotabyssu undan klútnum og orðið fyrri til að flundra á andstæðingana sem voru sekúndubroti of seinir að drepa Bond eða Bean, enda höfðu óvinirnir aldrei áður séð skothelda fallhlíf með mynd af Marilyn Monroe og það fipaði þá. Seigur Q þótt kominn sé á eftirlaun.

Algengast er að það berist fréttir af því, að flugvélar hafi ekki komist á leiðarenda, til að mynda á næsta flugvöll. Þá er tilkynnt að leit sé hafin á hennar ætluðu flugleið, yfir haf eða land, en sýnu flóknara er auðvitað þegar flugvél týnist yfir auðum sjó.

Fyrir fáeinum árum týndist 777-200ER-flugvél framleidd af Boeing, með manni og mús (þetta síðarnefnda er þó ekki sennilegt) og enn hefur fátt fundist, þrátt fyrir mikla leit. Það er enginn grunaður um að hafa eitthvað með þá atburðarás að gera og engir hafa enn nefnt Pútín til sögu, en honum hefur verið breytt í allsherjarruslafötu undir týnda glæpi.

Fyrstu rúmu tvö árin á forsetaferli Trumps fullyrtu demókratar að óyggjandi sannanir lægju fyrir um að Pútín og Trump hefðu því sem næst verið í sameiginlegu framboði til að verða forsetar í Bandaríkjunum og þegar í ljós kom, að þetta var hreinn hugarburður upp úr falsaðri skýrslu, sem Hillary hafði látið semja í þessum tilgangi, máttu demókratar ekki mæla í nokkrar mínútur og sögðu svo efnislega en fært í stíl, að það væri dæmi um hvílíkur þorpari Trump væri, að hann gæti ekki tekið á sig handhægan glæp, sem Hillary hefði lagt mikla vinnu í að semja.

Pútín liggur allan sólarhringinn undir grun

Þá var talið óhætt að trúa flestu og ef mikið lægi við næstum öllu upp á Pútín, en núna eru engin takmörk lengur í þeim efnum og hefur Pútín óneitanlega lagt vel til þeirrar óþægilegu stöðu.

Núna þegar Prígosjín varð bráðkvaddur úr þessum heimi í óhefðbundnum skilningi (sumir segja það ekki víst) þá töldu blaðamenn vestra mikilvægast alls að fá skoðun Joes Bidens í málinu. Biden er svakalega seigur að verða sér úti um frí og var í einu slíku, einmitt þá, þegar atburðir urðu í Moskvu. En þá lá þegar fyrir, að þessir „valdamestu menn veraldar“ og er þá Biden talinn með til gamans, höfðu báðir fjarvistarsönnun. Biden var úti að fá sér uppáhaldsísinn sinn, þegar þetta gerðist og hann hafði því ekki frétt neitt, sem þýðir, að nú vita Rússar hvenær dagsins þeir eiga að senda kjarnorkuflaugar hratt í átt til Bandaríkjanna, sé það á dagskrá.

En þótt Biden vildi ræða ísinn var hann spurður áfram um þátt Pútíns í málinu, sem Biden vissi ekkert um. En hann svaraði á þessa leið: „Það gerist ekkert í Moskvu sem Pútín veit ekki um.“ Biden fór inn aftur að ná sér meiri ís. „Ís(í) does it,“ segir Biden.

En hver var fjarvistarsönnun Pútíns? Jú, hann hafði verið á tónleikum þegar Prígosjín flaug inn í eilífðina! Fréttamaðurinn eystra þorði ekki að spyrja, hvort einhver lög Wagners hefðu verið leikin á tónleikunum, þótt spurningin hefði varla dugað til að nappa Pútín.

Því er haldið fram að Pútín sé fremur langrækinn, og því ekki ólíkur Don Corleone, svo að aftur sé vitnað í bíó. Don Corleone hefur verið sýndur í bíó aftur og aftur í þremur stórgóðum myndum, svo að við bíógestir vitum allt um hann og nánasta slekti hans. Bréfritari hefur séð allar þær myndir og það nokkrum sinnum. Bréfritari er reyndar einn af þessum mönnum sem vilja helst ekki sjá bíómynd sem þeir hafa ekki séð áður. Hann hefur hugsanlega breyst í þessa átt þau tvö ár sem hann var sætavísari í Austurbæjarbíói hjá frændfólki sínu úr Laugarnesi. Og hann man ekki betur en að Don Corleone hafi ekki sjálfur, prívat og persónulega í rúmlega 60 ára lífshlaupi sínu drepið nema einn mann, þá tæplega tvítugur og það alræmdan þorpara, og var framtakið, faglega séð, vel metið af öllum almenningi þess tíma í New York.

Pútín hefur líka lifað langa ævi og gegnt störfum sem eru ekki fyrir alla, hvort sem það var fyrir leyniþjónustu Stasí og KGB eða aðrar slíkar, sem standa á gömlum merg, þótt ekki sé vitað af hverju þær gera það.

Hvenær drepur maður mann?

En það hefur aldrei verið upplýst að Pútín hafi nokkru sinni drepið mann og varð það sennilega til þess að hann gafst upp á framapoti sínu í KGB (sem hét eitthvað annað þá), eins og flestir starfsmennirnir sem höfðu unnið þar „fyrir hrun“. Pútín ætlar sér að láta rannsaka mál Prígosjíns í þaula og hann vottaði ættmennum hans alla sína samúð, hvað sem það þýðir. Og til að halda öllu til haga, þá gat hann þess að Prígosjín, sem hann hefði þekkt lengi að góðu einu og litið á sem vin sinn, hefði óneitanlega orðið á mistök á lokasprettinum.

Seinast þegar Pútín nefndi þessi „mistök“ vinar síns, þá sagði hann að Prígosjín hefði framið landráð. Í refsirétti Stalíns þýddi það svo sem þúsund ára fangelsi í Síberíu og aftökur á viðkomandi á nokkurra áratuga fresti og myndu allir ættingjar hans fylgja honum í gröfina til þæginda fyrir alla. En þá verður að muna fjöldann, sem fylgdi Stalín til grafar úr Austurbæjarbíói, sjö árum áður en bréfritari fór að vísa þar til sætis, en þar fengu 787 sæti, þar á meðal virtustu rithöfundar þjóðarinnar og margvíslegir fróðleiksmenn og góðmenni sem voru þar aðallega til að kveðja „mesta mannvin heims“, eins og þeir orðuðu það, af stakri hógværð.

Hafi milljónirnar í fangabúðunum í Síberíu heyrt þetta hafa þeir örugglega tekið ofan pottlokin í þakkar- og virðingarskyni. Þegar sætavísarinn hugsaði til baka þótti honum að Roy og Trigger væru sýnu meiri mannvinir en Stalín, enda voru flestir dauðu indíánarnir úr seinustu mynd sprelllifandi í þeirri næstu.

Pútín hefur sjálfsagt ekki haft neitt á móti lygaspunanum um samsæri þeirra Trumps, því það jók óttann og dulúðina um hann. En það dellumál entist ótrúlega lengi eða í tvö og hálft ár og „the main stream media“ tók fullan þátt í sprellinu, henni til stórlegrar minnkunar, og „stórblöðin“ birtu reglubundna „leka frá mjög áreiðanlegum heimildum“ sem reyndust allar vera innantóm uppsuða og bull. Var með nokkrum ólíkindum að fylgjast með því spilverki.

Hann á óneitanlega innstæðu

En Pútín hefur ekki þurft mikla hjálp til að skapa sér orðspor, sem smám hefur orðið honum þungt í skauti. Ekki skal eltast við nema fáein dæmi, þar sem Rússar með skjól í London fengu að finna fyrir hinum langa skugga. Og var í þeim efnum sérkennilegt hversu langt var teygst aðallega til að skapa ógn og ótta.

Búlgarar í sovéttíð létu duga að ýta „fullum“ mönnum, sem máttu missa sín, fyrir lestir eða að eitruðum regnhlífarenda var potað í þann sem skyldi koma fyrir kattarnef og aðrar einfaldari afgreiðslur af því tagi.

Dramatíkin í kringum aftökurnar, sem menn gefa sér að hafi verið með blessun Pútíns, var með mun skelfilegri brag. Fullyrt er að leyniþjónusta Pútíns hafi drepið rússneska auðkýfinginn Boris Beresovskí, þótt reynt væri að láta það líta út sem sjálfsvíg á glæsiheimili hans.

Rússneskum háttsettum njósnara Rússa, Alexander Litvínenkó, sem flúið hafði í skjól Breta, var byrlað eitur í tebolla, sem hann drakk úr á hóteli, skammt frá bandaríska sendiráðinu (sem er flutt). Eitrið póloníum 210 skilaði því sem ætlast var til á fáeinum dögum fyrst fórnarlambið hafði fengið nægjanlegan skammt og voru ekki, og eru ekki enn, þekktar aðferðir til að bjarga lífi þess sem á í hlut. En breskir læknar gerðu sitt ýtrasta á hátæknispítala til að bjarga Litvínenkó.

Fjórða dæmið er um Sergei Skrípal og dóttur hans, en hann var fyrrverandi rússneskur njósnari sem fékk að flýja Rússland í njósnaraskiptum austurs og vesturs. Hin óskráða regla er sú, að eftir slíka samninga þá sé „varan“ óhult eftir það, þótt allrar almennrar varkárni sé gætt. Tveir rússneskir njósnarar komu til Salisbury í Englandi, þegar félagar þeirra höfðu fengið upplýsingar um hvar Skrípal ætti skjól, þegar dóttirin heimsótti föður sinn. Útsendarar leyniþjónustunnar notuðu eitrið „novitsjok“ sem m.a. má maka á hurðarhúna til að ná til Skrípals.

Sama eitur mun hafa verið notað á einn af leiðtogum stjórnarandstæðinga í Rússlandi en honum var bjargað af þýskum læknum, en hélt að því loknu aftur til Rússlands og hefur þar verið dæmdur til þungrar fangavistar. Þessi síðustu fórnarlömb sluppu með skrekkinn.

Enginn veit á þessu stigi hvernig átökin í Úkraínu enda, þótt borið hafi á vaxandi ótta og efasemdum um að öruggt sé að þau átök séu líkleg til að enda vel, hversu miklar sem vonirnar og væntingarnar séu.

Eitthvað hefur losnað um F-16-orrustuþoturnar sem Úkraína hefur bundið miklar vonir við. En ekki er öruggt að nokkrir tugir þeirra ráði úrslitum þegar þær loksins koma og eftir nægilega ríkulega þjálfun úkraínskra flugliða. Vestrænir skriðdrekar af fullkomustu gerð hafa sjálfsagt gert gagn en ekki ráðið úrslitum. Ekki er víst að stjórnendur í Úkraínu vilji beita þeim á meðan þeir hafa ekki fullnægjandi varnir í lofti, sem er sjálfsagt nærri hálft ár í að skili sér. Rússar sitja ekki auðum höndum á meðan. Það er vandinn.