Ólafur F. Magnússon
Skrýtin er þeirra
grenigjörð,
sem ganga illa um Skerjafjörð.
Þeir náttúruna níða.
Þeir flugvöll vilja berja burt,
en borgarlínu hafa kjurrt.
Þeir röftum vilja
ríða.
Enn einn kollhnísinn er byrjaður í loftfimleikum meirihluta vinstrimanna og Framsóknar í Reykjavík vegna þjóðarflugvallarins í Vatnsmýri og öryggis hans. Svo virðist sem grenitré í Öskjuhlíð séu mikilvægari hjá meirihlutanum en flugöryggi og mannslíf. Ýmsir eru kallaðir til að vitna fyrir meirihlutann, eins og þröngsýnir forystumenn í skógræktarhreyfingunni. Líklega verður einnig kallað á hið óraunveruleikatengda „loftslagsráð“ og nýjustu samtökin gegn atvinnulífi og sjálfstæði Íslands: „Félag lækna gegn umhverfisvá“. Og svo má ekki gleyma því að núverandi borgarstjóri er með stórt og viturt læknishjarta að eigin sögn, þrátt fyrir litla reynslu af læknisstörfum!
Á fundi um Reykjavíkurflugvöll nýlega spurði ég samgönguráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, hvort hann virkilega treysti núverandi meirihluta vinstrimanna og Framsóknar í borginni, enda hefði sá sami meirihluti sýnt af sér skemmdarfýsn og yfirgang gagnvart borgarbúum.
Sigurður svaraði spurningunni snilldarvel og sagði að hann bæri yfirleitt traust til manna, enda væri hann dýralæknir en ekki mannalæknir, eins og ég.
Nú skora ég á Sigurð Inga að taka fast á grenitrjáaverndurum og ólátabelgjum í Ráðhúsi Reykjavíkur og koma í veg fyrir enn eitt skemmdarverk þeirra á flugöryggi og mannlífi í Reykjavík.
Höfundur er læknir og fv. borgarstjóri í Reykjavík.