„Þetta gallerí opnar ný tækifæri,“ segir Tolli sem sýnir í Þulu galleríi.
„Þetta gallerí opnar ný tækifæri,“ segir Tolli sem sýnir í Þulu galleríi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hrífst af því að vinna með sterka liti og reyna að beisla þá, það er að segja að taka kraftinn og vinna með hann þannig að það skapist kyrrð í kraftinum.

Tolli Morthens sýnir átta stór málverk á sýningunni Sjóndeildarhringur í óreiðu, sem stendur yfir í Þulu í Marshallhúsinu. Sýningunni lýkur 10. september.

Tolli segir að sjá megi nýjar áherslur á þessari sýningu. „Maður þróast sem listamaður og áherslurnar eru í samræmi við það. Þetta er í fyrsta sinn sem ég set upp sýningu sem er samtal milli abstrakt expressjónískra mynda og landslags.

Aðferðin við að mála landslagið er sótt í abstraksjónina. Þess vegna er titill sýningarinnar Sjóndeildarhringur í óreiðu. Þegar maður er með abstrakt málverk á striganum og dregur síðan línu þvert í gegnum það þá er maður kominn með sjóndeildarhring. Um leið er maður kominn með frásögn og staðsetningu.

Þetta er eins og í lífinu sjálfu. Við mannverurnar erum viðkvæm fyrirbæri og þolum ekki kosmíska óreiðu. Þess vegna verðum við að draga sjóndeildarhring í gegnum óreiðuna og búa til guð. Þá finnst okkur við vera örugg. Við vitum hvar við erum, hvaðan við komum og hvert við erum að fara.“

Náttúran á svar við öllu

Á sýningunni eru tveir staðir á Íslandi viðfangsefni Tolla. Fjallið Lómagnúpur og víðernin að Fjallabaki. „Ég er að sækja í nýlega reynslu af upplifun minni á íslenskri náttúru, það er að segja þegar ég gekk á Lómagnúp og fór Fjallabaksleið syðri. Þarna upplifði ég mikilfengleika víðáttunnar, liti og form, og svo hið smáa í votlendinu eins og fífuna.“

Fífan er í forgrunni á nokkrum myndanna. „Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei séð hana almennilega en núna í sumar uppgötvaði ég hana,“ segir Tolli. „Það er mjög skemmtilegt fyrir málara að hafa fífuna í forgrunni og leika sér um leið með litapallettuna.“

Hann er einlægur náttúruunnandi. „Ég get ekki annað en verið gagntekinn af því hvað náttúran er. Ég var fíkill og glímdi við afleiðingar áfalla og við tók mikil vinna í sjálfum mér og í því ferðalagi öllu hafa móðir Jörð og náttúran verið mér óendanlega dýrmætar. Það er eins og náttúran eigi svar við öllu. Þegar kemur að því að heila sál og líkama þá er ekkert eins kraftmikið og náttúran.“

Spurður hvort listin hefði á sínum tíma hjálpað honum að ná tökum á fíkninni segir hann: „Þarna er listin tvíbent því hún kóaði með mér, Myndlistarmaður þarf ekki að standa í skilum við einn né neinn, mætir þegar honum sýnist og gerir það sem honum sýnist og er reiknað allt til tekna. Þannig að þar voru aldrei neinar félagslegar hindranir í því að vera fíkill.

Á hinn bóginn þegar maður snýr sér að því að heila sig og ná tökum á lífi sínu þá er mikil heilun að vera í skapandi starfi og geta túlkað og tjáð tilfinningar sínar.“

Vinnur með fegurð

Áberandi litagleði einkennir verk Tolla. „Það er hlutskipti mitt sem myndlistarmanns, með öðru, að fást við liti. Ég er dramatískur, ég er ákafamaður og orkumikill og hrífst af orku. Ég hef unun af því að vinna með sterka liti og reyna að beisla þá, það er að segja að taka kraftinn og vinna með hann þannig að það skapist kyrrð í kraftinum.

Tilgangur minn sem myndlistarmaður er að vinna með fegurð. Fegurðin er aldrei ofmetin, ef eitthvað er þá er hún vanmetin. Fegurðin verður ekki sett upp í excel-skjal. Hún er margslungin og margræð og persónuleg og einstök, en fegurð er hún samt. Það þarf enga framheilaskerpu til að skilgreina fegurð. Hún talar alltaf til þín, hún er innra með þér og í ytra umhverfinu.“

Spurður hvernig vinnulag hann hafi tamið sér segir Tolli: „Ég reyni að vinna eins og atvinnumaður, er vel skipulagður, mæti snemma í vinnuna, set mér markmið og passa að ég hafi vinnufrið. Þetta er eins og að reka fyrirtæki. Ég reyni að skipuleggja vinnu mína þannig að ég hafi sem mestan tíma í að mála og reyni að kaupa mér þjónustu og aðstoð í allt sem snýr að umgjörðinni, bæði því verklega og tæknilega.“

Engin meðvirkni

Sýningin er í Þulu, galleríi sem dóttir hans, Ásdís, rekur. „Við ákváðum að okkar samskipti mættu ekki vera meðvirk. Við urðum að vera með það alveg uppi á borðinu að hún er ekki að sýna pabba af því að... og ég er ekki að sýna hjá henni af því að... Þetta á að snúast um galleristann, myndlistarmanninn og gæði.

Ég er mjög ánægður að fá tækifæri til að sýna í þessu flotta galleríi og koma út úr minni einangrun. Þó svo ég hafi starfað sem myndlistarmaður í fjörutíu ár þá hef ég grafið mér minn farveg þar sem ég hef haldið mig og það getur verið erfitt að komst upp úr honum. Þetta gallerí opnar ný tækifæri. Ég finn líka hversu gott það er að hafa gallerista og ef sá aðili er góður nýtur hann þess með manni ef vel gengur – sem er sanngjarnt.“

Kraftmikill litafoss

Birta Guðjónsdóttir, sýningarstjóri og myndlistarmaður, skrifar í sýningarskrá um list Tolla og segir á einum stað:

„Litaflaumur einkennir verk Tolla, þau eru einskonar litabað, kraftmikill litafoss sem okkur er boðið að stíga undir og inn í. Þessi litafoss umlykur okkur, hann umfaðmar okkur og í honum skapast aukið andrými í líkamsverund okkar. Þegar stigið er út úr litafossinum halda litirnir áfram að hafa áhrif, þeir eru heilandi. Margbreytileiki lita hefur haft veruleg og verufræðileg áhrif á mannsandann í gegnum aldirnar og áhrif lita, sem eru í grunninn ljósbrot í náttúrunni, eru skynjaðir í gegnum sjónhimnuna og hafa lífeðlisfræðileg áhrif á okkur. Að beisla slík ljósbrot með málningu á færanlegan, tvívíðan flöt innandyra er galdur aldanna og sjónarhornið, upplifunin, heldur áfram að vera okkar eigin.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir