Esjan Fylgst hefur verið með Esjuskaflinum í tæplega hundrað ár. Ljóst þykir að hann muni bráðna að fullu að þessu sinni, jafnvel í dag.
Esjan Fylgst hefur verið með Esjuskaflinum í tæplega hundrað ár. Ljóst þykir að hann muni bráðna að fullu að þessu sinni, jafnvel í dag. — Morgunblaðið/Baldur Arnarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snjóskaflinn í Esjuhlíðum var ekki nema tveir fermetrar klukkan 19.45 í gærkvöldi og segir Árni Sigurðsson veðurfræðingur nánast öruggt að hann bráðni að fullu í dag. „Það spáir mjög hlýrri rigningu og hann fer alveg örugglega

Snjóskaflinn í Esjuhlíðum var ekki nema tveir fermetrar klukkan 19.45 í gærkvöldi og segir Árni Sigurðsson veðurfræðingur nánast öruggt að hann bráðni að fullu í dag.

„Það spáir mjög hlýrri rigningu og hann fer alveg örugglega. Þetta gerist mjög hratt, samspil af mjög hlýjum vindi og mikilli rigningu gulltryggir að skaflinn bráðni,“ segir Árni. Sjálfur kíkti hann á skaflinn á fimmtudaginn og þá mat hann það svo að skaflinn væri um 10 fermetrar. Skaflinn hverfi því mjög fljótt enda kjöraðstæður til að bræða ís.

Árni segir nú vera óvenjulega hlýtt loft uppi á Esjunni miðað við árstíma.

„Það hefur verið að mælast um 10 gráða heitt loft þarna í 3.000 fetum. Á morgun [í dag] er verið að tala um 12-14 stiga hita í rigningu hjá skaflinum.“

Árni telur að það sem gerði útslagið fyrir skaflinn í ár hafi verið samspil þess að í vetur voru langir frostakaflar án snjókomu, mikil rigning í júní og svo mikill þurrkur og hiti síðan í júlí.

„Fyrir utan það hefur hafið hlýnað og því verður áhugavert að fylgjast með næstu árin hvort þetta gerist oftar,“ segir Árni. Skaflinn hefur haldið sér yfir sumartímann eða bráðnað að fullu í gegnum árin og gerist þetta venjulega í ákveðnum tímabilum segir Árni.

Esjuskaflinn bráðnaði flest ár á milli áranna 1930 og 1950 en eftir 1964 varði hann pláss sitt í Esjuhlíðum allan ársins hring í rúmlega þrjá áratugi. Árið 1998 bráðnaði skaflinn svo loksins aftur og frá árinu 2001 til ársins 2009 bráðnaði hann hvert einasta sumar.
hng@mbl.is