Útivistarsvæði Svæðið sem um ræðir við Suðurfell í Elliðaárdal
Útivistarsvæði Svæðið sem um ræðir við Suðurfell í Elliðaárdal — Ljósmynd/HPG
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Trén skapa skjól og trén skapa umhverfi fyrir fólk.

Halldór Páll Gíslason

Ábending til borgaryfirvalda vegna fyrirhugs skógarhöggs við Suðurfell í Elliðaárdal undir íbúðabyggð.

1. Við Suðurfell er álíka mikill trjágróður og gerð er krafa um að fella í Öskjuhlíð.

2. Ítrekað er fyrirhugað að ganga á útivistarsvæði Elliðaárdals sem er óviðunandi.

Ljóst er að það er ekki sama hvar trjágróðurinn er þegar á reynir. Engin umræða á sér stað hjá borginni um trjágróðurinn sem hún áformar að fella við Suðurfell í vinsælasta útivistarsvæði Reykvíkinga.

Svona vinnubrögð eru ámælisverð og valda því að manni fallast hendur í því leikriti sem borgaryfirvöld bera á borð í þessu máli.

Enn og aftur er teflt fram í málinu borgarfulltrúa sem einu sinni rataði ekki í Elliðaárdalinn 2014 og lætur hafa eftir sér m.a. eftirfarandi í blaðaviðtali við mbl.is þann 3. ágúst síðastliðinn: „Þetta er ekki í dalnum sjálfum heldur þarna efst uppi í brekkum sem eru nú kannski ekki mjög mikið útivistarsvæði í sjálfu sér, en ég bæði held og tel mjög mikilvægt að það skerði ekki útivistarsvæði Elliðaárdals.“ Með viðtalinu er birt litlaus og ljót mynd af svæðinu eins og vaninn er þegar borgin er að kynna sjálftöku á verðmætum útivistarsvæðum í Elliðaárdal.

Hér erum við að tala um útivistarsvæði við Suðurfell í Elliðaárdal. Þar eru álíka mörg tré og gerð er krafa um að felld verði í Öskjuhlíðinni til að tryggja flugöryggi og allir borgarfulltrúar í meirihlutanum eru að missa sig yfir. Fara þurfi í mótvægisaðgerðir og gera varúðarráðstafanir til að jafna út og/eða bæta þann skaða sem af því hlýst. Skógræktarstjóri látinn tjá sig um málið, (vísir.is 17. ágúst), þar sem fram kemur að það þurfi að fá leyfi hjá Skógræktinni ef fella á tré á hálfum hektara lands eða meira. Hvað með trjágróðurinn við Suðurfell? Það skyldi þó aldrei vera að Skógræktin verði þá komin í sama flokk og Hollvinasamtök Elliðaárdalsins, verði ekki talin heppilegur umsagnaraðili nema þegar öruggt geti talist að jákvæð umsögn um málið berist til borgaryfirvalda? En það skal upplýst að Hollvinasamtök Elliðaárdalsins hafa ekki verið beðin um álit á einu eða neinu er viðkemur Elliðaárdalnum síðan þau náðu undraverðum árangri í undirskriftasöfnun vegna byggingaráforma Reykjavíkurborgar við Stekkjarbakka í Elliðaárdalnum rétt fyrir covid-19-faraldurinn.

Hér er að vísu um tvö aðskilin mál að ræða þar sem um er að ræða meira en hálfan hektara af skógi vöxnu landi. Hefur Skógræktin virkilega ekki verið spurð álits um skógarhöggið sem þarna stendur til að framkvæma og verið beðin um leiðbeiningar varðandi nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að bæta skaðann sem af þessu hlýst í Elliðaárdalnum?

Í viðtalinu við skógræktarstjóra á visir.is kemur m.a. fram varðandi trén í Öskjuhlíð að „trén skapa skjól og trén skapa umhverfi fyrir fólk“. Þetta er nákvæmlega það sem trjágróðurinn við Suðurfell gerir í kringum göngu- og hjólastígana sem þarna eru og skapa stóran hluta af þeim vinsældum sem þessi leið er í útivist þeirra sem þarna hreyfa sig. Við megum ekki gleyma þeim grundvallarlýðheilsumarkmiðum sem ávallt er verið að benda fólki á á öllum aldri, að hreyfa sig í um 30 mínútur á dag, ganga rösklega eða hjóla til að ná hjartslætti upp til m.a. að styrkja hjartavöðva, sem dæmi. Þetta er dæmi um hreyfingu sem allir geta byggt upp og stundað þar sem boðið er upp á aðstæður til þess rétt eins og við Suðurfell.

Það er ljóst af þessari umræðu hjá meirihlutanum í Reykjavíkurborg að verðmæti gróðurs í Reykjavík er mjög misskipt eftir því hvar hann er staðsettur og þar virðist skipta öllu máli hvort hann sé í póstnúmeri 101 eða 102 annars vegar eða í póstnúmeri 110 eða 111 hins vegar.

Hollvinasamtök Elliðaárdals lýsa yfir andstöðu sinni við fyrirhugað skógarhögg og íbúðabyggð við Suðurfell.

Bent er á eftirfarandi ósamræmi. Á heimasíðu rvk.is (https://reykjavik.is/frettir/skipulagslysing-fyrir-sudurfell) segir að frestur til að skila inn ábendingum sé til 18. ágúst, en í skipulagsgáttinni https://www.skipulagsgatt.is/issues/446 segir að frestur sé til 31. ágúst 2023.

Höfundur er formaður Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins.

Höf.: Halldór Páll Gíslason