Skæður Finninn Lauri Markkanen beið tap.
Skæður Finninn Lauri Markkanen beið tap. — AFP/Yuichi Yamazaki
Heimsmeistaramótið í körfubolta karla hófst í gær og ekki seinna vænna, því að heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta lauk fyrir viku. Karfan er vitaskuld drottning allra íþrótta og því er veisla í vændum þótt úrslit hafi verið nokkuð afgerandi í gær og spenna lítil þegar leið á leikina

Karl Blöndal

Heimsmeistaramótið í körfubolta karla hófst í gær og ekki seinna vænna, því að heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta lauk fyrir viku.

Karfan er vitaskuld drottning allra íþrótta og því er veisla í vændum þótt úrslit hafi verið nokkuð afgerandi í gær og spenna lítil þegar leið á leikina.

Nokkur lið mega teljast sigurstrangleg og erfitt að gera upp á milli. Bandaríkjamenn tefla ekki fram sínum bestu leikmönnum og hljóta að teljast líklegir. Erlendar stjörnur NBA-deildarinnar halda sig líka margar til hlés, en þónokkrum rennur þó blóðið til skyldunnar og munu láta ljós sitt skína.

Vert er að fylgjast með liðum Slóveníu, Kanada, Ástralíu og Finnlands. Svo má ekki gleyma Frökkum og Spánverjum. Eða þá Þjóðverjum, sem gætu komið á óvart. Íslenska liðsins verður sárt saknað úr veislunni, enda var það grátlega nærri því að tryggja sér þátttökurétt.

Einn er þó hnjóður. Mótið fer fram í Asíu og útsendingar á einkar óheppilegum tímum fyrir vinnandi fólk. Þá kemur sér vel að á kvöldin er í Nürnberg mótið European Masters í snóker þar sem ýmsir snillingar munda kjuðann, þar á meðal Belginn Luca Brecel, sem varð heimsmeistari með glæsibrag fyrr í sumar.