Það fylgdi ekki fréttinni hvort við borgarbúar ættum að hafa áhyggjur. Munu maurarnir taka yfir einn góðan veðurdag? Koma upp á yfirborðið í fylkingum og taka völdin?

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Samkvæmt dagatalinu er sumri tekið að halla og haustið alveg að detta inn með tilheyrandi haustlægðum, líkamsræktarátökum og brjálaðri umferð sökum bílaflota háskólanema. Blár himinn og hitatölur sem nálgast tuttugu segja þó annað. Veðurguðirnir bættu heldur betur upp fyrir alla vætuna sem þeir helltu yfir höfuðborgarbúa í júní, sem voru orðnir vonlitlir um að hreinlega sæist til sólar þetta árið. Það var líkt og þeir hefðu ruglast á mánuðum og héldu að haustið væri komið. En svo leit greinilega einn þeirra í dagbókina og snarstoppaði þar sem hann var staddur og sagði: „Hey, strákar, smá ruglingur í gangi! Skellum bara tveggja mánaða bongó blíðu yfir borgina í sárabætur!“

Takk, við tókum því fagnandi.

Annars hefur sumarið verið sérlega viðburðaríkt fréttalega séð og varla sá dagur liðið sem blaðamenn hér á fréttadeild hafa þurft að leita lengi að fréttum. Hér hefur verið skrifað um Íslandsbankahneyksli, eldgos, bruna, hvalveiðibann, hækkaða stýrivexti og verðbólgu, deilur um útlendingamál og sorpflokkunarmál og hvort fella ætti skóginn í Öskjuhlíð. Ég er örugglega að gleyma mörgu.

Ein oggulítil frétt sem birtist í sumar virðist alveg hafa farið fram hjá fólki. Um maura sem lifa undir borginni í OFURMAURABÚI. Af hverju er enginn að tala um þetta? Hinn nýútskrifaði líffræðingur, Andreas Guðmundsson, fjallaði í lokaritgerð sinni um lífseiga maura sem lifa hér af veturinn og kallast húsmaurar, náskyldir hveramaurum, sem ég vissi heldur ekki að væru til hér á landi. Í þessari litlu frétt stendur að ofurbú kallist samfélag maurabúa þar sem allir maurar eru skyldir og líta á sig sem eitt stórt bú. Andreas segir sterkar vísbendingar um að undir borginni sé ofurbú maura.

„Maurar sem við höfum skoðað víða á höfuðborgarsvæðinu, allt frá Seltjarnarnesi til Kópavogs, virðast ekki slást innbyrðis. Ef sú er raunin virðist það vera eitt stórt bú undir Reykjavík,“ segir hann.

Það fylgdi ekki fréttinni hvort við borgarbúar ættum að hafa áhyggjur. Munu maurarnir taka yfir einn góðan veðurdag? Koma upp á yfirborðið í fylkingum og taka völdin? Jæja, kannski er ímyndunaraflið farið að hlaupa með mig í gönur, en þarf ekki einhver fréttamaður að skoða málið betur?