Það dró nær sumarlokum, eins og sást þegar umferðin hljóp í síróp um allt höfuðborgarsvæðið um leið og skólar hófust, en hálfkaraðar framkvæmdir hér og þar greiddu ekki fyrir umferð. Svo versnaði veðurspáin líka í vikulokin.
Það dró nær sumarlokum, eins og sást þegar umferðin hljóp í síróp um allt höfuðborgarsvæðið um leið og skólar hófust, en hálfkaraðar framkvæmdir hér og þar greiddu ekki fyrir umferð. Svo versnaði veðurspáin líka í vikulokin. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Staða hælisleitenda, sem fengið hafa synjum um alþjóðlega vernd en vilja samt ekki fara frá landinu, var enn í óvissu eftir fund forsvarsmanna sveitarfélaga og Guðmundar Inga Guðbrandssonar félagsmálaráðherra

19.8.-25.8.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Staða hælisleitenda, sem fengið hafa synjum um alþjóðlega vernd en vilja samt ekki fara frá landinu, var enn í óvissu eftir fund forsvarsmanna sveitarfélaga og Guðmundar Inga Guðbrandssonar félagsmálaráðherra. Deilt er um hvort áfram þurfi að sinna þeim eða framfleyta með einhverjum hætti og hver skuli gera það, ríki eða bæir.

Erlendum borgurum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 15 þúsund frá árinu 2019, sem er um helmingsfjölgun og liðlega 17-föld á við fjölgun íslenskra borgara á sama tíma. Alls eru um 44 þúsund erlendir borgarar á höfuðborgarsvæðinu nú.

Athugun á samskiptum matvælaráðuneytisins og Samkeppniseftirlits (SKE) í aðdraganda samnings þeirra um athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi bendir ótvírætt til þess að matvælaráðuneytið hafi haft frumkvæði að athuguninni, þvert á það sem Páll Gunnar Pálsson forstjóri SKE hefur fullyrt opinberlega.

Skaginn 3X sagði upp 27 manns á Ísafirði og hyggst leggja starfsstöð sína þar niður. Fyrirtækið var að fullu keypt af Baader á liðnu ári.

Miklar tafir á sorphirðu í Reykjavík ættu senn að verða á enda, en tunnuskiptum í borginni á að ljúka eftir tvær vikur.

Lögregla rannsakar íkveikju á einkabíl lögregluþjóns sem mögulega hefndaraðgerð glæpalýðs.

Reykjavíkurmaraþonið var hlaupið í 38. sinn og tóku þúsundir þátt í því.

Menningarnótt var í Reykjavík og fór venju samkvæmt fram að degi til og sæmilega laus við menningu. Hins vegar var flugeldasýningin um kvöldið algert fyrirtak. Um 100 þúsund manns komu í veðurblíðunni, nokkur drykkja í bænum og suðrænn grasilmur í loftinu.

Jarðfræðingar telja að ekki sé langt í að Askja gjósi að óbreyttu.

Mokað var ofan í húsgrunn að baki Stjórnarráðshússins í Lækjargötu og tyrft yfir. Góðir Reykvíkingar vörpuðu öndinni léttar, því þar stóð til að byggja skrifstofuhrúgald, sem hefði kæft eina af fáum sögulegum byggingum landsins.

Í sama mund stofnaði fjármálaráðuneytið fasteignaþróunarfélag um endurgerð friðaðra húsa og frekari nýtingu og verður fróðlegt að sjá hverra frændur og frænkur verða ráðin í þá þægilegu innivinnu.

Vilhjálmur Hjálmarsson arkitekt lést 85 ára.

Stórbruni varð í iðnaðarhúsi við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði, en á daginn kom að fjöldi fólks bjó í húsinu. Enginn varð eldinum að bráð en flest fólkið missti aleiguna.

Marínó Örn Tryggvason lét af störfum sem forstjóri Kviku, en Ármann Þorvaldsson tók við hökli hans.

Hugmyndir eru í dómsmálaráðuneytinu um að tekin verði upp spilakort til þess að tempra veðsjúka. Eflaust mætti láta það ríma við opinbera greiðslugátt, samfélagsbanka og alls konar annað sem ríkisstjórnin vill gera til að dreifa huganum.

Eitthvað mun um að Íslendingar hafi farið í offituaðgerðir erlendis án þess að eiginleg aðgerð hafi verið gerð. Svikahrappar svæfa fólkið og gera á því skurðgöt, en ekki meir og rukka svo offjár.

VR og ASÍ lokuðu reikningum sínum í Íslandsbanka og sögðu bankann aldrei geta gert næga yfirbót fyrir brot við útboð hluta ríkisins í honum. Verkalýðshreyfingin gaf þó til kynna að fjöldauppsagnir gætu verið góð byrjun.

Hiti utandyra í Reykjavík fór yfir 20°C í fyrsta sinn í sumar.

Eiríkur Tómasson útgerðarmaður í Grindavík lést sjötugur.

Samningur Samkeppniseftirlitsins og matvælaráðuneytisins um athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi reyndist rangur. Í honum kemur fram að athugunin sé í samstarfi við sjálfstæðar eftirlitsstofnanir, án samþykkis þeirra.

Víkingur hefur stungið Val af í fótboltanum, svo Valsmenn vilja byggja meira á svæðinu og fórna hluta æfingasvæðis til þess.

Hafin er bygging skýlis utan um nýbyggingu Kársnesskóla í Kópavogi, svo halda megi áfram byggingarframkvæmdum í vetur. Vonast er til þess að þeim ljúki fyrri hluta næsta árs.

Alls hefur 435 hælisbeiðnum Venesúelabúa verið hafnað í ár.

Seðlabankinn sór af sér að eiga minnstu aðkomu að athugun SKE á stjórnenda- og eignatengslum í sjávarútvegi eða að stefnumótun matvælaráðherra.

Erik Figueras Torras forstjóri Mílu sakar Ljósleiðarann, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, um að hafa notfært sér innviði Mílu í heimildarleysi og þannig sparað sér dýrar jarðvegsframkvæmdir.

Skýrsla um hvalveiðar, sem unnin var af rándýru erlendu ráðgjafarfyrirtæki fyrir matvælaráðuneytið, leiddi ekkert nýtt í ljós.

Seðlabankinn hækkaði aðalvexti sína um 50 punkta og eru þeir nú 9,25%. Verðbólgan hefur reynst seigari en vonast var til.

Markmið stjórnvalda um orkuskipti árið 2040 munu ekki nást vegna þess að ekki verður nægileg endurnýtanleg orka til reiðu, að því er fram kemur í raforkuspá Landsnets. Þörf er á fleiri virkjunum.

Könnun Samtaka iðnaðarins bendir til þess að uppbygging á niðurgreiddu leiguhúsnæði sé ekki í samræmi við vilja og væntingar almennings. Þorri fólks vill búa í eigin húsnæði.

Greiðslur matvælaráðuneytisins til Samkeppniseftirlitsins fyrir athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi eru ekki í samræmi við kostnaðaráætlun.

Vaxtahækkanir hafa áhrif á byggingarkostnað, en mikil óvissa er um hve mikið þurfi að byggja. Landsmönnum hefur fjölgað mjög, sérstaklega erlendum borgurum.

Barnaráðherrann Ásmundur Einar Daðason hefur ákveðið að hefja undirbúningsvinnu til að móta reglur um farsímanotkun í grunnskólum.

Verið er að taka í notkun nýja sjúkrabíla í nýjum lit, sem mun gera leikinn „Gulur bíll“ mun auðveldari.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) taka þátt í stefnumótun matvælaráðherra um fiskeldi og leggja áherslu á ábyrgt fiskeldi.

Uppgjör sjávarútvegsfyrirtækja sýndu minni hagnað en áður

Skagfirðingar eiga í vandræðum því þeir eiga orðið í allt of mörgum félagsheimilum. Til stendur að losa eitthvað af þeim eignum, en þó á að halda í menningarhúsið Miðgarð.

Hlutdeild íslenskrar tónlistar í sölu tónlistar hér á landi heldur áfram að rýrna.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að þenslan hefði snarbætt afkomu ríkissjóðs. Alveg um 200 milljarða króna, sem munar um í fjárlögum.

Í sama mund sendi fjármálaráðherra Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra tóninn fyrir að hafa ekki náð að tjónka við verðbólguna.

Af því tilefni kynnti Bjarni stórfelldar hagræðingaraðgerðir ríkisins, sem gætu dregið úr ríkisútgjöldum um allt að 17 milljarða króna, sem er rúmt 1% ríkisútgjalda. Ekki er ljóst hvort ný „þjóðarópera“ eða „þjóðarhöll“ er þar inni, en gamansemi ráðherrans er við brugðið.