Afturendar eru í tísku og vekja því vitanlega athygli fjölmiðla. Í júní síðastliðnum kepptu ungar konur í Sao Paulo í keppninni Ungfrú afturendi.
Afturendar eru í tísku og vekja því vitanlega athygli fjölmiðla. Í júní síðastliðnum kepptu ungar konur í Sao Paulo í keppninni Ungfrú afturendi. — AFP/Nelson Almeida
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölmiðlar leitast stöðugt við að endurspegla hina ýmsu strauma í þjóðfélaginu. Í þeirri viðleitni sýna þeir oft dágóðan slatta af hugmyndaríki. Stundum komast í fréttir hlutir sem maður hefur aldrei nokkurn tímann leitt hugann að

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Fjölmiðlar leitast stöðugt við að endurspegla hina ýmsu strauma í þjóðfélaginu. Í þeirri viðleitni sýna þeir oft dágóðan slatta af hugmyndaríki. Stundum komast í fréttir hlutir sem maður hefur aldrei nokkurn tímann leitt hugann að. Eins og þegar fjölmiðill birtir frétt um flottustu rassana og með fylgja myndir af þessum líkamshluta nokkurra einstaklinga. Í annarri frétt á öðrum fjölmiðli gefur áhrifavaldur ráð um hvernig eigi að fá stinnan rass og þriðji fjölmiðillinn leitar til einkaþjálfara sem gefur uppskrift að hinum fullkomna rassi.

Aldrei hefur hvarflað að manni að það væri sérstakt markmið í lífinu að skarta sem fullkomnustum rassi. Maður hefur litið á þennan líkamshluta sem fremur ómerkilegan og þess vegna eiginlega aldrei leitt hugann sérstaklega að honum. Maður hefur greinilega verið að misskilja ýmislegt.

Athygli vekur að svo að segja flestir rassar sem komast í fréttir virðast tilheyra sömu stéttinni, það er að segja ungu fólki sem hefur komið sér upp titlinum áhrifavaldur. Helstu skyldur sem fylgja því djobbi eru að vera ungur, þokkalega snotur og hafa mikla ánægju af að sýna sig á myndum. Svo vel vill til að fátt finnst áhrifavöldunum unaðslegra en að sýna sig á vel fótósjoppuðum myndum og þar er afturendinn iðulega fyrirferðarmikill. Með árunum mun hann vitanlega láta á sjá og skorpna, sem kann að skapa vissa þjáningu í lífi þeirra sem sérstakt dálæti hafa á þessum líkamshluta sínum.

Fjölmiðlar eru ekki bara iðnir við að beina athygli að hinu líkamlega heldur fylgjast þeir einnig vel með skapferli fólks og upplýsa vandlega um það. Einhver hefði kannski talið að það að opinbera fýlu sína og geðvonsku þætti ekki heppilegt til eftirspurnar. Það er misskilningur. Þeir sem nöldra hátt fá athygli fjölmiðla og andvarpa um leið feginsamlega. Loksins er einhver sem virkilega skilur þá.

Hér áður fyrr hafði fólk ekki marga möguleika á að koma hversdagslegu nöldri sínu á framfæri, þannig að það komst aldrei almennilega til skila öðruvísi en í samræðum manna á milli. Sumir skrifuðu þó lesendabréf í dagblöð og komu stoltir geðvonsku sinni á framfæri við alþjóð.

Nú eru svo að segja allir á samfélagsmiðlum þar sem þeir tjá sig um hvað sem er. Oft um það sem aflaga fer og er venjulega talið öðrum að kenna. Flugferð er aflýst vegna veðurs eða bilunar í vél. Viðkomandi er ósáttur og hellir sér yfir flugfélagið og greinilegt er að hann vill allra helst fá skaðabætur. Einhver þarf að bíða of lengi í flugrútunni áður en haldið er af stað frá Keflavík og skammast út í fyrirtækið og segir það ömurlegt. Enn annar var á leið út á land í rútu og fékk sér kók og pylsu í Staðarskála þegar rútan stoppaði þar í tíu mínútur, en gáði ekki að tímanum og sá svo allt í einu rútuna leggja af stað án hans. Á Facebook segir viðkomandi bílstjórann vera illa innrættan vitleysing.

Fréttir eins og þessar slá í gegn á vefmiðlum fjölmiðla. Fólk vill lesa um reitt og svekkt fólk sem hefur orðið fyrir hversdagslegum vonbrigðum, eins og það sjálft. Fólk á auðvitað að vita að enginn ræður við veðrið eða óvæntar bilanir. Það á líka að vita að bið í flugrútu flokkast í hinu stóra samhengi hlutanna einungis sem tímabundin og smávægileg óþægindi. Og manneskja sem gáir ekki að tímanum þegar bílstjóri tekur smápásu getur engum nema sjálfri sér um kennt ef hún missir af rútunni. Sumt í lífinu er nefnilega manni sjálfum að kenna. Ýmislegt annað flokkast síðan sem óþægindi sem óhjákvæmilega fylgja lífinu. Það er ekkert verra að taka þeim óþægindum af eins mikilli stóískri ró og hægt er. Æsingur skapar einungis vanlíðan. Svo er ekki eftirsóknarvert að komast í fréttir vegna æsings þótt nöldrurunum finnist það ákveðinn stökkpallur.

Í samtíma þar sem allir hafa rödd fara litlir hlutir að skipta máli. Þreytandi nöldur breytist í frétt þrungna merkingu og rassar fá mun meira vægi en þeir eiga skilið.