Orkuskipti Alls 110 stæði eru í bílakjallara. Hleðslustöðvum mun fjölga þegar hann verður stækkaður síðar.
Orkuskipti Alls 110 stæði eru í bílakjallara. Hleðslustöðvum mun fjölga þegar hann verður stækkaður síðar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Krafan um sjálfbærni birtist með ýmsum hætti á Dalvegi 30 en verið er leggja lokahönd á húsið. Byggingin er um 10.500 m². Þar af eru 9.250 m² ofanjarðar. Undir húsinu er um 3.400 m² bílakjallari með um 110 stæðum

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Krafan um sjálfbærni birtist með ýmsum hætti á Dalvegi 30 en verið er leggja lokahönd á húsið. Byggingin er um 10.500 m². Þar af eru 9.250 m² ofanjarðar. Undir húsinu er um 3.400 m² bílakjallari með um 110 stæðum.

Jón Ingi Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Íþöku fasteignafélagi, sýndi Morgunblaðinu húsið í vikunni.

Hann vakti athygli á orkuþörf rafbíla í húsinu.

„Ef öll stæðin verða með hleðslustöð gæti full notkun stöðvanna samsvarað rúmlega hálfri orkuþörf hússins,“ sagði Jón Ingi, en þær verða bæði í kjallara og ofanjarðar, en byrjað verður með 42 hleðslustöðvar.

Sorpið flokkað og skráð

Því næst lá leiðin í sorpgeymslu hússins. Athygli vakti að þar eru fimm lúgur fyrir sorp.

„Þetta kallast snjallsorp en allt sorp verður flokkað í fimm flokka: pappír, pappa, plast, almennt og lífrænt. Lúgur verða opnaðar með aðgangskorti og allt sorp flokkað, vigtað og skráð á viðkomandi fyrirtæki,“ sagði Jón Ingi.

Að því loknu voru búningsklefar hússins skoðaðir en þar eru þrír klefar. Einn fyrir konur, einn fyrir karla og einn fyrir aðra sem óska eftir lokuðum klefum. Klefarnir eru búnir þurrkskápum til að þurrka hjólreiðaföt. Hjólastæði verða við enda bílakjallarans.

Fram kom í ViðskiptaMogganum að Reiknistofa bankanna verður einn stærsti leigutakinn í húsinu. Á það þátt í því að húsið er með varaaflstöð sem fer í gang í rafmagnsleysi. Hún er dísilknúin. „Stöðin er með olíutank og það er annar úti og auðvelt að bæta á hann, ef keyra þarf stöðina til lengri tíma. Nú vilja öll fyrirtæki vera sjálfbær og með grænar lausnir og fá þannig hagstæðari fjármögnun og vottun á reksturinn. Fyrirtækin vilja vera vottuð græn. Meðal annars þarf að uppfylla kröfur um orkuskipti og öll ljós þurfa að vera ljósdíóður (led-ljós). Flokka þarf allt rusl og fylgjast þarf með allri orkunýtingu í húsinu. Það þarf að passa upp á alla þætti, tryggja að það sé engin sóun og að loftskipti og hljóðvist sé í góðu lagi og að húsið sé eins umhverfisvænt og kostur er.

Reksturinn vottaður

Dalvegur 30 verður umhverfisvottuð bygging með BREEAM In-Use-vottun. Þá er reksturinn á húsinu vottaður og leigjendur geta kallað eftir öllum tölum um eyðslu og fleira og hægt er að fylgjast með rekstrinum og tryggja að hann sé innan eðlilegra marka. Kerfin láta vita um leið ef það til dæmis bilar ofnloki á einum ofni og það fer að renna heitt vatn af hæðinni. Þá pípir kerfið og lætur vita að eitthvað sé bilað. Það á engin sóun að eiga sér stað. Með þessari vottun fá eigendur, leigjendur, umsjónarmenn fasteigna og fjárfestar aðferð til að meta áhrif og sjálfbærniárangur bygginga sinna og ákvarða út frá því hvar tækifæri liggja til úrbóta,“ segir Jón Ingi.

Deloitte er stærsti leigutakinn í húsinu með 4. og 5. hæð, þá Reiknistofa bankanna með 3. hæð og dk hugbúnaður og Almenni lífeyrissjóðurinn eru á 2. hæð. Á jarðhæð er Glenn's Kitchen með mötuneyti hússins, húsgagnaverslunin Vest, verslanirnar Belladonna og Sassy og hárgreiðslustofan Kompaníið.

Höf.: Baldur Arnarson