Ólafur Halldórsson
Ólafur Halldórsson
Enn hrökkva Reykvíkingar upp með andfælum. Nú við neyðaróp frá flugrekstraraðilum sem segja að fjarlægja beri stóran hluta af trjágróðri í Öskjuhlíð.

Ólafur Halldórsson

Núna í ágústmánuði árið 2023 hrukku Reykvíkingar og aðrir landsmenn upp við að Bubbi Morthens lét dynja á þeim skammir fyrir undirlægjuhátt við tiltekna erlenda tungu. Í ársbyrjun árið 1848 fengu þeir álíka hirtingu frá Stefáni Gunnlaugssyni bæjarfógeta. Hann var ákveðinn í að hefja móðurmálið til vegs í Reykjavík og lét hengja upp svohljóðandi tilkynningu og lesa í heyranda hljóði: „Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi.“ Stefán skrifaði einnig bréf þar sem stendur meðal annars: „Auglýsing sú, er fyrir skemmstu var héðan birt um brúkun íslensku tungunnar hér í Reykjavík, var einkanlega gefin út í þeim tilgangi að hvetja hina íslensku staðarbúa til að þeir framar en hingað til hafi við íslensku í stað málleysu blendings íslenskrar og danskrar tungu …“

Og nú hrökkva Reykvíkingar enn upp með andfælum. Í þetta sinn við neyðaróp frá flugrekstraraðilum sem segja að fjarlægja beri stóran hluta af trjágróðri í Öskjuhlíð til að auðvelda flugtak og lendingu á bitbeininu Reykjavíkurvelli. En hvers vegna ekki að lúffa fyrir staðreyndum og flytja völlinn? Ýmsir sérfræðingar hafa sem kunnugt er lengi bent á Löngusker við Reykjavík sem besta kost fyrir flugvöll, vegna t.d. veðurfars og nálægðar við miðborgina. Þá værum við enn með flugvöll við miðborgina, og auk þess varla hætta á að farið verði að byggja íbúðahverfi í kringum hann! Ég bendi á Trausta Valsson, arkitekt og skipulagsfræðing, og hvorki meira né minna en samráðsnefnd samgöngumálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar, sem var skipuð árið 2005 af Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra. Nefndin skilaði af sér skýrslu árið 2007. Einkunnagjöf vinnuhópsins um framtíðarflugvöll fyrir höfuðborgarsvæðið var í stuttu máli sú að eina flugvallarstæðið sem fékk bestu meðmæli í öllum tíu atriðum sem voru metin var Löngusker. En nú er eins og Löngusker hafi aldrei verið í umræðunni, bara Hvassahraun. En ýmsir setja spurningarmerki við Hvassahraun. Til dæmis Kjartan Magnússon borgarfulltrúi, eða eins og hann segir: „Atvinnuflugmenn hafa einnig um langa hríð varað við flugvelli í Hvassahrauni vegna lélegra aðflugsskilyrða og sviptivinda.“

Annars konar loftför en hefðbundnar flugvélar eru nú orðin fýsilegur kostur í innanlandsflugi. Til eru farþegaþyrlur sem taka a.m.k. tvo tugi farþega, en þyrluaðstaða sem tekur lítið pláss gæti verið þar sem flugstöðin í Reykjavík er nú, inni í „miðri miðborg“. Með aukinni notkun farþegaþyrlna mætti einnig þjónusta flugvallarlausar byggðir víða um landið. Þá má nefna að í þróun eru „Tiltrotor“-farþegavélar (þær hafa lengi verið hluti af loftförum ýmissa herja) sem taka sig lóðrétt á loft og lenda lóðrétt. Þær þurfa sem sagt engan flugvöll fremur en þyrlurnar.

Miðað við núverandi umræðu um mengun andrúmsloftsins þarf ekki að koma á óvart að víða er farið að leggja mengunarskatt á flug. Ekki síst flug á milli staða þar sem annar ferðamáti gæti komið í staðinn með minni mengun og á ekki mikið lengri tíma (t.d. lestir, rafbílar ). Slíkur mengunarskattur gæti dregið úr áhuga á að ferðast með flugi innanlands, bæði vegna kostnaðar og aukinnar vitundar um umhverfismál.

Hitt er annað mál að tímabært er að endurskoða trjávæðingu Öskjuhlíðar. Til að mynda hafa ýmsar minjar verið hálfkaffærðar og gerðar óaðgengilegar með glannalegri gróðursetningu. Nefna má Beneventum, samkomustað pilta úr Lærða skólanum og síðar stað fyrir busavígslur nemenda Menntaskólans við Hamrahlíð, og einnig fjörugrjót í 43 m hæð yfir sjávarmáli frá lokum síðasta jökulskeiðs.

Höfundur er BS í líffræði.

Höf.: Ólafur Halldórsson