Jónas R. Viðarsson segir ýmsum spurningum ósvarað s.s. um hvernig laga þurfi reglugerðir að tæknilegum þáttum sem hafa áhrif á stærð og lengd skipa sem ganga fyrir rafmagni eða metanóli.
Jónas R. Viðarsson segir ýmsum spurningum ósvarað s.s. um hvernig laga þurfi reglugerðir að tæknilegum þáttum sem hafa áhrif á stærð og lengd skipa sem ganga fyrir rafmagni eða metanóli. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á undanförnum árum hafa umhverfisáhrif sjávarútvegsins fengið æ meiri athygli og hafa áhugaverðar hugmyndir komið fram um hvernig gera mætti greinina enn umhverfisvænni. Hinn 13. september verður haldin ráðstefna á vegum AG-Fisk, sem er starfshópur…

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Á undanförnum árum hafa umhverfisáhrif sjávarútvegsins fengið æ meiri athygli og hafa áhugaverðar hugmyndir komið fram um hvernig gera mætti greinina enn umhverfisvænni.

Hinn 13. september verður haldin ráðstefna á vegum AG-Fisk, sem er starfshópur undir norrænu ráðherranefndinni, þar sem flutt verða erindi um nýjustu lausnir og rannsóknir sem snerta annars vegar umhverfisáhrif sjávarafurða og hins vegar orkuskipti í greininni. Ráðstefnan er haldin í Hörpu og er öllum opin, en skráning fer fram í gegnum facebooksíðu viðburðarins.

Jónas R. Viðarsson er sviðsstjóri verðmætasköpunar hjá Matís og stýrir hann viðburðinum fyrir hönd AG-Fisk: „Ísland fer um þessar mundir með formennsku í norrænu ráðherranefndinni og hafði matvælaráðuneytið frumkvæði að því að velja nokkur verkefni sem sett yrðu í forgang hjá AG-Fisk á meðan Ísland leiðir starfið, en AG-Fisk er samráðsvettvangur um sjávarútvegsmál sem starfar þvert á öll Norðurlöndin,“ útskýrir Jónas.

Fiskurinn er með forskot

Vitundarvakning hefur átt sér stað bæði hjá neytendum og í atvinnulífinu um mikilvægi sjálfbærrar matvælaframleiðslu og segir Jónas að þar hafi sjávarútvegur greinilegt forskot. „Staðan er sú að það eru fá matvæli sem hafa jafn lítil umhverfisáhrif og fiskur sem veiddur er úr sjálfbært nýttum stofnum, en svo virðist sem hinn almenni neytandi hafi allt aðra ímynd af vörunni. Ekki er nóg með að umhverfisáhrifin séu lítil í samanburði við flesta aðra prótínframleiðslu, heldur halda þau áfram að minnka, þökk sé tækniframförum og vegna aðgerða sem hafa hjálpað til að styrkja villta fiskistofna á norðurslóðum,“ útskýrir hann. „Ný og betur hönnuð skip hafa verið tekin í notkun sem eyða minna af olíu við veiðarnar og eins hefur tekist að draga úr orkunotkun við vinnslu og flutninga á fiskinum.“

Á ráðstefnunni verður farið um víðan völl og segir Jónas að tilgangurinn sé að veita bæði sérfræðingum og almenningi gott yfirlit yfir sviðið. Erindin fjalla m.a. um hönnun skipa, véla og veiðarfæra, orkuskipti og stöðu umhverfismála í norrænum sjávarútvegi. Segir hann ráðstefnuna kjörið tækifæri fyrir aðila sem láta sig sjávarútveginn eða orkumál varða til þess að koma saman, efla tengslanet sitt, ræða stöðuna á málaflokknum eins og hún er í dag, og koma auga á tækifærin sem liggja í framtíðinni.

Af erindum sem Jónas bíður sérstaklega spenntur eftir að heyra má nefna fyrirlestur Daða Más Kristóferssonar prófessors við Háskóla Íslands en hann hefur rýnt í hvernig íslenskum sjávarútvegi hefur tekist að minnka olíunotkun á hvert veitt kíló af fiski á undanförnum 40 árum.

„Einnig taka til máls sérfræðingar sem rannsakað hafa áhrif togveiðarfæra á sjávarbotninn, en rannsóknir benda til að þessi tegund veiða kunni að valda raski sem losar koltvísýring sem ella héldist bundinn neðansjávar. Var því meðal annars haldið fram í vísindagrein sem kom út í tímaritinu Nature að koltvísýringslosunin sem af þessu hlýst væri sambærileg við losun allra flugvéla á heimsvísu,“ segir Jónas. „Er þó ekki samhljómur á meðal vísindamanna um hvort togveiðarnar hafi svona mikil áhrif eða hvaða breytingar má gera til að lágmarka rask á sjávarbotni enn frekar og munu öll sjónarmið fá að heyrast á ráðstefnunni.“

Verður rafmagn eða metanól ofan á?

Orkuskipti í sjávarútvegi eru mjög áhugavert umræðuefni en þar er ýmsum spurningum enn ósvarað s.s. um hvort fiskiskip framtíðarinnar geti notað rafmagn, vetni eða metanól sem eldsneyti, og hvernig laga þarf innviði og regluverk að notkun nýrra orkugjafa. „Á ráðstefnunni verður farið yfir reynslu norskra stjórnvalda sem ráðist hafa í alls kyns tilraunaverkefni og verða gestir fræddir um hvað hefur gefist vel og eins hvað hefði mátt betur fara. Einnig fáum við til okkar fulltrúa SFS sem skoðar hvaða stefnubreyting gæti þurft að eiga sér stað hjá stjórnvöldum til að skapa réttu hvatana til að greiða fyrir orkuskiptum í greininni.

Minnir Jónas á að áskoranirnar séu ekki bara tæknilegs eðlis heldur gæti þurft að bæta við undanþáguákvæðum í lög um fiskveiðar sem tækju tillit til þeirra breytinga sem gera þarf á hönnun skipa til að nota umhverfisvæna orkugjafa. „Sem dæmi þá hefur metanól helmingi minni orkurýmd en olía sem þýðir að leggja þarf þeim mun meira pláss um borð í skipum undir eldsneytistanka. Þar sem gerðar eru skýrar stærðar- og lengdarkröfur til skipa svo þau fái aðgang að gjöfulum fiskimiðum nálægt landi er hætt við að skip sem gengi fyrir metanóli þyrfti annaðhvort að vera stærra en sambærileg skip með hefðbundna vél eða hafa minna pláss í lestinni fyirr aflann.“

Segir Jónas áhugavert að fylgjast með þróuninni og eru m.a. þreifingar í gangi um hvort nýta megi tvinn-vélar í dagróðrarbátum. „Ákvæði hefur verið bætt inn í reglur um strandveiðar sem heimila bátum sem nota orkusparandi lausnir að veiða ögn meira, en það er mat flestra að þau viðbótarkíló sem sjómenn fá að koma með í land nægi engan veginn til að vega upp á móti kostnaðinum við fjárfestingu í nýrri aflrás,“ útskýrir hann. „Þá eru nú þegar dæmi um að íslensk útgerðarfyrirtæki hafi lagt í umtalsverðan kostnað til að prófa nýja orkugjafa, Útgerðarfélag Reykjavíkur hefur sem dæmi farið í hundraða milljóna króna fjárfestingar við að breyta togara sínum svo að hann geti gengið fyrir metanóli. Orkusjóður styður verkefnið en þó er um að ræða risavaxna fjárfestingu fyrir fyrirtækið og virðingarvert framtak.“

Loks segir Jónas að skoða þurfi orskuskiptin með tilliti til samkeppnishæfni sjávarútvegsins en það getur sett greinina í erfiða stöðu ef umhverfisvænu orkugjafarnir valda útgerðum kostnaðarauka. „Það er alls ekki sjálfgefið að grænu orkugjafarnir verði ódýrari en olían, og jafnvel líklegra en ekki að þeir verði dýrari þegar upp er staðið.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson