Ríkisfjármál Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra er nýjasti gestur Dagmála. Þátturinn er aðgengilegur á mbl.is.
Ríkisfjármál Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra er nýjasti gestur Dagmála. Þátturinn er aðgengilegur á mbl.is.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir brýnt að ná betri tökum á ríkisfjármálunum á komandi misserum enda sé ríkið enn að safna skuldum. Hins vegar sé staðan mun álitlegri en við blasti þegar ríkissjóður kom stórskuldugur út úr heimsfaraldri kórónuveirunnar

Dagmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir brýnt að ná betri tökum á ríkisfjármálunum á komandi misserum enda sé ríkið enn að safna skuldum. Hins vegar sé staðan mun álitlegri en við blasti þegar ríkissjóður kom stórskuldugur út úr heimsfaraldri kórónuveirunnar. Bjarni Benediktsson er nýjasti gestur Dagmála en hann settist niður og ræddi nýjar tillögur sem hann hefur kynnt sem m.a. miða að því að ná fram auknu aðhaldi í ríkisrekstrinum sem nemur 17 milljörðum króna á komandi ári.

Algjör umskipti að verða

„Við sjáum fram á það að uppgjörið fyrir árið í ár verður enn betra en við áður sáum fyrir. Árið í fyrra hefur greinilega líka farið fram úr væntingum,“ segir Bjarni.

Í fjárlögum fyrir árið 2022 var gert ráð fyrir að hallinn af rekstri ríkissjóðs yrði 186 milljarðar króna. Bendir Bjarni á að uppfært mat hafi gert ráð fyrir afkomubata sem næmi 60 milljörðum og hallinn yrði þá rúmir 120 milljarðar. Nú segir hann að drög að ríkisreikningi liggi fyrir og niðurstaðan gæti orðið sú að halli síðasta árs næmi 80 milljörðum og þar með að frumjöfnuður hafi reynst jákvæður. Sömu sögu sé að segja af yfirstandandi fjárlagaári þar sem flest bendi til þess að hallinn af rekstri verði um 100 milljörðum króna minni en gengið hefur verið út frá.

Hann segir ekki útilokað að ríkissjóður verði rekinn með afgangi árið 2025, en áætlanir höfðu gert ráð fyrir að lengri tíma tæki að ná því jafnvægi í kjölfar skakkafalla síðustu ára.

Bjarni segir að þótt betur ári en áætlanir gerðu ráð fyrir sé mikilvægt að forgangsraða, m.a. svo hægt verði að leggja 50 milljarða í uppbyggingu nýs Landspítala á þessu ári og hinu næsta. Það verði m.a. gert með frekara aðhaldi í ríkisrekstrinum. „Við munum fara fram á aðhald á launaliðnum og við þurfum að ná um fimm milljarða sparnaði í launakostnaði hjá ríkinu. Að hluta mun það geta náðst með því að ráða ekki í stöður sem losna en í einhverjum tilvikum þarf að fækka stöðugildum. Þó erum við að hlífa því sem við köllum framlínustörf, t.d. fólk sem er í framlínu heilbrigðisþjónustunnar,“ segir Bjarni og bendir á að hið sama eigi við um skólakerfið og löggæsluna.

„Við ætlum líka að gera viðbótaraðhaldskröfu á ráðuneytin og slá á frest verkefnum. Draga úr möguleikum ráðuneytanna til þess að fara í ný útgjöld eins og við höfðum áður áformað. Þar ætlum við að spara átta milljarða á næsta ári. Sömuleiðis erum við að fara í reksturinn. Við þurfum einfaldlega að gera meira í rekstrinum, þ.e.a.s. betri nýting húsnæðis, m.a. á sameiginlegum vinnurýmum,“ segir Bjarni og segir að fleira sé undir.

„Ef við myndum ná 2% hagræðingu í innkaupum ríkisins þá væru það fjórir milljarðar því heildarinnkaupin eru um 200 milljarðar. Allt þetta erum við að taka upp á borðið.“

Þegar gengið er á Bjarna með hversu mörg stöðugildi aðhaldskrafan kunni að hafa áhrif á segir hann að það liggi ekki endanlega fyrir. Spurður hvort það geti verið um 400 stöðugildi segir hann að aðhaldið gæti numið allt að þeim fjölda.

Allir sammála um frekari sölu

Spurður út í hvort haldið verði áfram með sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka á nýju ári er Bjarni skýr með vilja sinn í þeim efnum. Ljóst sé að ríkissjóður fái ekki alla þá fjármuni sem væntingar stóðu til út úr sölu bankans á þessu ári. Það sé hins vegar gott að sjá að afkomubatinn sé svo sterkur að jafnvel þótt söluferlið frestist þá sé lánsfjárþörf ríkisins minni en gert var ráð fyrir miðað við hnökralaust framhald söluferlisins.

„Þegar ég ræði þetta við samstarfsmenn mína í ríkisstjórninni, forystumenn hinna flokkanna, þá finn ég engan bilbug á neinum um að við eigum að vinna áfram að því að losa um eignarhaldið. Við erum hins vegar ekki enn búin að botna það endanlega með hvaða aðferðafræði það verður gert en það eru allir sammála um að við eigum að gera það með sem opnustum hætti þannig að allir ættu jafnan aðgang að því að vera með og svo framvegis. Draga lærdóm af því sem gagnrýnt hefur verið við síðustu sölu en það er enginn að hrökkva frá því að það sé rétt að losa um eignarhaldið.“

Borgarlínan út af sporinu

Bjarni segir að það sé stórt verkefni fram undan og mikilvægt að auka fjárfestingu í samgönguinnviðum. Spurður út í framtíð borgarlínunnar segir hann óljóst með framtíð verkefnisins.

„Ef verkefnið snerist um það sem við töldum að það snerist um árið 2019 þá væri það leysanlegt. En það er smám saman að koma í ljós að það er verulega vanáætlað hvað þyrfti til að framkvæma það sem menn voru að setja sér sem markmið. Slegið var lauslega á einstaka framkvæmdir og stokkurinn við Sundabrautina á Sæbrautinni stórkostlega vanáætlaður eins og hefur komið fram. En það er svo margt annað í þessu sem á eftir að reynast miklu, miklu dýrara en menn vonuðust til á sínum tíma. Og ég er ekki bara að tala um verðlagsuppfærslur frá 2019 heldur er ég að tala um kostnaðarmatið í dag. Þetta eru slíkar tölur að fyrir mér þarf að endurskoða allar forsendur fyrir þessu samkomulagi.“

Þannig að staðan í dag er sú að það er ekki til peningur fyrir þessu?

„Það er langt frá því að fjármálalegar forsendur höfuðborgarsáttmálans geti gengið upp. Það er mjög langt frá því.“

Höf.: Stefán E. Stefánsson