Innrás Bandarískar hersveitir sjást sækja í átt að Iejima-eyju í apríl 1945. Í skipunum eru m.a. landgönguliðar.
Innrás Bandarískar hersveitir sjást sækja í átt að Iejima-eyju í apríl 1945. Í skipunum eru m.a. landgönguliðar. — Ljósmynd/Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna
Mikil leit mun hefjast í haust á japönsku eynni Iejima norðvestur af Okinawa, að föllnum hermönnum frá tímum síðari heimsstyrjaldar. Að verkefninu koma m.a. fulltrúar japanska heilbrigðisráðuneytisins og verður þungamiðja leitarinnar norðaustur af fjallinu Gusuku

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Mikil leit mun hefjast í haust á japönsku eynni Iejima norðvestur af Okinawa, að föllnum hermönnum frá tímum síðari heimsstyrjaldar. Að verkefninu koma m.a. fulltrúar japanska heilbrigðisráðuneytisins og verður þungamiðja leitarinnar norðaustur af fjallinu Gusuku. Mun leitin að líkindum hefjast eigi síðar en í nóvember næstkomandi. Greint er frá þessu í hermiðlinum Stars and Stripes, sem starfar með heimild bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Pentagon.

„Iejima var vettvangur mikilla bardaga í síðari heimsstyrjöld. Og um langt skeið höfum við leitað að jarðneskum leifum á eynni,“ hefur hermiðillinn eftir talsmanni heilbrigðisráðuneytisins japanska.

Talið er að finna megi mikið hellakerfi norðaustur af Gusuku sem japanskir hermenn nýttu í bardögum sínum við sveitir bandarískra landgönguliða. Finni leitarmenn inngangsop að þessu kerfi er vonast til að hægt verði að endurheimta jarðneskar leifar yfir 100 hermanna sem allir féllu í apríl 1945.

Fólk hefur séð vísbendingar

Nærri áratugur er liðinn frá því að fyrstu vísbendingar fundust um hellakerfið. Var kerfisins getið í gömlum og rykföllnum skjölum hersins á þjóðskjalasafni Bandaríkjanna. Kemur þar m.a. fram að 306. fótgönguliðasveit hafi dagana 15.-24. apríl 1945 barist af mikilli hörku við sveitir Japana, u.þ.b. 1 km norðaustur af fjallinu Gusuku. Segja skjölin 106 japanska hermenn hafa fallið í bardaganum. Skömmu eftir að þessar upplýsingar komu í ljós var ákveðið að hefja leit, en japönsk stjórnvöld settu leitarmönnum stólinn fyrir dyrnar. Nú stefnir hins vegar á ný í formlega leit.

Á eyjunni Iejima búa alls um 4.300 manns og hafa einhverjir íbúanna orðið varir við hellakerfið í gegnum árin. Þannig eru til hinar og þessar sögur um hugsanleg inngangsop og óljósar lýsingar á hlutum sem gætu verið lofttúður fyrir neðanjarðarbyrgi eða -göng.

Alls féllu yfir 2.000 japanskir hermenn á Iejima og um 1.500 almennir borgarar. Bandaríkin misstu um 200 hermenn í sókn sinni þar.

Höf.: Kristján H. Johannessen