Kærleikskettir Gestur í Tívolí myndar verk eftir Auði Lóu.
Kærleikskettir Gestur í Tívolí myndar verk eftir Auði Lóu. — Morgunblaðið/Einar Falur
Annað árið í röð hefur verið sett upp sýning á verkum samtímalistamanna í hinum sívinsæla Tívolígarði í Kaupmannahöfn og stendur hún í mánuð, til 24. september. Sýnd eru verk eftir 17 listamenn sem vinna með galleríum sem sýna á…

Annað árið í röð hefur verið sett upp sýning á verkum samtímalistamanna í hinum sívinsæla Tívolígarði í Kaupmannahöfn og stendur hún í mánuð, til 24. september. Sýnd eru verk eftir 17 listamenn sem vinna með galleríum sem sýna á CHART-myndlistarkaupstefnunni, afar ólík verk sem sett eru upp hér og þar í garðinum, í blómabeðum, á grasflötum, eitt er úti í tjörn og þá byggir eitt á því að gestir taki sér far með rússíbananum og er mynd af farþegum felld inn í sérstakan ramma sem hannaður er af hinum sænska listamanni Andreas Eriksson, en verk eftir hann hafa verið sýnd á Kjarvalsstöðum og í i8 galleríi.

Sumir listamannanna sem eiga verkin í Tívolí eru allþekktir, eins og hinn þýski Jonathan Meese og hin svissneska Sylvie ­Fleury. Flestir listamannanna eru norrænir og þar á meðal Auður Lóa Guðnadótir sem er á mála hjá galleríinu Þulu. Verk hennar nefnist Killing kærlighed upp á dönsku og eru það nokkrir skúlptúrar úr máluðum pappamassa sem er komið fyrir í útstillingagluggum nærri skotbökkum í skemmtigarðinum og tuskudýrum sem hægt er að vinna þar í verðlaun.

„Það er vitaskuld mjög skemmtilegt að fá tækifæri til að sýna verk í Tívolí – ég vann þau öll sérstaklega með Tívolí í huga, segir Auður Lóa um kettlingaskúlptúrana. Hún segir verkin byggja á gömlum póstkortum –og mig langaði að gera kitsch-kettinum hátt undir höfði“, segir hún brosandi.