Skólastofa „En kennari“
Skólastofa „En kennari“ — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kennari: Jæja, krakkar mínir. Mig langar að gera eitthvað skemmtilegt í dag. Ég ætla að fá ykkur til að „taka saman“ fyrstu þrjár ljóðlínurnar úr Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar, þ.e

Tungutak

Baldur Hafstað

hafstad.baldur@gmail.com

Kennari: Jæja, krakkar mínir. Mig langar að gera eitthvað skemmtilegt í dag. Ég ætla að fá ykkur til að „taka saman“ fyrstu þrjár ljóðlínurnar úr Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar, þ.e. að setja þær í eðlilega orðaröð til að merkingin verði alveg skýr.

Nemandi 1: Bíddu aðeins, kennari. Hefurðu ekki litið á samfélagsmiðlana um helgina? Það er búið að deila broti úr kennslustund í bekknum okkar tæplega 700 sinnum. Það hefur einhver verið með upptökutæki.

Kennari: Ég fer aldrei á svoleiðis miðla. En það er ekki fallega gert að hljóðrita og dreifa orðum annarra án leyfis.

Nemandi 2: Þetta er tveggja ára gömul upptaka og allt í einu komin á fleygiferð um netheima. Við vorum þá að tala um títuprjóna, eða réttara sagt um það hvernig sumir fréttamenn RÚV reyndu að breyta íslensku máli með því að úthýsa málfræðilegu karlkyni fornafna, töluorða og lýsingarorða í kynhlutlausri merkingu: Þeir afkynja og segja: Þrjú voru handtekin fyrir hryðjuverk (reyndar voru það þrír karlar); blind fá sýn; mörg lásu bókina; íbúðir fyrir öldruð.

Nemandi 3: Það eru tvö ár síðan þetta var, en samt eru þar enn fréttamenn sem hafa ekkert hlustað á ábendingar okkar færustu málfræðinga (t.d. Guðrúnar Þórhallsdóttur og Höskulds Þráinssonar). Og nú er eins og fólkinu í landinu sé nóg boðið.

Nemandi 4: Ef 700 manns (meirihlutinn konur) deila á einni helgi tveggja ára gamalli gagnrýni af þessu tagi þá er eitthvað ekki í lagi hjá RÚV. Að minnsta kosti verður slagorð þeirra „útvarp allra landsmanna“ dálítið hjáróma.

Nemandi 5: Já, og höfum líka í huga að fjölmargir vilja ekki stíga fram opinberlega og mótmæla „nýjunginni“ af ótta við að fá yfir sig gusu frá litlu og háværu þrýstihópunum. Ég þekki mörg dæmi um slíkt.

Nemandi 6: Mér fannst dálítið fyndið þegar RÚV auglýsti mánuðum saman að daglegur fréttaþáttur þeirra væri fluttur á „mannamáli“. Skyndilega var þessi auglýsing tekin út. Ég áttaði mig allt í einu á ástæðunni: þessir sömu fréttamenn höfðu lengi reynt að forðast orðið „maður“ í eigin máli en ekki áttað sig á því fyrr en of seint að þeim hafði „sést yfir“ að orðið sem átti að forðast var innifalið í slagorði þeirra.

Nemandi 7. Óneitanlega leyndist stærilæti í þessari auglýsingu: Við tölum „mannamál“ en hinir þá væntanlega ekki.

Kennari: Hægan, hægan. Við skulum vera kurteis og tala um aðra af virðingu.

Nemandi 8: Og gleymum ekki þeim frábæru fréttamönnum (konum og körlum) sem hafa ekki látið undan þrýstingi og þora enn að tala það mál sem þeim var kennt í æsku og taka aldrei eigin máltilfinningu úr sambandi. Húrra fyrir þeim.

Kennari: Ég verð að fresta því að „taka saman“ línurnar úr Gunnarshólma. Svo munið þið eftir að lesa skáldverk í hálftíma á hverju kvöldi. Þið þroskið eigin máltilfinningu með hverri bók sem þið lesið.