Skuggalegt Tumi stefndi ungur að því að verða þverflautuleikari en örlögin gripu inn í og hann sýtir það ekki í dag.
Skuggalegt Tumi stefndi ungur að því að verða þverflautuleikari en örlögin gripu inn í og hann sýtir það ekki í dag. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég byrjaði að semja spunatónlist fyrir sirka sex árum og þessi plata er tilraun til að ramma það tímabil inn,“ segir Tumi Torfason, tónskáld og trompetleikari, sem annað kvöld kl. 20 slær lokatóna Jazzhátíðar í Reykjavík með tónleikum í …

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Ég byrjaði að semja spunatónlist fyrir sirka sex árum og þessi plata er tilraun til að ramma það tímabil inn,“ segir Tumi Torfason, tónskáld og trompetleikari, sem annað kvöld kl. 20 slær lokatóna Jazzhátíðar í Reykjavík með tónleikum í Dómkirkjunni þar sem hann flytur téða plötu í heild sinni ásamt valinkunnum tónlistarmönnum.

„Það hefur verið ótrúlega gaman að telja í þessa músík með alls konar hljóðfæraskipan og alls konar tónlistarmönnum því þarna eru lög fyrir dúó, tríó, kvintett og allt upp í heila stórsveit,“ heldur Tumi áfram og tónlistin á plötunni, sem Morgunblaðið fékk frumeintak af, spannar sannarlega breitt svið og mjög ólíka djassstíla og -strauma sem er óvenjulegt.

„Einmitt, þetta eru tilraunir síðustu ára og ég vildi voða lítið velja og hafna því mér þykir óskaplega vænt um öll þessi lög og allar þessar hljómsveitir sem mér hefur tekist að setja saman,“ segir Tumi og bætir því við að í hans tónlist sé hljóðfæraskipan stór hluti af tónsmíðinni og möguleika á að blanda saman mismunandi hljóðfærum og uppgötva nýjar litasamsetningar. Og þetta megi heyra á plötunni sem kemur formlega út með haustinu.

Ætlaði að verða þverflautuleikari

Tumi gekk eins og margir íslenskir djassarar í FÍH en er svo nýútskrifaður frá Tónlistarháskólanum í Stokkhólmi (KMH) með BA-gráðu í djasstrompetleik. Í vetur hefur hann svo nám við tónskáldabraut LHÍ. Ég spyr hvað hafi valdið því að hann gerði trompetinn að aðalhljóðfæri.

„Ég valdi reyndar þverflautu en hafði trompet til vara. Það kom svo í ljós að skólahljómsveitina vantaði ekki fleiri þverflautur svo ég var settur á trompet. Þetta var mjög örlagaríkt fyrir sjö ára strák,“ segir Tumi og segist einmitt hafa rifjað þessa sögu upp um daginn í samtali.

„Það er nefnilega ákveðinn blástursaðferð til sem er sérstaklega vinsæl í skandinavískum djassi og hún gengur út á að láta trompetinn hljóma eins og þverflautu.“

Áttu við að blásturinn heyrist undir tóninum?

„Einmitt, og býr til svona dularfullan hljóm sem ég reyni stundum að draga fram í mínum trompetleik. Þannig að það hefur greinilega alltaf leynst lítill flautuleikari á bak við trompetleikarann í mér,“ segir hann og hlær.

Tumi segist hafa valið Stokkhólm eftir að hafa gert óformlega skoðanakönnun meðal tónlistarmanna sem hann vissi að höfðu farið til útlanda í framhaldsnám. Þeir sem höfðu sótt KMH gáfu háskólanum fyrstu einkunn, stjórnendur skólans væru metnaðargjarnir og aðstaðan og kennararnir frábærir. Einnig hafi það skipt miklu máli að heyra að þeim hefði öllum liðið vel í skólanum. „Það skiptir öllu máli í tónlist að fólki líði ekki illa og komi vel fram við kollega sína og þetta kom allt á daginn. Ég bjó í Stokkhólmi í þrjú ár og varð ástfanginn af borginni. Í náminu fékk ég líka að spreyta mig á þessu sem ég nefndi um hljóðfæraskipanina. Ég mannaði stórsveit í lokaverkefninu mínu, skrifaði og útsetti fyrir hana verk sem ég byggði á rannsókn minni á Gil Evans, sem vann mikið með Miles Davis. Evans var sífellt að breyta hljóðfæraskipaninni; bæta inn klassískum hljóðfærum taka út hljómahljóðfæri og svo framvegis. Lokaverkið mitt var svo ný tónlist fyrir stórsveit skipaða söngvurum, frönskum hornum, klarinettum, víbrafón og hörpu. Og þetta verk fékk ég að flytja í glæsilegum tónlistarsal við útskriftina.“

Eins og í söngleik

Tumi er eldri bróðir Unu Torfa tónlistarkonu sem kom eins og stormsveipur inn í íslensku poppsenuna fyrir ekki svo löngu og mér leikur forvitni á að vita hvað í þeirra uppeldi gerði það að verkum að þau fetuðu bæði tónlistarbrautina.

„Við ölumst upp á miklu músíkheimili og foreldrar okkar eru mjög söngglatt fólk, enda kynntust þau í Dómkórnum.

Kærasta mín sagði einu sinni að það væri eins og að ganga inn í söngleik að vera boðið í matarboð til foreldra minna. Það er sungið í röddum eftir mat og svona. En já, Una hefur náttúrlega verið í alls konar tónlist alla tíð, söngleikjum, kórum, lagasmíðakeppnum og hefur samið tónlist lengi og er sjálflærð. Nú er hún að springa út og ég hef skemmt mér konunglega að fá að leika með henni á hin ýmsu hljóðfæri á tónleikum og held því vonandi áfram.“

Höf.: Höskuldur Ólafsson