Kveðja Helgi Bjarnason til vinstri þakkar Karli Blöndal fyrir samstarfið og gjöf sem aðstoðarritstjórinn afhenti fyrir hönd Morgunblaðsins.
Kveðja Helgi Bjarnason til vinstri þakkar Karli Blöndal fyrir samstarfið og gjöf sem aðstoðarritstjórinn afhenti fyrir hönd Morgunblaðsins. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Helgi Bjarnason kvaddi samstarfsmenn á Morgunblaðinu í gær eftir að hafa verið blaðamaður Moggans í ríflega 40 ár. Á sama tíma kynnti hann bókina Gleymd skáld og gamlar sögur. Sagnaþættir úr Borgarfirði, sem hann skrifaði og gefur út sjálfur. „Þetta eru frásagnir af fólki og fyrirbærum í Borgarfirði á 19. öld og aðeins fram yfir árið 1900,“ segir höfundurinn. Hann segi frá ævi og örlögum valinna einstaklinga og birti auk þess frásagnir sem hann hafi safnað af fólki í tengslum við ljósmyndir sem danskur landmælingamaður tók af því heima á bæjunum 1910.

Helgi hefur komið að nokkrum bókum og til dæmis sent frá sér Bændur á hvunndagsfötum, I, II og III fyrir mörgum árum, og Við Veggjalaug, sögu Varmalandstorfunnar í máli og myndum, fyrir tveimur árum. Auk þess hefur hann haldið ljósmyndasýningar, síðast sýninguna „353 andlit“ í Safnahúsinu í Borgarnesi fyrir um þremur árum. „Ég hef áhuga á því að kynna mér ýmis málefni í mínu gamla heimahéraði og hef skrifað töluvert í ársritið Borgfirðingabók, en núna ákvað ég að taka skrifin aðeins lengra.“

Óvænt símtal

Helgi rak bókhaldsskrifstofu í Borgarnesi þegar hann fékk símtal frá Morgunblaðinu vorið 1981. „Símastúlkan sagði að Freysteinn Jóhannsson vildi tala við mig og ég hrökk við, velti fyrir mér hvað ég hefði nú gert af mér. Hressileg rödd Freysteins slökkti á öllum efasemdum og hann spurði hvort ég gæti hugsað mér að verða fréttaritari blaðsins í Borgarnesi.“ Hann, Magnús Finnsson og Sigtryggur Sigtryggsson hafi þá verið að taka við fréttastjórninni og verið að endurnýja fréttaritarakerfið, en sjálfstæðir fréttaritarar hafi þá verið mikilvægir við fréttaöflun á landsbyggðinni. „Ég sagðist ætla að skoða málið en svo heimsótti hann mig í byrjun júní. Hann bað mig um að vélrita nokkrar setningar, ég kunni fingrasetningu og hann réð mig á staðnum eftir að hafa sagt að hann notaði bara tvo putta við skrifin. Ég varð fljótlega duglegur við fréttaskrifin, sennilega ofurfréttaritari, þar sem fréttir úr Borgarnesi voru áberandi í blaðinu.“

Ári síðar var Helgi á milli vita. „Þá fékk ég boð um sumarvinnu á Morgunblaðinu og tók því. Þegar ég var að kveðja um haustið spurði Sigtryggur hvort ég væri til í að fylgjast með landbúnaðarmálum á komandi vetri og skrifa fréttir þar um. Ég hafði engan áhuga á þeim málaflokki, en tók hlutverkið samt að mér og hafði ánægju af þeim tengslum sem mynduðust við bændur og forystumenn í landbúnaði. Kom svo aftur í fullt starf sumarið 1983 og hef verið hér síðan.“

Helgi segir mikil viðbrigði að hætta í vinnu sem fastur launamaður en að hann haldi áfram að skrifa. „Tíminn á Morgunblaðinu hefur verið frábær og ég var heppinn að hafa lent óvart inni í þessu áhugaverða starfi sem hefur átt hug minn allan í 42 ár og þrjá mánuði. Ég hef komið að mörgum málum á þessum langa tíma en ég hugsa þó fyrst og fremst með hlýju til samstarfsfólksins í gegnum árin og fólksins sem heldur áfram með keflið.“

Á meðal efnis í nýju bókinni er saga af þremur bræðrum og rímnaskáldum, sem ólust upp á Sleggjulæk, en einn þeirra og dóttir annars fluttu til Kanada og eiga þeir enga afkomendur hér á landi. „Mér fannst ég ekki geta skilið við fjölskylduna á bryggjunni á Borðeyri og fór því vestur um haf og komst í kynni við afkomendur þar,“ upplýsir Helgi og bætir við að þeir hafi stjórnað bænum Rosseau í Ontaríó í Kanada í áratugi. „Gaman var að geta fylgt sögu þeirra áfram.“

Helgi segir að bókina megi rekja til símtals frá frænda hans, Eggerti Ólafssyni frá Kvíum. Hann hafi spurt hvort kona sem drukknaði í Þverá undir lok 19. aldar hafi ekki verið frænka þeirra. Helgi kannaði málið og komist að því að aldni bóndinn hafði rétt fyrir sér. „Ég hélt áfram að grafast fyrir um fleiri sögur af fólki á 19. öldinni og úr varð þessi bók.“

Fjöldi ljósmynda og teikninga prýðir bókina. 532 menn og konur koma við sögu og 125 býli í Borgarfirði eru nefnd. Hún er aðeins til sölu hjá Helga og hægt er að panta hana í síma og á netinu (helgibjarna@gmail.com, á Messenger á Facebook eða í síma 669 1310).

Höf.: Steinþór Guðbjartsson