Ljósmyndir
Eggert Jóhannesson
eggert@mbl.is
Heimaey er ekkert mikið öðruvísi en Akureyri, Ísafjörður eða aðrir bæir á Íslandi; bara fólk, hús og bílar. Það eru úteyjarnar sem gera Vestmannaeyjar að því sem þær eru,“ segir Sigurmundur Gísli Einarsson, iðulega kallaður Simmi, sem búið hefur í Eyjum mestallt sitt líf. „Í úteyjunum finnur maður sterkt fyrir þessari sérstöðu, þessu tímaleysi og þögninni og kemst ekki hjá því að gefa sig náttúrunni á vald. Þarna finnur maður alltaf fyrir vanmætti sínum sem maður andspænis þessum mikla mætti sem náttúra úteyjanna er.“
Fyrr í mánuðinum slóst Eggert Jóhannesson, ljósmyndari Morgunblaðisins, í för með Simma út í eina af þessum úteyjum, Álsey, og fylgdist með lundaveiði, sem lengi hefur verið snar þáttur í menningu Vestmannaeyja. Í seinni tíð hafa þessar veiðar verið takmarkaðar til að vernda stofninn og í ár höfðu menn aðeins frá 1. til 15. ágúst til að sækja sér fugl. „Mér finnst mikilvægt að halda við þessum þjóðlegheitum enda er enginn að fara til að veiða nema bara í soðið fyrir sig og sína,“ segir Simmi.
Menn veiða heldur ekki hvaða fugl sem er. Á þessum tíma er mikið af ungfugli í eyjunum en hann kemur úr hafi og er ekki í varpi. „Öllum fugli með síli er sleppt enda eru bara vanir menn á ferð sem kunna vel til verka,“ segir Simmi, en háfar eru notaðir við veiðarnar. Setið er fyrir fuglinum, þar til hringflug verður og hann er vel við.
Sjálfur hefur hann veitt lunda í meira en fjóra áratugi en þó með tuttugu ára hléi meðan hann starfaði í ferðaþjónustu. Á þeim tíma komst hann ekki frá vegna anna. „Ég byrjaði að veiða aftur fyrir nokkrum árum og það hefur verið gaman að rifja upp gamla takta.”
– Varstu fljótur upp á lagið aftur? Er þetta kannski bara eins og að læra að hjóla?
„Já, blessaður vertu. Það var eins og ég hefði aldrei dottið frá. Þetta er bara vöðvaminni og alveg sama upplifunin og í gamla daga. Þetta er eins og að ferðast aftur í tímann.“
Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja samþykkti að heimila lundaveiði í Vestmannaeyjum téða daga í sumar. Er það sama tímabil og á síðasta ári en árið 2021 var tímabilið lengt um tvo daga. Samkvæmt lögum er veiðitímabil lunda að öllu jöfnu frá 1. júlí til 15. ágúst ár hvert. Í samtali við Morgunblaðið fyrr í sumar sagði Jóna S. Guðmundsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, ákvörðunina hafa verið tekna til þess að viðhalda þeirri menningu sem fylgir veiðinni og úteyjalífi almennt. Hún sagði lundaveiðimenn hafa sýnt ábyrgð í veiðum síðastliðin ár og myndu væntanlega halda því áfram. Jóna sagði veiðarnar hafa verið hóflegar síðustu ár en ítrekaði þó mikilvægi þess að veiðifélögin stæðu áfram vörð um sitt nytjasvæði og hvettu sína félagsmenn til hófsemi.
Simmi segir að fækkað hafi í lundastofninum frá 2006-12 vegna hlýnunar í sjónum en það hafi gengið hægt og rólega til baka, líkt og í gamla daga þegar sama staða kom upp. Menn séu alvanir sveiflum í stofninum. „Nú er varpið í holunum á bilinu 65-67% sem er mjög gott. Hitastigið í sjónum skiptir öllu máli fyrir þennan stofn. Það þurfa að vera nógu stór sandsíli fyrir pysjurnar.“
Simmi og fjölskylda elda lundann alltaf eftir klassískri uppskrift. Fuglinn er reyttur og sviðinn. „Síðan sláum við upp veislu enda er lundinn algjört sælgæti. Maður sér það vel á krökkunum sem hafa aldrei áður smakkað hann. Lundi er eðalfæða enda lifir hann alfarið á ferskum fiski.“
Það tekur um hálftíma að sigla frá Heimaey út í Álsey og ferðin í heild tók að þessu sinni eitt eftirmiðdegi. Tveir voru við veiðarnar en þrír aðrir í föruneytinu, þeirra á meðal téður Eggert ljósmyndari.
– Hvernig stóð hann sig?
„Eggert stóð sig eins og hetja; sprangaði fram og til baka eins og hann hefði aldrei gert annað. Hann er auðvitað sporgöngumaður Sigurgeirs Jónassonar sem myndað hefur mannlíf og fuglalíf hér í Eyjum svo áratugum skiptir – og er hvergi nærri hættur, þó hann nálgist nú nírætt. Þess utan hefur hann í nægu að snúast við að sortera þrjár milljónir ljósmynda. Það er ekki lágur þröskuldur að fara yfir að feta í fótspor hans, en Eggert gerði þetta með mikilli prýði. Hann er velkominn með okkur aftur hvenær sem er.“