Ísland Dagný Brynjarsdóttir ásamt syni sínum Brynjari Atla Ómarssyni á Laugardalsvelli í september í fyrra.
Ísland Dagný Brynjarsdóttir ásamt syni sínum Brynjari Atla Ómarssyni á Laugardalsvelli í september í fyrra. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
England Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Landsliðskonan í knattspyrnu Dagný Brynjarsdóttir á von á sínu öðru barni ásamt eiginmanni sínum Ómari Páli Sigurbjartssyni en settur dagur er 7. febrúar. Fyrir eiga þau soninn Brynjar Atla Ómarsson sem er fæddur í júní 2018.

England

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Landsliðskonan í knattspyrnu Dagný Brynjarsdóttir á von á sínu öðru barni ásamt eiginmanni sínum Ómari Páli Sigurbjartssyni en settur dagur er 7. febrúar. Fyrir eiga þau soninn Brynjar Atla Ómarsson sem er fæddur í júní 2018.

Dagný, sem er 32 ára gömul, er fyrirliði West Ham í ensku úrvalsdeildinni en hún gekk til liðs við félagið frá Selfossi sumarið 2021.

Hún átti frábært tímabil á síðustu leiktíð þar sem hún skoraði sex mörk í 21 deildarleik. Hún var kjörin leikmaður ársins hjá félaginu í lok tímabilsins þar sem West Ham hafnaði í 8. sæti deildarinnar með 21 stig og var á leið inn í sitt fjórða tímabil hjá félaginu þegar hún komst að því að hún væri ólétt.

„Ég sagði alltaf að ég myndi hætta í fótbolta þegar ég yrði ólétt að barni númer tvö en ég sé það ekki gerast núna,“ sagði Dagný í samtali við Morgunblaðið.

„Það er erfitt að koma til baka eftir barnsburð, bæði andlega og líkamlega, og að koma sér aftur í sitt besta form er mikil vinna. Það var ein af aðalástæðum þess að ég talaði um að ég myndi hætta í fótbolta þegar ég yrði aftur ólétt en þetta gerðist mun fyrr en ég hafði reiknað með.

Þetta var ekki planað og um leið og ég komst að því að ég væri ólétt tjáði ég manninum mínum það að ég væri ekki tilbúin að hætta. Mér finnst ég eiga nóg inni, ég er í góðu standi og mér finnst ennþá ógeðslega skemmtilegt í fótbolta og á meðan það er þannig ætla ég að halda áfram,“ sagði Dagný.

Þakklát og spennt

Eins og áður sagði eignaðist Dagný sitt fyrsta barn árið 2018 en hún var þá samningsbundin Portland Thorns í bandarísku atvinnumannadeildinni.

„Það var smá sjokk þegar ég komst að því að ég væri ólétt en á sama tíma er þetta fyrst og fremst kraftaverk líka. Eins og ég hef áður sagt í viðtölum þá grét ég stærstan hluta meðgöngunnar þegar ég var ólétt að syni mínum og viðbrögðin þá voru allt öðruvísi en núna. Auðvitað breytast plönin manns aðeins og allt það en þannig er það líka oft í fótboltanum.

Ég er ótrúlega þakklát og spennt að geta gefið syni mínum lítið systkini, eitthvað sem hann er búinn að vera að bíða eftir ansi lengi. Ég geri mér grein fyrir því í dag að lífið snýst ekki um fótbolta og ég komst svo sannarlega að því eftir að ég eignaðist son minn. Við erum ótrúlega spennt fyrir þessu fjölskyldan og hlökkum til að hitta nýjasta fjölskyldumeðliminn þegar þar að kemur.“

Æfir alla daga

Dagný hefur verið lykilmaður í liði West Ham allt frá því hún gekk til liðs við félagið en það er ljóst að hún mun ekki leika með liðinu á komandi keppnistímabili í ensku úrvalsdeildinni.

„Forráðamenn West Ham tóku ótrúlega vel í fréttirnar um að ég væri barnshafandi. Strax frá fyrsta degi fékk ég mikinn stuðning frá öllum í kringum félagið en ég get alveg viðurkennt það að ég var mest stressuð yfir að segja félaginu frá fréttunum. Ég hef verið í stóru hlutverki hjá þeim, er fyrirliði liðsins, en það er ótrúlega gott að finna fyrir stuðningnum frá þeim í minn garð.

Ég mæti alla daga með liðinu á æfingar en ég mun ekki ferðast með liðinu í útileikina. Ég hef verið að glíma við smá slappleika á meðgöngunni hingað til og langar bílferðir henta mér því ekkert sérstaklega vel. Ég æfi tvisvar í viku, fer í lyftingasalinn þrisvar í viku en það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það hversu lengi ég held áfram að æfa með liðinu. Ég er að gera þetta í annað sinn og þekki betur inn á þetta en áður. Ég þarf að passa mig á því að keyra mig ekki út, svo ég sé vel í stakk búin til þess að sinna syni mínum þegar ég kem heim á daginn, þannig að við látum það bara ráðast hversu lengi ég mun æfa með liðinu og það fer í raun bara allt eftir því hvernig meðgangan gengur.“

Tók fréttunum vel

Dagný verður því ekki með íslenska kvennalandsliðinu á næstunni en Þjóðadeild UEFA hefst í september þar sem Ísland er í riðli með Þýskalandi, Danmörku og Wales.

„Það var erfitt að segja Steina [Þorsteini Halldórssyni] frá fréttunum en ég sagði honum þetta stuttu eftir að ég var búin að segja manninum mínum frá því að ég væri ólétt. Hann tók fréttunum vel og sýndi mér mikinn stuðning. Það er vissulega svekkjandi að missa af Þjóðadeildinni sem er mjög spennandi keppni að taka þátt í en á sama tíma, ef maður horfir á þetta jákvæðum augum, þá var þetta líka góður tímapunktur að einhverju leyti.

Undankeppni EM 2025 hefst á næsta ári og vonandi get ég gert eitthvert gagn þar. Ef okkur tekst að tryggja okkur sæti í lokakeppninni þá væri það sirka einu og hálfu ári eftir fæðingu og þá ætti ég að vera komin aftur í mitt allra besta stand sem eru mjög jákvæðar fréttir.“

Erfitt að kveðja

Dagný á að baki 113 A-landsleiki fyrir Ísland og er í 6.-7. sæti yfir leikjahæstu landsliðskonur Íslands frá upphafi en margir reynslumiklir leikmenn hafa lagt landsliðsskóna á hilluna síðan lokakeppni EM 2022 lauk í Englandi síðasta sumar.

„Þegar margar af reynslumestu leikmönnum liðsins voru að tilkynna að þær væru hættar að leika með landsliðinu þá fann ég það mjög sterkt hjá sjálfri mér að ég var ekki tilbúin að hætta að spila með landsliðinu. Mér finnst ungu leikmennirnir ennþá þurfa á mér að halda og ef við horfum á karlalandsliðið sem dæmi þá sjáum við hvað gerðist þar þegar margir eldri leikmenn hurfu á braut á sama tíma.

Þú þarft reynslumikla leikmenn í bland við þessa yngri og það er mikilvægt fyrir yngri leikmennina að vera með einhverja eldri með sér sem hafa séð og gert þetta áður og geta leiðbeint þeim. Á sama tíma var mjög erfitt að horfa á eftir þeim sem eru horfnar á braut. Ég hef spilað með þessum stelpum í landsliðinu, alveg frá því ég kom fyrst inn í þetta árið 2010 og þetta eru allt mjög góðar vinkonur mínar í dag.“

Framtíðin óljós

Dagný á eitt ár eftir af samningi sínum við West Ham og er óvíst hvað tekur við hjá henni næsta sumar.

„Samningur minn við West Ham rennur út 1. júlí en reglur FIFA kveða á um að þeir þurfi að bjóða mér nýjan samning þar sem ég er ófrísk núna. Það er undir mér komið hvort ég vilji vera áfram eða ekki. Það hafa miklar breytingar átt sér stað hjá liðinu fyrir tímabilið og margir sterkir leikmenn horfnir á braut.

Strákurinn minn er orðinn fimm ára gamall og á einhverjum tímapunkti viljum við flytja aftur heim til Íslands. Á næsta ári verða börnin orðin tvö og baklandið hérna úti er ekki það sama og heima á Íslandi. Ég veit því ekkert hvernig næstu ár líta út en það eina sem ég veit er að ég mun skrifa undir samning einhvers staðar þar sem ég er ekki hætt í fótbolta,“ bætti Dagný við í léttum tón í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason