Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjávarútvegur er ekki bara hluti af sögu sjávarbyggðanna sem nú mynda Fjarðabyggð – hann er hluti af daglegu lífi okkar og undirbyggir lífsgæði íbúa í samfélagi okkar. Nokkur af öflugustu útgerðarfyrirtækjum landsins eru í Fjarðabyggð og má…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Sjávarútvegur er ekki bara hluti af sögu sjávarbyggðanna sem nú mynda Fjarðabyggð – hann er hluti af daglegu lífi okkar og undirbyggir lífsgæði íbúa í samfélagi okkar. Nokkur af öflugustu útgerðarfyrirtækjum landsins eru í Fjarðabyggð og má áætla að hjá þeim starfi yfir 600 manns í samfélagi sem telur í dag um 5.300 íbúa. Það þýðir að í nánast hverri fjölskyldu eru aðilar sem vinna í sjávarútvegi eða fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn á einn eða annan hátt. Þetta geta verið aðilar sem starfa í þjónustu tengdri höfnunum, í veiðarfæragerð, þjónustu iðn- og verktakafyrirtækja eða annarri verslun og þjónustu,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Hún bendir á að Fjarðabyggðarhafnir séu nú næststærsta höfn landsins á eftir Faxaflóahöfnum í heildarútflutningi vara og að stóru hlutfalli af fiskafla íslenska skipaflotans sé landað í höfnum sveitarfélagsins.

„Sjávarútvegur sem atvinnugrein er í stöðugri nýsköpun og tækniþróun sem laðar að sér aukna fjárfestingu og hæfa einstaklinga til Fjarðabyggðar. Það skiptir okkur verulegu máli og leitast greinin eftir því að fá til sín hæfa einstaklinga alls staðar að. […] Það sem okkur skortir helst núna er fleira fólk. Hér eru spennandi störf til staðar og uppbygging húsnæðis hefur verið að aukast víða í sveitarfélaginu sem er ein forsenda þess að fá fleira fólk til starfa. Ég vil hvetja þá sem eru í framsæknum pælingum að horfa til okkar – það er margt spennandi í gangi í Fjarðabyggð,“ fullyrðir Jóna Árný.

Hún segir Fjarðabyggð sem samfélag vera afskaplega stolt af því hve framsækinn og þróaður sjávarútvegurinn í byggðarlaginu er. „Líka hvað fulltrúar fyrirtækjanna eru ávallt reiðubúnir í samtal og samstarf á ýmsum sviðum – hvort sem það er við hugmyndaríka frumkvöðla og fjárfesta eða að taka þátt í fjölbreyttum verkefnum sem unnið er að í samfélaginu. Fleiri atvinnugreinar eru líka að byggjast upp sem telja má til hafsækinnar starfsemi eins og t.d. fiskeldið. Þar er búið að vera heilmikil fjárfesting í innviðum og mannauði undanfarin ár.“

Öflugasta verstöð landsins

„Sjávarútvegur hefur frá ómunatíð verið höfuðatvinnuvegur Grindvíkinga. Útgerð og fiskvinnsla eru kraftmiklar atvinnugreinar og burðarstoðir atvinnulífsins í samfélaginu. Íbúarnir geta þakkað farsæld sína hafinu þó að mikill vöxtur hafi einnig orðið á ýmsum öðrum sviðum, svo sem ferðaþjónustu, líftækni og fiskeldi,“ segir Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur.

„Grindavík er ein öflugasta verstöð landsins. Að meðaltali hefur þar verið landað hartnær 40.000 tonnum á ári undanfarin ár og þar er uppistaðan bolfiskur. Úthlutað aflamark Grindavíkurhafnar hefur verið næsthæst á landinu og höfnin hefur verið í þriðja sæti á landinu yfir verðmæti landaðs afla. Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin Þorbjörn og Vísir eru ekki aðeins með þeim öflugustu hérlendis, heldur einnig á sinn hátt til eftirbreytni ýmsum öðrum þjóðum hvað varðar nýtingu á hráefninu. Þau hafa sýnt mikið frumkvæði í því að fullnýta allan fisk sem að landi kemur og er það til fyrirmyndar. Í Grindavík eru auk þess fleiri sterkir aðilar sem byggja afkomu sína á veiðum og vinnslu. Fiskeldi á landi er enn fremur umfangsmikið í Grindavík og uppi eru áform um stóraukna framleiðslu á næstu árum,“ segir hann.

Hann bendir á að hlutdeild Grindavíkurhafnar í heildarverðmæti landaðs afla íslenskra fiskiskipa hafi farið vaxandi og hæst náð um 10% en íbúar Grindavíkur eru aðeins 1% landsmanna. Við þetta bætast stórfelld áform um eldi í nágrenni bæjarins.

„Í Grindavík er mjög góð höfn sem hefur fyrst og fremst nýst sem fiskiskipahöfn fram að þessu. Verkfræðistofan Efla hefur nýlokið við gerð ítarlegrar skipulags- og þarfagreiningar fyrir Grindavíkurhöfn sem miðar að auknu rekstraröryggi og fjölþættari nýtingu hafnarinnar en verið hefur. Niðurstöðurnar eru þær að stöðugur vöxtur verði í hafnarstarfseminni næsta áratuginn, skipaumferð muni aukast sem og farmflutningar um höfnina. Til að mæta aukinni umferð þarf að ráðast í framkvæmdir og uppbyggingu á innviðum. Í þessu sambandi hafa farið fram viðræður við Vegagerðina um frekari hafnarbætur og varnargarða,“ segir Fannar.