Jane Monckton Smith segir menn sem beita ofbeldi í samböndum ekki munu breytast.
Jane Monckton Smith segir menn sem beita ofbeldi í samböndum ekki munu breytast. — Morgunblaðið/Ásdís
Við þurfum að sjá að ofbeldi er tæki sem ofbeldismenn nota til að stjórna, en hefur ekkert að gera með að missa stjórn á sér.

Við Jane settumst fyrir utan Sjáland í Garðabæ í blíðunni í vikunni enda þurfti hún að anda að sér ferska sjávarloftinu eftir að hafa setið á ráðstefnu allan daginn um nauðungarstjórnun og kvennamorð; nokkuð sem Jane Monckton-Smith veit meira um en aðrir. Ráðstefnan var haldin af Sigurhæðum, sem er þjónusta við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi, í samstarfi við Bjarmahlíð, en margir aðrir komu þar að, eins og dómsmálaráðuneytið og lögreglan. Jane hefur skrifað bókina Dangerous Relationships and How They End in Murder en áður hafði hún starfið mikið með syrgjandi fjölskyldum sem höfðu misst ættingja vegna kvennamorðs, auk þess að vinna með lögreglu að morðmálum.

Snýst ekkert um ást

„Ég byrjaði að sjá mynstur sem mér fannst ekki hafa verið viðurkennd og hóf þá rannsóknir sem endaði með ritgerð um hvaða hegðun karla gæfi til kynna að konan væri í hættu. Áhuginn var svo mikill að ég endaði á að skrifa bók um málið sem væri ekki einungis aðgengileg fræðimönnum, heldur öllum,“ segir Jane og útskýrir að hún skipti hegðunarmynstri ofbeldissambanda í átta stig. Fyrsta stig er þá upphaf ofbeldissambands og á næstu stigum er lýst hvernig sambandið þróast stig frá stigi í átt að auknu ofbeldi. Áttunda stigið er morðið sjálft.

„Ég sá að í svo mörgum tilvikum endaði ofbeldið með morði og öll fylgdu þau sama mynstri. Það var enginn að tala um þetta þannig að ég ákvað að gera það og skoðaði fjögur hundruð kvennamorð og sá að þau fylgdu nánast öll sama mynstrinu,“ segir hún.

„Fólk heldur að þessi morð séu framin í reiðiköstum og séu ástríðuglæpir. Þessi rannsókn mín kollvarpar þeirri hugmynd algjörlega. Auðvitað vissu það einhverjir, en ég fór aðeins aðra leið til að sýna fram á það með skýrum hætti,“ segir Jane og nefnir að nauðungarstjórnun sé alltaf til staðar fyrir morðið og að ofbeldið hefur ekkert að gera með að missa stjórn á skapi sínu.

„Það er alltaf saga um nauðungarstjórnun. Þessir morðingjar eru alltaf haldnir afbrýðisemi og hafa sjúka þörf á að stjórna og eiga maka sinn, svo hann fari aldrei frá þeim. Það snýst ekkert um ást og oft eiga þessir menn fleiri konur um ævina og alltaf snýst sambandið um nauðungarstjórnun.“

Að sjá rauðu flöggin

Þær konur sem sleppa úr ofbeldissamböndum setja sig í mikla hættu að sögn Jane.

„Þær eru útsettar fyrir því að lenda í alvarlegu ofbeldi og jafnvel morði.“

Hvernig er hægt að ná til þessara kvenna áður en þær verða hreinlega myrtar?

„Fræðsla og þekking. Sum rauðu flöggin sem eru til staðar, teljum við ekki hættuleg. Við teljum ekki að sá maður sem áður hefur beitt ofbeldi í sambandi, muni endurtaka leikinn. En þeir munu gera það, án undantekninga. Við höldum að þegar samband fer mjög hratt af stað að það sé ekki rautt flagg, heldur sé það ást og ástríða. Og hvað varðar afbrýðisemi, þá er það eitt stærsta rauða flaggið, en við konur erum stundum upp með okkur vegna hennar og sjáum það svo að maðurinn elski okkur svo mikið að hann hagi sér á afbrýðissaman máta. Við þurfum að kenna fólki að afbrýðisemi er aldrei í lagi og þýðir ekki ást,“ segir hún og nefnir annað sem vert er að fólk viti:

„Fólk lemur þig ekki af því að missir stjórn á skapi sínu. Það lemur þig af því það vill kenna þér að þú mátt ekki haga þér svona; annars gerist það að þú verður lamin. Við þurfum að sjá að ofbeldi er tæki sem ofbeldismenn nota til að stjórna, en hefur ekkert að gera með að missa stjórn á sér. Þessu er einmitt öfugt farið; þeir eru með mjög mikla stjórn á sér,“ segir Jane.

Spurð um hvort áfengi og eiturlyf spili hér hlutverk, svarar Jane:

„Áfengi og eiturlyf skapa ekki nauðungarstjórnun. Það skapar ekki heimilisobeldi. En það gerir ástandið mun verra,“ segir hún og segir ofbeldismenn gjarnan reyna að afsaka sig með áfengisneyslu, en að það sé alls ekki rót vandans.

Vildi bjarga dóttur minni

Hvað eiga vinir eða aðstandendur að gera ef þeir sjá ástvin fasta í ofbeldissambandi?

„Þetta er svakalega snúið. Við vitum að það að fara frá ofbeldismanninum er það hættulegasta sem konan getur gert, en það er það sem við segjum þeim alltaf að gera. Og það er vissulega rétt að segja það, því ekkert mun breytast. En það þarf að gera það á öruggan hátt. Ég hef sjálf reynsluna því dóttir mín var föst í ofbeldissambandi og ég vildi fara og bjarga henni. Það er það sem allir vilja gera, en það virkar ekki þannig. Þú þarft að fara lengri leiðina; þú þarft að vera allt sem ofbeldismaðurinn er ekki; traust, áreiðanleg, ástúðleg og án dómhörku. Þetta er virkilega erfitt!“

Hlusta konur ekki á þessi ráð?

„Þær hlusta! Þær fara ekki endilega eftir þínum ráðum en þegar þær eru komnar á þann stað að þeim finnst þær nógu öruggar til að fara, þá koma þær til þín. Áður en það gerist, geturðu haldið áfram að tala við þær, ekki með því að dæma þær, heldur að sýna þeim fram á hvaða hegðun er röng eða óeðlileg og að þær ættu ekki að sætta sig við slíkt,“ segir hún og segir aðstandendur oft ekki vita fyrir víst hvað er að gerast, en grunar að ekki allt sé með felldu.

„Ef konan segir aldrei neitt, en þig grunar eitthvað, er í lagi að vekja máls á því og spyrja hana hvort allt sé í lagi og að þú sért til staðar ef á þarf að halda.“

Hættu með honum strax!

Hvað á kona að gera sem finnur sig í nýju sambandi og fréttir að maðurinn hafi beitt nauðungarstjórnun í fyrri samböndum?

„Hættu með honum strax! Hann mun alltaf vera stjórnsamur og hættulegur. Hann notar kannski ólíkar aðferðir á nýjar konur, en hann breytist ekki og með tímanum mun hann beita nauðungarstjórnun.“

Geta menn betrað sig?

„Þetta er erfið spurning. Án meðferða munu þeir aldrei breytast. Sumir breytast aldrei, þrátt fyrir að fara í gegnum betrunarmeðferð. Aðrir eru haldnir persónuleikaröskunum og þeir munu aldrei nokkurn tímann breytast. Einstaka maður hefur getuna til að breytast, en fæstir leita sér hjálpar.“

Sjálfsvíg tíð vegna ofbeldis

Jane starfaði lengi sem lögreglumaður í Portsmouth og sá sinn skerf af heimilisofbeldi.

„Það sem breytti mér var að ég sá hvernig fólk afsakaði sífellt heimilisofbeldi; kollegar mínir, dómstólar, jafnvel vinir og ættingjar. Það sló mig rosalega því það eru þessar afsakanir sem valda því að ofbeldið heldur áfram. Það þýðir ekki að nota afsakanir eins og: „Ó, hann lemur mig bara þegar hann er fullur“, eða „Æ, hann missti bara stjórn á skapi sínu“, eða „Hann er bara afbrýðissamur“. Við verðum að hætta þessu!“ segir hún.

„Auðvitað haga ekki allir menn sér svona; það eru ákveðnar týpur. En ef þú ert í sambandi við svona týpu, skaltu forða þér,“ segir hún og segist einnig hafa skoðað tilvik þar sem konur myrtu eiginmenn sína.

„Þær konur skiptast í tvo hópa; í stærri hópnum eru þær sem drápu mennina sína af þær höfðu sætt ofbeldi í áraraðir og svo er lítill hópur sem eru nákvæmlega eins og þeir menn sem myrða konur. En þær eru miklir færri en mennirnir sem myrða.“

Hvað eru margar konur myrtar af mökum sínum árlega í Bretlandi?

„Eitt af því sem við tölum aldrei um eru dauðsföll kvenna af völdum sjálfsvígs vegna heimilisofbeldis, en þær tölur eru fjór- eða fimmfalt hærri en dauðsföll vegna morða. Það er nýlega farið að skoða þetta, en opinberar tölur segja tvær konur á viku myrtar í Englandi og Wales, en tölurnar eru mun hærri. Við erum að missa fjórar til tíu konur á viku vegna sjálfsvíga sem rakin eru til heimilisofbeldis. Og nú erum við að skoða það sem við köllum „falin“ morð, en það eru óvænt og skyndileg dauðsföll kvenna, sem eru í þessum ofbeldissamböndum, en það er ekki rannsakað sem morð. Konur falla fram af svölum eða detta niður tröppur; kynlífsleikur fer illa eða þær lenda í bílslysi. Við erum búin að sjá tvö bílslys sem reyndust vera morð. Við höldum að þessi földu morð séu jafn mörg ef ekki fleiri en augljósu morðin,“ segir Jane og segir konur sem velja sjálfsvíg sjá enga aðra leið út.

„Þær eru fastar í heljargreipum og vita að ef þær fara, eykst hættan til muna. Þær vita það. Þá hefst stríðið,“ segir Jane og segir konur þá lenda í stöðugri áreitni, þær séu jafnvel hundeltar og farið í hart vegna forræðis barna. Oft endi það með hræðilegu ofbeldi og jafnvel morði.

„Konur sem missa alla von og finnst þær aldrei geta losnað út úr sambandinu, velja þá sjálfsvíg.“

Myrti þrjár eiginkonur

Hvernig getum við frætt og alið upp okkar drengi þannig að þeir verði ekki svona menn?

„Þetta á sér rætur í samfélaginu; flestum þessara manna finnst þeir eiga rétt á þessari hegðun af því samfélagið segir hana í lagi. Það sé í lagi að vera „maðurinn“, að það sé í lagi að vera við stjórnvölinn. Við fáum þessi skilaboð, bæði beint og óbeint, sí og æ! Horfðu á hefðirnar í kringum brúðkaupsserímóníur! Þar eru þessi skilaboð augljós. Við þurfum að koma drengjum í skilning um að þú átt ekki maka þinn. Við þurfum að segja stelpum að þær eiga ekki að vera eign manna sinna og að það sé ekki eðlilegt að karlmaðurinn stjórni.“

Jane segir alveg ótrúlegt hvað kvennamorðingjar sleppi oft vel undan réttvísinni í Bretlandi.

„Í einu tilviki var maður að drepa sína þriðju konu. Og fyrst núna fékk hann lífstíðardóm! Í fyrsta sinn bar hann fyrir sig sjálfsvörn og sagði hana vera ofbeldismanninn. Hún var látin og gat ekki varið sig. Í annað sinn bar hann við geðveiki. Það var loksins í þriðja sinn sem hann var dæmdur,“ segir hún og segir þriðju konuna ekki hafa vitað af hinum morðunum.

„Ég lenti í því eftir að bókin kom út að kona ein hringdi brjáluð út í mig fyrir að „tala illa um“ manninn hennar, sem hafði myrt fyrrum konu sína. Sá fékk bara tveggja ára fangelsisdóm, þrátt fyrir að hafa grafið konuna í bakgarðinum. Hann sagði dómaranum að hún hefði verið leiðindaskjóða og dómarinn svaraði, „æ aumingja þú“. Ég er ekki að grínast!,“ segir hún og segir að flestir dómara á Englandi séu karlmenn, þó að það sé aðeins að breytast.

„En við konur erum líka stundum líka að afsaka þessa menn með því að segja að konan hafi verið leiðinleg eða daðurdrós.“

Morðin eru skipulögð

Finnst þér að þín vinna hafi haft einhver áhrif til góðs?

„Já, ég hef séð breytingar og tímalínan mín er nú notuð í réttarkerfinu og víðar. Aðalvinnan mín felst í að fara á milli staða og kynna og þjálfa, til að mynda dómara og lögfræðinga, þannig að ég veit að ég er að hafa áhrif til góðs,“ segir hún og segir bókina hafa verið þýdda yfir á rússnesku, kínversku og tyrknesku, nokkuð sem kom henni verulega á óvart.

„Ég er yfir mig hissa hvað bókin er að hafa mikil áhrif. Margar konur lesa bókina og átta sig á því á hvaða stigi ofbeldissambandsins þær eru. Eins er lögreglan farin að nota tímalínuna og segja að hún sé með einstakling á stigi sjö, til að mynda. Þannig að orðræðan er að breytast,“ segir Jane og leggur áherslu á að þegar ofbeldissamband endar með morði, sé ljóst í gegnum rannsóknir að í 85% tilvika sé morðið planað.

„Þetta eru ekki ástríðuglæpir og ég myndi ganga svo langt að segja að ekkert morðana sé það.“