Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Formanni Miðflokksins er tíðrætt um umbúðir en ekkert innihald þegar kemur að stjórnmálunum. Ljóst er af þessu að hann þekkir það betur en flestir.

Guðlaugur Þór Þórðarson

Miðflokksmenn fara mikinn í fjölmiðlum um loftslagsmál. Þótt erfitt sé að skilja málflutning þeirra er óhjákvæmilegt að benda á nokkrar staðreyndir úr fortíðinni.

Þannig er mál með vexti að þær skuldbindingar sem við keppumst nú við að uppfylla eru ekki nýtilkomnar. Við fullgiltum Kýótó-bókunina árið 2002 í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og Parísarsáttmálann árið 2016 í tíð ríkisstjórnar sömu flokka undir forsæti Sigmundar Davíðs.

Sigmundur Davíð, þáverandi forsætisráðherra, brá sér til Parísar á COP 21 og hélt þar ræðu 30. nóvember 2015. Þar sagði hann meðal annars:

„Í dag er París í miðju athygli heimsbyggðarinnar, sem ljósviti vonar. Við erum hér saman komin til að styðja nýtt loftslagssamkomulag, sem mun gagnast okkur öllum, kynslóðum framtíðar og sameiginlegu heimili, jörðinni.“

Og hann bætti við:

„Við erum nú aðeins nokkrum dögum frá því að ná sögulegum áfanga: Loftslagssamkomulagi sem nær til mestallrar hnattrænnar losunar og styður við aðlögun og grænan vöxt í þróunarríkjum. Það er mikið og flókið verkefni að afkola efnahagskerfi okkar, en við þurfum að nálgast það með jákvæðum hætti. Markmiðið er innan seilingar. Ísland styður metnaðarfullt samkomulag í París, sem heldur okkur innan 2°C markmiðs.“

Umbúðir en ekki innihald

Raunar var það svo að á COP-ráðstefnuna 2014 mættu fjórir embættismenn frá Íslandi. Árið 2015 þegar Sigmundur hélt ræðu á leiðtogafundinum taldi íslenska sendinefndin 70 manns. Þáverandi samflokksmenn forsætisráðherrans, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra, tóku bæði þátt í viðburðum á þinginu. Öllum má vera ljóst á þessari gífurlegu fjölgun í sendinefndinni hve mikil áhersla var á loftslagsmál af hálfu forsætisráðherra.

Sigmundur Davíð nýtti líka ræðutíma sinn á þjóðhátíðardaginn 17. júní og á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna til að ræða áherslur Íslands í loftslagsmálum. Á sama tíma og þessar ræður voru haldnar var tími ríkisstjórnarinnar ekki nýttur til að stuðla að framleiðslu grænnar orku, eins og sést vel í raforkuspá Landsnets sem birtist fyrr í vikunni. Það var ekki fyrr en á fyrstu mánuðum núverandi ríkisstjórnar sem kyrrstaða í orkumálum var rofin þegar tillaga mín um 3. áfanga rammaáætlunar var samþykkt á Alþingi.

Formanni Miðflokksins er tíðrætt um umbúðir en ekkert innihald þegar kemur að stjórnmálunum. Ljóst er af þessu að hann þekkir það betur en flestir.

Sæstrengur

Sigmundur Davíð var upptekinn við annað þegar hann réð ríkjum í forsætisráðuneytinu. Skemmst er að minnast þess þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra og nú formaður Miðflokksins, átti fund með þáverandi forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, í Alþingishúsinu við Austurvöll 28. október 2015. Þar sammæltust þeir um að setja á laggirnar vinnuhóp sem var falið að skoða möguleika þess að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands.

Þegar David Cameron kom hingað til lands til fundar við íslenska forsætisráðherrann hafði forsætisráðherra Bretlands ekki komið til Íslands síðan Winston Churchill heilsaði upp á breska hernámsliðið hér árið 1941. Það eina markverða sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem forsætisráðherra, ákvað með breskum kollega sínum í þessari mjög svo sögulegu heimsókn var einmitt að kanna möguleikann á því að leggja raforkusæstreng milli landanna tveggja.

Sitjum uppi með fortíðina

Það hefur legið fyrir í mörg ár að við þyrftum að gera upp tímabilið 2013-2020 með kaupum á losunarheimildum til að standa við skuldbindingar okkar.

Við sem nú störfum að því alla daga að ná settum markmiðum íslenskra stjórnvalda í nútíð og framtíð þurfum að byggja á þeirri vinnu sem átt hefur sér stað í fortíðinni. Ef þáverandi ráðamenn hefðu undirbyggt yfirlýsingar sínar með aðgerðum – þá þyrftum við ekki að grípa til ráðstafana eins og að kaupa heimildir af Slóvakíu fyrir 350 millj. kr. Það hefði verið nær að eyða þeim fjármunum hér heima í skógrækt og landgræðslu. Reyndar er það svo að fjármálaráðuneytið hefur selt losunarheimildir fyrir 13 milljarða króna á undanförnum árum.

En við sitjum uppi með fortíðina – bæði ég og Miðflokkurinn, þótt hann kannist ekki við ábyrgð sína nú.

Höfundur er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Höf.: Guðlaugur Þór Þórðarson